Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 14. ágú. 2018

„Ég hleyp af því ég get það“

Krabbameinsfélagið hefur fengið að láni einkunnarorð Gunnars Ármannssonar í Reykjavíkurmaraþoninu, en í ár tekur Gunnar þátt í sjötta sinn.

Árið 2011 safnaði Gunnar áheitum fyrir Krabbameinsfélagið með því að hlaupa fimm maraþon til að halda upp á að fimm ár voru þá liðin frá því hann lauk krabbameinsmeðferð. Hann bjó sér til einkunnarorðin „Ég hleyp af því ég get það“ sem hann vonaði að myndu einnig hvetja aðra til að hlaupa fyrir félagið með sömu tilfinningu í brjósti. 

Einkunnarorð Gunnars verða afhent hlaupurum sem hlaupa til styrktar Krabbameinsfélaginu til að festa á hlaupaboli sína á Fit & Run sýningunni í Laugardalshöll fimmtudaginn 16. ágúst og föstudaginn 17. ágúst. 

Gunnar þekkir krabbamein betur en margir, en auk þess að glíma sjálfur við blóðkrabbamein, missti hann eiginkonu sína úr leghálskrabbameini árið 2014. Sögu sinni deilir hann á bloggsíðunni Garmur: „Árið 2014 lést eiginkona mín af völdum krabbameins á hlaupadeginum þegar 3 tímar og 28 mínútur voru liðnar frá því að hlaupið hófst. Það var um það bil sá tími sem ég hafði fyrirfram hugsað mér að hlaupa á ef ég hefði tekið þátt,“ segir hann á síðunni. Árið 2015 hljóp hann til minningar um eiginkonu sína til styrktar Krabbameinsfélaginu.

Í ár hleypur Gunnar til minningar um góðan hlaupavin sem er nýfallinn frá eftir baráttu við krabbamein. Undirbúningur fyrir hlaupið hefur hins vegar ekki gengið áfallalaust fyrir sig, því á tímabili leit út fyrir að hann þyrfti að nýju að hefja lyfjameðferð, sem ekki reyndist svo þörf á.

„Um leið og við þökkum Gunnari ómetanlegan stuðning á liðnum árum og leyfi fyrir notkun á einkunnarorðunum, óskum við honum alls hins besta bæði í hlaupinu og lífinu sjálfu. Saga hans getur verið okkur öllum innblástur,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Starfsfólk félagsins afhendir hlauprum hvatningarmiðana í Laugardalshöllinni kl 15-20 fimmtudaginn 16. ágúst og 14-19 föstudaginn 17. ágúst.

Ég hleyp af því að ég get það!


Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?