Ása Sigríður Þórisdóttir 6. apr. 2020

Blóðskimun til bjargar

Krabbameinsfélagið telur rannsóknir af þessu tagi skipta mjög miklu máli. Ef hægt er að greina forstig krabbameina eða meinin á byrjunarstigi aukast líkur á að koma megi í veg fyrir þau eða lækna þau.

Starfsemi Krabbameinsfélagsins byggir á söfnunarfé sem er meðal annars nýtt til vísindastarfs, rannsókna, fræðslu og forvarna. Eitt af þeim verkefnum sem félagið styrkir veglega er rannsóknin Blóðskimun til bjargar, með því að kosta aðstöðu fyrir rannsóknina í húsnæði félagsins í Skógarhlíð. Krabbameinsfélagið telur rannsóknir af þessu tagi skipta gríðarlega miklu máli fyrir þekkingu á krabbameinum.

Við tókum tali Dr. Sigrúnu Þorsteinsdóttur lækni, sem er nýdoktor við rannsóknina og spurðum hana út í hvernig rannsóknin gangi. Sigrún segir að yfir 80 þúsund Íslendingar yfir 40 ára hafi samþykkt að taka þátt í rannsókninni og búið sé að senda yfir 67 þúsund blóðprufur í rafdrátt. Enn er verið að safna sýnum. “Nú þegar hafa 2900 greinst með forstigið góðkynja einstofna mótefnahækkun (MGUS), algengið er samkvæmt því um 4,7% á Íslandi, hærra hjá körlum eða 5,6% en 3,9% hjá konum” segir Sigrún.

Hvernig fer þetta fram?

Sigrún segir að þeim sem greinast með forstig sé raðað af slembni í þrjá hópa og tveir af hópunum kallaðir inn í rannsóknir. “Úr þeim hafa verið tekin 1200 beinmergssýni og þannig greindir 122 með mallandi mergæxli sem er lengra gengið forstig. Við höfum greint 24 með mergæxli og þau eru flest komin í meðferð á Landspítala eða á sjúkrahúsinu á Akureyri” segir Sigrún.

Rannsóknargögn sem nýtast til framtíðar

Að sögn Sigrúnar hefur miklu af sýnum verið safnað í lífsýnasafn, bæði blóðsýnum, þvagi og beinmerg. Sigrún segir rannsóknarhópinn hafa aðgang að mörgum íslenskum gagnagrunnum (Krabbameinsskrá, ICD greiningum úr sjúkrahúslegum, göngudeildum og heilsugæslum, lyfjagagnagrunni og fleiru). Þannig séu því mörg rannsóknartækifæri í gögnunum. Andleg líðan er eitt af því sem allir eru spurðir um, segir Sigrún, með reglulegum spurningalistum. Sú rannsókn hefur fengið myndarlega styrki úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins.

Þátttaka landsmanna skiptir máli

“Aðal rannsóknarspurningin er hvort að það borgi sig að skima fyrir forstigi mergæxlis, en henni höfum við ekki svarað enn. Það er mikil vinna á bak við alla þessa sýnasöfnun og rannsóknir og við erum mjög þakklát öllum sem taka þátt í því með okkur og þátttakendunum sem eru mjög viljugir til að leggja sitt af mörkum til vísindanna” segir Sigrún að lokum.


Fleiri nýjar fréttir

20. sep. 2023 : Beint streymi: Málþing í tilefni alþjóða­dags krabba­meins­rannsókna

„Varðar mig eitthvað um krabba­meins­rann­sóknir? Já, því vísindin eru leiðin fram á við”. Þannig hljómar titill málþings sem Krabba­meins­félagið býður til í tilefni alþjóða­dags krabba­meins­rann­sókna fimmtu­daginn 21. september kl. 16:30 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8.

Lesa meira

12. sep. 2023 : Bleika slaufan 2023: Komdu að leika

Krabbameinsfélagið leitar að fólki til að hjálpa okkur að búa til auglýsinguna fyrir Bleiku Slaufuna 2023. Auglýsingin er með stærra sniði í ár og þurfum við því aðstoð sem allra flestra.

Lesa meira

7. sep. 2023 : Tryggðu þér miða

Nú styttist í Bleiku slaufuna árlegt fjáröflunar- og árvekniátak Krabbameinsfélagsins, tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Tryggðu þér miða á opnunarviðburðinn sem verður í Þjóðleikhúsinu 28. september.

Lesa meira

5. sep. 2023 : „Ef ég held röddinni þá læt ég reyna á þetta“

Ljóðskáldið og rithöfundurinn Anton Helgi Jónsson stóð fyrir einstökum viðburði á Menningarnótt og safnaði um leið áheitum til styrktar Krabbameinsfélaginu. Viðburðurinn fékk heitið Ljóðamaraþon og gekk út á ljóðalestur undir berum himni í jafn langan tíma og sem nemur heimsmeti í maraþonhlaupi, eða í rúma tvo klukkutíma. Anton Helgi segir hér frá krabbameininu sem uppgötvaðist fyrir tilviljun, kirkjuskáldum og kráarskáldum og öðruvísi maraþonundirbúningi.

Lesa meira

5. sep. 2023 : Upplýsingafundur fyrir samstarfsaðila Bleiku slaufunnar

Vill þitt fyrirtæki vera samstarfsaðili Bleiku slaufunnar? Komdu á upplýsingafund sem haldinn verður í húsnæði Krabbameinsfélagsins 8. september nk. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?