Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 4. feb. 2020

Einn af hverjum þremur fær krabbamein

  • Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Í dag er Alþjóðlegi krabbameinsdagurinn og þá beinum við sjónum að því sem vel hefur tekist – og því sem betur má fara þegar kemur að baráttunni gegn krabbameinum.

Um þriðjungur Íslendinga fær krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni en helmingur allra krabbameina greinist eftir 65 ára aldur. Krabbamein eru svo algeng að flest okkar eiga að minnsta kosti einn nákominn sem fengið hefur krabbamein. Á Íslandi greindust sem dæmi að meðaltali 1647 einstaklingar með krabbamein á ári á árabilinu 2014 – 2018. Þeim fjölgar hins vegar sem lifa eftir að hafa fengið krabbamein og í árslok 2018 voru 15.294 einstaklingar á lífi, þar af 6.832 karlar og 8.462 konur.

Þrátt fyrir framfarir í greiningu og meðferð er yfir fjórðungur dánarmeina ennþá af völdum krabbameina en bæði nýgengi og dánartíðni af völdum krabbameina fer sem betur fer lækkandi. Þó nýgengi lækki fjölgar samt krabbameinstilvikum hér á landi, fyrst og fremst af því að landsmönnum fjölgar og þjóðin eldist.

Eru krabbamein alltaf lífshættuleg?

Umræða um krabbamein er flókin. Greining krabbameins er flestum mikið áfall, því enn er það svo að flestir tengja orðið krabbamein við lífshættu. Það er hins vegar ekki endilega raunin því mörg krabbamein er hægt að lækna og öðrum er hægt að halda niðri í mjög langan tíma, líkt og mörgum langvinnum sjúkdómum. Þeir sem greinast með þessa sjúkdóma þurfa því ekki endilega að óttast um líf sitt þó meðferðin sé hins vegar oft á tíðum afar erfið og geti skert lífsgæði til skemmri eða lengri tíma.

Framfarir í lækningum á öðrum krabbameinum, sérstaklega þeim sjaldgæfari, eru hins vegar oft á tíðum mun minni og lífshorfur takmarkaðar. Við greiningu slíkra sjúkdóma blasir við allt annar og alvarlegri veruleiki.

Meiri þekking á krabbameinum og alvarleika þeirra er mikilvæg, við þurfum öll að vita betur hvað við er að fást í hverju tilviki.

Áskoranir og leiðir

Á alþjóðlega krabbameinsdeginum reikar hugurinn víða, áskoranirnar eru sannarlega margar. Árangur hér á landi er afar góður varðandi greiningu og meðferð og með aukinni gæðaskráningu á greiningu og meðferð í samstarfi Krabbameinsfélagsins og spítalanna er hægt að fylgjast enn betur með, til að tryggja árangur til framtíðar. Sjúkratryggingar Íslands veittu nýverið 220 milljónum til endurhæfingar þeirra sem fá krabbamein, með samningi við Ljósið. Það er risastórt framfaraskref sem ber að fagna. En áhyggjuefnin eru líka til staðar. Aðstaða krabbameinssjúklinga á dag- og göngudeild Landspítala er óboðleg og afar brýnt að bæta úr. Mönnunarvandi í heilbrigðisþjónustunni er sífellt áhyggjuefni, ekki minnst þegar ljóst er að þeim fjölgar sem þurfa þjónustu krabbameinseininganna.

Forvarnir

Huga þarf mun betur að forvörnum en nú er gert. Við öðlumst sífellt meiri upplýsingar um hvernig hægt er að draga úr líkum á krabbameinum með heilbrigðum lífsstíl. Mottumars er skammt undan og þar verður lögð áhersla á hreyfingu sem leið til að draga úr líkum á að karlmenn fái krabbamein. Félagið býður karlmönnum upp á stutt námskeið í samstarfi við hlaup.is og stendur fyrir Karlahlaupi þann 1. mars næstkomandi sem hentar öllum karlmönnum, hægum og hröðum.

Stuðningsnetið

Að greinast og lifa með krabbamein er sérstök reynsla og enginn þekkir hana eins vel og þeir sem hafa gengið í gegnum það sjálfir. Í dag hefst vitundarvakning Krabbameinsfélagsins og Krafts, eins aðildarfélags félagsins um Stuðningsnetið, undir yfirskriftinni Ég skil þig. Í Stuðningsnetinu býður fjöldi einstaklinga, sem fengið hefur krabbamein eða eru aðstandendur, fram krafta sína til að styðja fólk í sömu stöðu. Það er ómetanlegt.

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Greinin birtist fyrst á Visir.is .

 


Fleiri nýjar fréttir

1. mar. 2024 : Við erum að kalla þig út, kall!

Við fögnum framförum í greiningu og meðferð en best er auðvitað ef hægt er að koma í veg fyrir krabbamein. Vísindin vísa okkur leiðina og rannsóknir sýna að 30 til 40% krabbameina tengjast lífsstíl. Það þýðir að ýmsar lífsvenjur, t.d. tóbaksnotkun, áfengisneysla, hreyfingarleysi, mataræði og fleiri þættir geta haft áhrif á líkurnar á ákveðnum tegundum krabbameina.

Lesa meira

29. feb. 2024 : Köllum kalla þessa lands út!

Mottumars, árlegt árvekni- og fjáröflunarátak tileinkað krabbameinum hjá körlum hefst í dag. Kallaútkall er yfirskrift átaksins í ár þar sem lögð er áhersla á forvarnargildi hreyfingar. Regluleg hreyfing dregur úr hættunni á krabbameinum, en allt of margir karlmenn hreyfa sig ekki nóg til að njóta þessara verndandi áhrifa. Það þarf ekki nema örfáar mínútur af hreyfingu á dag til að ná fram jákvæðum áhrifum.

Lesa meira

28. feb. 2024 : Upp með sokkana og í Mottumarshlaupið 2024

Komdu með í fyrsta Mottumarshlaup Krabbameinsfélagsins sem haldið verður á hlaupársdeginum 29. febrúar. Við lofum stuði og stemmningu um leið og við hreyfum okkur til stuðnings góðum málstað!

Lesa meira

27. feb. 2024 : Sjöunda árið í röð fær forsetinn fyrsta parið

Forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni hefur frá árinu 2018 verið afhent fyrsta parið af Mottumarssokkunum sem seldir eru til styrktar Krabbameinsfélaginu í Mottumars, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki sem tileinkað er krabbameinum hjá körlum. Forsetinn hefur sýnt verkefninu ómetanlegan stuðning í gegnum árin.

Lesa meira

27. feb. 2024 : Mottumarssokkarnir hannaðir af AS WE GROW

Það eru þær Gréta Hlöðversdóttir, Snæfríð Þorsteins og Kamilla Henriau sem eru hugmyndasmiðirnir og hönnuðirnir á bakvið sokkana sem eru einstaklega fallegir. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?