Ása Sigríður Þórisdóttir 30. sep. 2022

Bleika slaufan – SÝNUM LIT

Árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, Bleika slaufan, undir slagorðinu „SÝNUM LIT“ hefst í dag. Bleika slaufan er tileinkuð baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.

Í lok ársins 2020 voru 9.056 konur á lífi hér á landi, sem greinst höfðu með krabbamein. Á hverju ári greinast að meðaltali um 870 konur með krabbamein en því miður deyja um 300 konur að meðaltali á ári úr krabbameinum.

Þessar tölur endurspegla annars vegar að þjóðin er að eldast og hins vegar framfarir í greiningu og meðferð krabbameina.

Framfarir í greiningu og meðferð krabbameina hafa verið mjög miklar en alltaf er best ef hægt er að koma í veg fyrir krabbamein eða greina þau mjög snemma. Sterk tengsl eru milli lifnaðarhátta og krabbameina og í Bleiku slaufunni í ár vekur Krabbameinsfélagið sérstaka athygli á því hvað hægt er að gera til að draga úr líkum á krabbameinum. Hjá konum spila skimanir fyrir krabbameinum einna stærsta hlutverkið. Ár hvert bjarga skimanir fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstum lífi fjölda kvenna. Þau gætu þó verið enn fleiri ef fleiri konur nýttu sér reglulegt boð í skimun. Við hvetjum konur til að bóka tíma þegar þær fá boð. Því fyrr sem krabbamein eða forstig þess greinist því betri eru horfurnar.

Krabbamein varða okkur öll. Kaupum Bleiku slaufuna, þannig sýnum við lit.

Bleika slaufan er næla en Sparislaufan er hálsmen
Hönnuðir slaufunnar í ár eru þau Helga Friðriksdóttir og Orri Finnbogason hjá Orrifinn Skartgripum. Slaufan er fléttuð úr þráðum þar sem hver þráður gæti táknað hvert og eitt okkar og hvernig við leggjum málstaðnum lið. Við erum sterkust saman.

Slaufan er fléttuð úr bronsi og skreytt með bleikri perlu. Sem tákn er fléttan hlaðin merkingu, hún táknar vináttu og sameiningu. Þræðir fléttunnar varðveita minningar um kærleika og ást. Bleiki liturinn stendur fyrir umhyggju.

Bleika slaufan kostar 2.900 krónur og er seld á bleikaslaufan.is , hjá Orrifinn Skólavörðustíg 43 og hjá fjölmörgum söluaðilum um land allt . Að vanda verður Sparislaufa Bleiku slaufunnar til sölu í takmörkuðu upplagi hjá Krabbameinsfélaginu, Orrifinn og hjá Meba í Kringlunni.


Saga Ásdísar
Í auglýsingu Bleiku slaufunnar í ár er okkur sögð saga Ásdísar Ingólfsdóttur, framhaldsskólakennara og rithöfundar, sem greindist með brjóstakrabbamein í tvígang með fimm ára millibili.

Reynslu sinni lýsti hún í ljóðinu „Dregið verður um röð atburða“ en línur úr ljóðinu skapa þráðinn í auglýsingunni. Saga Ásdísar er einstök og sýnir okkur að lífið heldur áfram, hvað sem á dynur.

Asdis-auglskot_1664531346889

„Ég vona að það verði þeim sem eru að glíma við brjóstakrabbamein í dag hvatning að sjá að það er von.

Rétt eins og ég upplifði von við að heyra um konur sem höfðu glímt við brjóstakrabbamein og lifðu góðu lífi.“

Ásdís segir að það ylji að sjá einstaklinga bera Bleiku slaufuna því það sýni að viðkomandi hafi lagt Krabbameinsfélaginu lið í baráttunni við krabbamein.

Málið er brýnt og varðar okkur öll
Við viljum ná enn betri árangri varðandi krabbamein. Öll starfsemi Krabbameinsfélagsins byggir á stuðningi almennings og fyrirtækja í landinu. Markmið Krabbameinsfélagið eru skýr: að fækka þeim sem fá krabbamein, að fjölga þeim sem lifa af og bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Í fjölbreyttu starfi félagsins og aðildarfélaga þess er unnið að þessum markmiðum.

Með kaupum á Bleiku slaufunni og öðrum stuðningi við átakið gera einstaklingar og fyrirtæki í landinu Krabbameinsfélaginu kleift að veita fólki með krabbamein og aðstandendum þess ókeypis ráðgjöf sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga og félagsráðgjafa, sinna krabbameinsrannsóknum og fræðslu- og forvarnarstarfi.

Ágóða af Bleiku slaufunni nýtir Krabbameinsfélagið til að ná betri árangri í baráttunni gegn krabbameinum.

Kaupum og berum Bleiku slaufuna. Sýnum lit.Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Takk sjálfboðaliðar!

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og Krabbameinsfélagið vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins. Í tilefni dagsins fengum við nokkra sjálfboðaliða til að segja okkur frá því hvers vegna þau velja að leggja baráttunni gegn krabbameinum lið.

Lesa meira

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

2. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?