Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 20. apr. 2020

Covid-19 og krabbamein – Verið vakandi fyrir einkennum

  • Við erum við símann. Ráðgjafarteymi Krabbameinsfélagsins samansendur af félagsráðgjafa, sálfræðingum, hjúkrunarfræðingum og lækni.

Starfsfólk heilsugæslunnar hér á landi, ásamt landlækni, hefur haft af því nokkrar áhyggjur að komum á heilsugæsluna hafi fækkað. Þaðan hafa komið skýrar leiðbeiningar um að fólk hiki ekki við að leita þangað eins og áður, vegna einkenna sem það kann að hafa.

„Það má ekki gerast að Covid-19 faraldurinn verði til þess að aðrir sjúkdómar sem skiptir máli að greina snemma, þar með talin krabbamein, greinist ekki eða seinna en annars hefði verið,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins: „Brýnt er að muna að heilbrigðisþjónusta er áfram í boði.“

Krabbameinsfélagið og systurfélögin á Norðurlöndunum eiga náið samstarf og fylgjast vel með heilbrigðiskerfinu og hvort og hvernig Covid-faraldurinn hafi áhrif á krabbameinssjúklinga eða þá sem greinast með krabbamein.

„Viðlíka áhyggjur eru uppi á hinum Norðurlöndunum og við viljum hvetja fólk til að vera vakandi fyrir einkennum sem geta bent til krabbameina, því fyrr sem krabbamein greinast, því betri eru möguleikar á að meðferð beri góðan árangur,“ segir Halla. Upplýsingar um einkenni krabbameina er að finna hér.

Krabbameinsmeðferð

Krabbameinsmeðferðum er haldið áfram á öllum Norðurlöndunum, hvort sem um er að ræða skurð-, geisla- eða lyfjameðferðir en forgangsröðun og einstaklingsmiðað mat á þjónustu er aukið. Víðast hvar virðist hafa verið tekin upp sú stefna að sinna viðtölum, eftirfylgd og slíku mest í gegnum síma. Að sama skapi eru víða takmarkanir eða bann við því að sjúklingar hafi aðstandendur með sér þegar þeir fá þjónustu á spítölum. Heimsóknarbanni er beitt í mismiklum mæli í löndunum, sem er í samræmi við mismunandi aðgerðir gegn Covid-19 í löndunum.

Þær breytingar sem hafa verið gerðar á þjónustu geta skapað óöryggi hjá sjúklingum og aðstandendum og rétt er að benda þeim á að huga meðal annars að því að:

  • undirbúa sig fyrir símtöl við heilbrigðisstarfsfólk, ef von er á þeim, með því að skrifa niður spurningar sem fólk vill fá svör við
  • fara í lok símtals yfir þær upplýsingar sem þeir töldu sig fá í símtalinu og fá það staðfest hjá viðmælanda
  • fá staðfest sömuleiðis hvenær næst verði haft samband eða hvenær næsti tími sé
  • fá að hafa hljóðnema á í viðtölum, svo aðrir geti fylgst með
  • skrifa hjá sér jafnóðum upplýsingar sem fást í símtali og upplýsa sína nánustu eftir atvikum

Að auki má benda á nokkur hagnýt ráð og gagnlegar upplýsingar sem félagið hefur gefið út í tengslum við krabbamein og Covid-19.

Ráðgjafarþjónusta félagsins í fullri virkni - í síma og á netinu

Margir finna fyrir óöryggi og ýmsar spurningar geta vaknað á þeim tímum sem nú eru uppi. Starfsfólk Ráðgjafarþjónustunnar er til þjónustu reiðubúið og svarar spurningum varðandi ofangreint og annað sem snýr að krabbameinum í síma 800-4040 alla virka daga. Hikið ekki við að hafa samband. Einnig hefur þjónustan verið aukin á netinu. Frekari upplýsingar er finna á heimasíðu félagsins, krabb.is og á samfélagsmiðlum.

Aukin þjónusta á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga

Ástæða er til að nefna að á Landspítala hefur verið aukin þjónusta við sjúklinga á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga með símaþjónustu eftir lokun deildarinnar frá kl. 16–22. Frekari upplýsingar er að finna hér.

Skimun fyrir krabbameinum

Ólíkt er eftir löndum og landsvæðum hvort skimun hefur verið haldið áfram í faraldrinum, en þar sem hún er áfram í boði hefur frekar dregið úr þátttöku. Hér á landi var skimun fyrir krabbameinum í brjóstum og leghálsi hætt tímabundið í framhaldi af fyrirmælum landlæknis um frestun valkvæðra skurðaðgerða og annarra ífarandi aðgerða þann 23. mars síðastliðinn. Upplýsingar um hvenær skimun hefst aftur verða sendar út um leið og þær liggja fyrir.

 


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?