Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 28. sep. 2018

Bleika slaufan afhjúpuð og ný ljósmyndasýning opnuð

Í dag, föstudaginn 28. september, hefst árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, Bleika slaufan. 

Í dag, föstudaginn 28. september, hefst árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, Bleika slaufan. Félagið hefur undanfarin 11 ár tileinkað októbermánuð baráttu gegn krabbameinum hjá konum. Í ár er lögð áhersla á þátttöku kvenna í skimun og mikilvægi þess að vinahópar hvetji sínar konur til að mæta í krabbameinsleit auk þess að styðja ef kona greinist með krabbamein.

Ljósmyndasýningin BLEIK verður opnuð í Kringlunni kl. 17:00 þar sem Bleika slaufan 2018 verður einnig afhjúpuð. Sýningin byggir á persónulegum sögum 12 kvenna sem greinst hafa með brjósta- eða leghálskrabbamein og farið í meðferð en einnig er fjallað um mikilvægi vinahópa í því ferli. Ásta Kristjánsdóttir, ljósmyndari, Sóley Ástudóttir, förðunarfræðingur, Anna Clausen, stílisti og Sigríður Sólan, blaðamaður, eiga veg og vanda að sýningunni sem sýnd er á fjórum stöðum á landinu og stendur út októbermánuð. Sýningarstaðir eru Kringlan í Reykjavík, Glerártorg á Akureyri, Krónan á Selfossi og Ráðhús Reykjanesbæjar.

Leynd hvílir ávallt yfir hönnun Bleiku slaufunnar þar til hún er afhjúpuð í upphafi átaksins ár hvert. Hönnuður hennar að þessu sinni er Páll Sveinsson, gullsmíðameistari hjá Jóni og Óskari, en hann sigraði í samkeppni Krabbameinsfélagsins og Félags íslenskra gullsmiða um hönnun Bleiku slaufunnar. Bleika slaufan 2018 táknar umhyggjuna og tárin sem geta fylgt því þegar einhver greinist með krabbamein.

Bleika slaufan er seld í fjölmörgum verslunum um allt land og í vefverslun Krabbameinsfélagsins. Hún kostar 2.500 krónur, en einnig er takmarkað upplag af silfurhálsmeni sem selt er hjá félaginu og völdum gullsmiðum um landið.

Söfnunarfé Bleiku slaufunnar verður varið til þeirrar fjölbreyttu starfsemi sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir, með sérstakri áherslu á krabbamein hjá konum og hvatningu um að mæta í skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum. 

Krabbameinsfélagið býður landsmenn alla velkomna á ljósmyndasýninguna BLEIK og hvetur konur til að taka þátt í skimun. 


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?