Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 25. sep. 2018

Bleika slaufan komin í forsölu

Það er ávallt gleðistund þegar Bleika slaufan er afhjúpuð, en þangað til hvílir leynd yfir hönnun hennar. Þú getur tryggt þér eintak í forsölu og fengið Bleiku slaufuna senda heim.

Næstkomandi föstudag kl 17 verður Bleika slaufan 2018 afhjúpuð í Kringlunni, en þá opnar Krabbameinsfélagið einnig glæsilega ljósmyndasýningu. Forsala Bleiku slaufunnar hófst í vefverslun okkar í dag og þeir sem nýta sér tækifærið og kaupa hana á vef Krabbameinsfélagsins fá hana senda heim með póstinum. Verð slaufunnar er 2.500 krónur.

Leynd hvílir yfir Bleiku slaufunni þar til hún er afhjúpuð í upphafi átaksins ár hvert. Hönnuður hennar í ár er Páll Sveinsson, gullsmíðameistari hjá Jóni og Óskari, en hann sigraði í samkeppni Krabbameinsfélagsins og Félags íslenskra gullsmiða um hönnun Bleiku slaufunnar 2018. Bleika slaufan 2018 táknar umhyggjuna og tárin sem geta fylgt því þegar einhver greinist með krabbamein.

Krabbameinsfélagið býður landsmönnum öllum á ljósmyndasýningu sem sýnd verður samtímis á fjórum stöðum á landinu. Sýningin BLEIK byggir á persónulegum sögum tólf kvenna sem hafa greinst með brjósta- eða leghálskrabbamein. Ásta Kristjánsdóttir, ljósmyndari, Sigríður Sólan, blaðamaður, Sóley Ástudóttir, förðunarfræðingur og Anna Clausen, stílisti, eiga veg og vanda að sýningunni sem stendur út októbermánuð í Kringlunni í Reykjavík, á Glerártorgi á Akureyri, í Krónunni á Selfossi og í Ráðhúsi Reykjanesbæjar.

Smelltu hér til að kaupa Bleiku slaufuna í forsölu. 

Þú getur líka fylgst með okkur á Facebook .


Fleiri nýjar fréttir

1. mar. 2024 : Við erum að kalla þig út, kall!

Við fögnum framförum í greiningu og meðferð en best er auðvitað ef hægt er að koma í veg fyrir krabbamein. Vísindin vísa okkur leiðina og rannsóknir sýna að 30 til 40% krabbameina tengjast lífsstíl. Það þýðir að ýmsar lífsvenjur, t.d. tóbaksnotkun, áfengisneysla, hreyfingarleysi, mataræði og fleiri þættir geta haft áhrif á líkurnar á ákveðnum tegundum krabbameina.

Lesa meira

29. feb. 2024 : Köllum kalla þessa lands út!

Mottumars, árlegt árvekni- og fjáröflunarátak tileinkað krabbameinum hjá körlum hefst í dag. Kallaútkall er yfirskrift átaksins í ár þar sem lögð er áhersla á forvarnargildi hreyfingar. Regluleg hreyfing dregur úr hættunni á krabbameinum, en allt of margir karlmenn hreyfa sig ekki nóg til að njóta þessara verndandi áhrifa. Það þarf ekki nema örfáar mínútur af hreyfingu á dag til að ná fram jákvæðum áhrifum.

Lesa meira

28. feb. 2024 : Upp með sokkana og í Mottumarshlaupið 2024

Komdu með í fyrsta Mottumarshlaup Krabbameinsfélagsins sem haldið verður á hlaupársdeginum 29. febrúar. Við lofum stuði og stemmningu um leið og við hreyfum okkur til stuðnings góðum málstað!

Lesa meira

27. feb. 2024 : Sjöunda árið í röð fær forsetinn fyrsta parið

Forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni hefur frá árinu 2018 verið afhent fyrsta parið af Mottumarssokkunum sem seldir eru til styrktar Krabbameinsfélaginu í Mottumars, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki sem tileinkað er krabbameinum hjá körlum. Forsetinn hefur sýnt verkefninu ómetanlegan stuðning í gegnum árin.

Lesa meira

27. feb. 2024 : Mottumarssokkarnir hannaðir af AS WE GROW

Það eru þær Gréta Hlöðversdóttir, Snæfríð Þorsteins og Kamilla Henriau sem eru hugmyndasmiðirnir og hönnuðirnir á bakvið sokkana sem eru einstaklega fallegir. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?