Ása Sigríður Þórisdóttir 1. okt. 2021

Bleika slaufan - VERUM TIL

Árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, Bleika slaufan, undir slagorðinu „VERUM TIL“ hefst í dag. Bleika slaufan er tileinkuð baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.

Bleika slaufan er tileinkuð baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Árlega greinast að meðaltali um 850 konur með krabbamein og 300 konur deyja að meðaltali úr krabbameinum. Í dag eru 9000 konur á lífi sem fengið hafa krabbamein.

Í átakinu í ár er lögð áhersla á að vera til. Lifum lífinu og verum til staðar þegar kona greinist með krabbamein og tilveran breytist snögglega.

Bleika slaufan - hálsmen

Bleika slaufan er hönnuð af Hlín Reykdal skartgripahönnuði. „Það er sannur heiður að hanna Bleiku slaufuna í ár og ég tileinka hana þeim sem eru að glíma við krabbamein og ástvinunum sem eru alltaf til staðar“ segir Hlín. „Verum til!''

Bleika slaufan kostar 2.900 krónur og er seld á bleikaslaufan.is og hjá fjölmörgum söluaðilum um land allt. Að vanda verður sparislaufa Bleiku slaufunnar til sölu í takmörkuðu upplagi.

Saga Láru

Í ár fáum við í Bleiku slaufunni að kynnast Láru sem segir okkur sína sögu. Saga hennar er persónuleg og einstök og hreyfir við okkur öllum. Lára missti móður sína úr brjóstakrabbameini þegar hún var unglingur. Síðar greindist Lára sjálf með krabbamein í brjósti. Lára er þakklát fyrir lífið og þakklát fyrir að vera til. Hennar saga sýnir að allar sögur enda ekki eins.

Ágóði

Allur ágóði Bleiku slaufunnar 2021 rennur til fjölbreyttrar starfsemi Krabbameinsfélagsins. Starfsemin felst m.a. í ókeypis ráðgjöf og stuðningi fyrir þá sem veikjast og aðstandendur þeirra, fræðslu og forvörnum, krabbameinsrannsóknum og hagsmunagæslu. Allt starfið miðar að því að að fækka nýjum tilfellum krabbameina, fækka dauðsföllum af völdum þeirra og að bæta lífsgæði þeirra sem veikjast og aðstandenda þeirra.

Málið er brýnt

Einn af hverjum þremur Íslendingum má búast við að greinast með krabbamein á lífsleiðinni. Með hækkandi aldri þjóðarinnar fer krabbameinstilvikum mjög fjölgandi og búist er við 28% aukningu þeirra á næstu 15 árum. Sem betur fer fer dánartíðni lækkandi þrátt fyrir aukið nýgengi. Fjölgun krabbameina og lifenda fylgir ört vaxandi þörf fyrir þjónustu og stuðning við þá sem hafa greinst og aðstandendur þeirra, bæði meðan á veikindum stendur og þegar þau eru yfirstaðin.

Við höfum náð árangri í baráttunni gegn krabbameinum. Í dag eru 9000 konur á lífi sem greinst hafa með krabbamein. Við viljum hins vegar og þurfum að ná enn betri árangri. Starfsemi Krabbameinsfélagsins byggir á stuðningi almennings og fyrirtækja í landinu. Með kaupum á Bleiku slaufunni leggur þú þitt af mörkum.


Fleiri nýjar fréttir

21. okt. 2021 : Fjölsótt málþing skorar á heil­brigðis­yfir­völd að setja brjósta­heilsu í for­gang

Málþing um brjóstakrabbamein fór fram miðvikudaginn 20. október að viðstöddu fjölmenni. Auk þess var fylgst með dagskránni í gegnum streymisveitu Krabbameinsfélagsins á ríflega 100 stöðum um land allt.

Lesa meira

21. okt. 2021 : Tengsl milli mataræðis á unglingsárum og brjóstakrabbameins

Nýverið birtist íslensk vísindagrein í American Journal of Epidemiology um áhrif vaxtarhraða á unglingsárunum á áhættuna að greinast með krabbamein í brjóstum og í blöðruhálskirtli síðar á ævinni.

Lesa meira

15. okt. 2021 : Bleiki dagurinn er í dag

Við finnum fyrir mikilli stemmningu í samfélaginu fyrir deginum og til að mynda hafa fjölmörg fyrirtæki komið við hjá okkur og keypt slaufur, sokka, fánalengjur, blöðrur og servíettur fyrir Bleika kaffið.

Lesa meira

14. okt. 2021 : VERUM TIL - mál­þing um brjósta­krabba­mein

Bleikt málþing um brjóstakrabbamein fer fram miðvikudaginn 20. október kl. 17:00-18:15 á vegum Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna,Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. 

Lesa meira
Halla Þorvaldsdóttir

14. okt. 2021 : Lífið breytir um lit

Bleikur október er runninn upp. Það er táknrænt að skipta um lit í október, í mánuðinum sem helgaður er krabbameinum hjá konum, því oftar en ekki er það líkast því að lífið skipti um lit þegar fólk greinist með krabbamein.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?