Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 14. ágú. 2018

„Ég hleyp af því ég get það“

Krabbameinsfélagið hefur fengið að láni einkunnarorð Gunnars Ármannssonar í Reykjavíkurmaraþoninu, en í ár tekur Gunnar þátt í sjötta sinn.

Árið 2011 safnaði Gunnar áheitum fyrir Krabbameinsfélagið með því að hlaupa fimm maraþon til að halda upp á að fimm ár voru þá liðin frá því hann lauk krabbameinsmeðferð. Hann bjó sér til einkunnarorðin „Ég hleyp af því ég get það“ sem hann vonaði að myndu einnig hvetja aðra til að hlaupa fyrir félagið með sömu tilfinningu í brjósti. 

Einkunnarorð Gunnars verða afhent hlaupurum sem hlaupa til styrktar Krabbameinsfélaginu til að festa á hlaupaboli sína á Fit & Run sýningunni í Laugardalshöll fimmtudaginn 16. ágúst og föstudaginn 17. ágúst. 

Gunnar þekkir krabbamein betur en margir, en auk þess að glíma sjálfur við blóðkrabbamein, missti hann eiginkonu sína úr leghálskrabbameini árið 2014. Sögu sinni deilir hann á bloggsíðunni Garmur: „Árið 2014 lést eiginkona mín af völdum krabbameins á hlaupadeginum þegar 3 tímar og 28 mínútur voru liðnar frá því að hlaupið hófst. Það var um það bil sá tími sem ég hafði fyrirfram hugsað mér að hlaupa á ef ég hefði tekið þátt,“ segir hann á síðunni. Árið 2015 hljóp hann til minningar um eiginkonu sína til styrktar Krabbameinsfélaginu.

Í ár hleypur Gunnar til minningar um góðan hlaupavin sem er nýfallinn frá eftir baráttu við krabbamein. Undirbúningur fyrir hlaupið hefur hins vegar ekki gengið áfallalaust fyrir sig, því á tímabili leit út fyrir að hann þyrfti að nýju að hefja lyfjameðferð, sem ekki reyndist svo þörf á.

„Um leið og við þökkum Gunnari ómetanlegan stuðning á liðnum árum og leyfi fyrir notkun á einkunnarorðunum, óskum við honum alls hins besta bæði í hlaupinu og lífinu sjálfu. Saga hans getur verið okkur öllum innblástur,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Starfsfólk félagsins afhendir hlauprum hvatningarmiðana í Laugardalshöllinni kl 15-20 fimmtudaginn 16. ágúst og 14-19 föstudaginn 17. ágúst.

Ég hleyp af því að ég get það!


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?