Bleikar og bláar heyrúllur munu prýða tún á landsbyggðinni í sumar
Bændur, dreifingaraðilar og framleiðandi heyrúlluplasts efla vitund um brjóstakrabbamein og blöðruhálskrabbamein og styrkja Krabbameinsfélagið til rannsókna á sjúkdómunum.
Í fyrrasumar sló uppátækið ,,Bleikar heyrúllur" í gegn en um var að ræða átak bænda, dreifingaraðila og framleiðanda heyrúlluplasts um að minna á árvekni um brjóstakrabbamein og styrkja málefnið á sama tíma.
Framleiðandinn Trioplast, innlendir dreifingaraðilar og bændur, lögðu samtals fram andvirði þriggja evra af hverri seldri bleikri plastrúllu sem hver dugir á 26 bleikar heyrúllur á túni ef vafið er sexfalt. 900 þúsund krónur söfnuðust í átakinu sem notaðar voru til endurnýjunar tækja til brjóstamyndatöku í Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.
Bláar rúllur til styrktar rannsóknum á blöðruhálskrabbameini
Nú í sumar munu bláar heyrúllur einnig verða sjáanlegar á túnum á landsbyggðinni og er markmiðið með sölu bláa heyrúlluplastsins að minna á árvekni um blöðruhálskrabbamein. Þrjár evrur af sölu hverrar bleikrar rúllu munu renna til vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins og rannsókna á brjóstakrabbameini og að sama skapi munu þrjár evrur af sölu hverrar blárrar rúllu renna til vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins og rannsókna á blöðruhálskrabbameini.
Hugmynd viðskiptavinar Trioplast
Upprunalega hugmyndin er frá viðskiptavini framleiðanda heyrúlluplastsins, Trioplast, á Nýja Sjálandi sem bað um bleikt rúlluplast til að minna á árvekni vegna brjóstakrabbameins. Í framhaldinu voru gerðar tilraunir með bleika litinn og tryggt að hann stæðist ítrustu kröfur bænda. Nú þegar hafa bleikar heyrúllur hafið innreið sína í Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Nýja-Sjálandi, Sviss, Bretlandi og Írlandi og fjölda annarra landa og vakið mikla athygli.
Þátttakendur í átakinu bleik og blá rúlla
Framleiðandi heyrúlluplastsins er Trioplast en fyrirtækið er sænskt og hafa vörur félagsins verið til sölu á Íslandi í meira en 20 ár. Umboðsaðili Trioplast á Íslandi, Plastco hf. hefur umsjón með verkefninu. Dreifingaraðilar eru Kaupfélag Skagfirðinga, Bústólpi, Sláturfélag Suðurlands, Kaupfélag Vestur-Húnvetninga, Kaupfélag Borgfirðinga, Kaupfélag Steingrímsfjarðar og KM þjónustan Búðardal. Bændur geta allir tekið þátt með því að nálgast bleikt og blátt heyrúlluplast hjá dreifingaraðilum.
Myndasamkeppni 
Merktu þína mynd #bleikrulla eða #blarulla
Í tilefni af þessu skemmtilega frumkvæði bænda og dreifingaraðila verður haldin myndasamkeppni á Instagram
um skemmtilegustu og frumlegustu myndirnar. Öllum er velkomið að taka þátt og vekja athygli á mikilvægu málefni.
Brjóstakrabbamein og blöðruhálskrabbamein
Um 200 konur greinast á hverju ári og ein af hverjum níu fær brjóstakrabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni. Það er eitt fárra krabbameina sem hægt er að greina á byrjunarstigum með skipulagðri leit. Allar konur á aldrinum frá 40 til 69 ára fá boð frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins um að mæta í leit að brjóstakrabbameini á tveggja ára fresti.
Um 200 karlmenn greinast árlega með blöðruhálskrabbamein og er meðalaldur við greiningu um 70 ár. Blöðruhálskirtill er líffæri á stærð við valhnetu og hefur svipaða lögun. Oft veldur blöðruhálskirtilskrabbamein engum einkennum. Stækki meinið getur það þrýst á þvagrásina og valdið einkennum. Engin skipuleg leit hefur verið að krabbameini í blöðruhálskirtli, hvorki hérlendis né í nágrannalöndum. Ástæðan er sú að það próf sem hefur verið stuðst við hingað til, svokölluð PSA-mæling, uppfyllir ekki kröfur um skimunarpróf. Karlmenn sem eru með einkenni frá þvagvegum, eru með ættarsögu um sjúkdóminn eða komnir yfir fimmtugt og vilja fá upplýsingar um PSA-mælingu er ráðlagt að panta tíma hjá heimilislækni eða þvagfæraskurðlækni. Einnig er velkomið að hringja í starfsmenn Ráðgjafarþjónustunnar í síma 800 4040 kl. 9:00-16:00 virka daga.
Nánari upplýsingar um átakið
Nánari upplýsingar um átakið bleikar og bláar heyrúllur veita eftirfarandi aðilar:
- Kolbrún Silja Ásgeirsdóttir, kynningar- og fjáröflunarstjóri Krabbameinsfélagsins Netfang: kolbrun@krabb.is
- Sóley Jónsdóttir vefstjóri Krabbameinsfélagsins
Netfang: soley@krabb.is
Dreifingaraðilar:
Björn M. Svavarsson
Aðstoðarverslunarstjóri
Kaupfélag Skagfirðinga svf.
GSM 825 4626
Hólmgeir Karlsson
Framkvæmdastjóri
Bústólpi
GSM 893 9750
Elias Hartmann Hreinsson
Deildarstjóri búvörudeildar
Sláturfélag Suðurlands
GSM 898 0824
Reimar Marteinsson
Kaupfélagsstjóri
Kaupfélag Vestur-Húnvetninga
GSM 894 9939
Margrét Katrín Guðnadóttir
Dýralæknir / Verslunarstjóri
Kaupfélag Borgfirðinga
GSM 898 0034
Jón Eðvald Halldórsson
Kaupfélagsstjóri
Kaupfélag Steingrímsfjarðar
GSM: 862 8735
Karl Ingi Karlsson
KM þjónustan Búðardal
GSM: 895 6677