Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 28. sep. 2018

Bleika slaufan afhjúpuð og ný ljósmyndasýning opnuð

Í dag, föstudaginn 28. september, hefst árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, Bleika slaufan. 

Í dag, föstudaginn 28. september, hefst árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, Bleika slaufan. Félagið hefur undanfarin 11 ár tileinkað októbermánuð baráttu gegn krabbameinum hjá konum. Í ár er lögð áhersla á þátttöku kvenna í skimun og mikilvægi þess að vinahópar hvetji sínar konur til að mæta í krabbameinsleit auk þess að styðja ef kona greinist með krabbamein.

Ljósmyndasýningin BLEIK verður opnuð í Kringlunni kl. 17:00 þar sem Bleika slaufan 2018 verður einnig afhjúpuð. Sýningin byggir á persónulegum sögum 12 kvenna sem greinst hafa með brjósta- eða leghálskrabbamein og farið í meðferð en einnig er fjallað um mikilvægi vinahópa í því ferli. Ásta Kristjánsdóttir, ljósmyndari, Sóley Ástudóttir, förðunarfræðingur, Anna Clausen, stílisti og Sigríður Sólan, blaðamaður, eiga veg og vanda að sýningunni sem sýnd er á fjórum stöðum á landinu og stendur út októbermánuð. Sýningarstaðir eru Kringlan í Reykjavík, Glerártorg á Akureyri, Krónan á Selfossi og Ráðhús Reykjanesbæjar.

Leynd hvílir ávallt yfir hönnun Bleiku slaufunnar þar til hún er afhjúpuð í upphafi átaksins ár hvert. Hönnuður hennar að þessu sinni er Páll Sveinsson, gullsmíðameistari hjá Jóni og Óskari, en hann sigraði í samkeppni Krabbameinsfélagsins og Félags íslenskra gullsmiða um hönnun Bleiku slaufunnar. Bleika slaufan 2018 táknar umhyggjuna og tárin sem geta fylgt því þegar einhver greinist með krabbamein.

Bleika slaufan er seld í fjölmörgum verslunum um allt land og í vefverslun Krabbameinsfélagsins. Hún kostar 2.500 krónur, en einnig er takmarkað upplag af silfurhálsmeni sem selt er hjá félaginu og völdum gullsmiðum um landið.

Söfnunarfé Bleiku slaufunnar verður varið til þeirrar fjölbreyttu starfsemi sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir, með sérstakri áherslu á krabbamein hjá konum og hvatningu um að mæta í skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum. 

Krabbameinsfélagið býður landsmenn alla velkomna á ljósmyndasýninguna BLEIK og hvetur konur til að taka þátt í skimun. 


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?