Guðmundur Pálsson 2. nóv. 2020

Bleika slaufan 2020: Áfram krabba­meins­rannsóknir!

Nú þegar við kveðjum Bleikan október er efst í huga þakklæti til okkar frábæra stuðningsfólks. Fólk og fyrirtæki um allt land sýndu stuðning sinn og lögðu sitt af mörkum til að efla krabbameinsrannsóknir á Íslandi okkur öllum til heilla.

Guðbjörg Kristín Ingvarsdóttir, skartgripahönnuður og gullsmiður í Aurum, hannaði Bleiku slaufuna í ár og hefur haft veg og vanda af framleiðslu hennar líka. TVG-Zimsen flutti slaufuna til landsins og til um helmings sölustaða innanlands án endurgjalds. Danól dreifði slaufunni til um helmings sölustaða án endurgjalds. Á fjórða hundrað sölustaðir um land allt seldu Bleiku slaufuna án þóknunar til að allur ágóði gæti runnið beint til söfnunarinnar. Kunnum við öllum þessum aðilum okkar bestu þakkir. Sala í vefverslun félagsins tvöfaldaðist miðað við í fyrra. Sölu slaufunnar er lokið og sölutölur verða ljósar á næstu vikum.

Við kynntum átakið í upphafi með málþingi umkrabbameinsrannsóknir þar sem kynntar voru nokkrar af þeim rannsóknum sem Krabbameinsfélagið vinnur að þessi misserin, auk rannsókna sem hafa fengið styrki úr Vísindasjóði félagsins .

Tugir fyrirtækja hafa auglýst vörur sem styrkja Bleiku slaufuna og veita þannig okkur öllum enn fjölbreyttari möguleika á að styrkja rannsóknarstarf samhliða innkaupum. Þessi stuðningur er veruleg viðbót við söfnunarfé og skiptir miklu máli.

Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja tók sig saman og safnaði fé til rannsókna. Má þar nefna Eggert Unnar sem safnaði 1,3 milljónum króna með streymi á Twitch, hóp myndlistarfólks í Gallerý Grásteini sem safnaði 540.000 krónum með sýningunni Brjóst, Vélsmiðjuna Héðinn, sem hét á starfsfólk sitt á Bleika daginn og styrkti átakið um 820.000 krónur. Svo mætti lengi telja.

Um þúsund manns fylgdust með streymi af Bleiku málþingi þar sem fjallað var um áskoranir og bjargráð í tengslum við Covid-19 og krabbamein kvenna.

Covid-19 stoppaði ekki Bleika daginn þó vissulega hefðu sóttvarnir áhrif. Bleiki dagurinn var haldinn um allt land, á vinnustöðum, á heimilum og í skólum og leikskólum með teikningum, föndri, lýsingu, veitingum og bleikum klæðnaði. Við fengum sendar myndir víða að og útvarpsstöðinK100 varð Bleikt100 .

Ágóði söfnunar Bleiku slaufunnar rennur til krabbameinsrannsókna en ný þekking skiptir öllu máli svo við getum fækkað þeim sem þurfa að takast á við krabbamein, fjölgað þeim sem lifa af og bætt lífsgæði þeirra. Allt starf félagsins byggir á stuðningi almennings og beinum fjárframlögum. 

Kæru Íslendingar. Innilegar þakkir fyrir stuðninginn. Hann skiptir öllu máli. 


Fleiri nýjar fréttir

1. mar. 2024 : Við erum að kalla þig út, kall!

Við fögnum framförum í greiningu og meðferð en best er auðvitað ef hægt er að koma í veg fyrir krabbamein. Vísindin vísa okkur leiðina og rannsóknir sýna að 30 til 40% krabbameina tengjast lífsstíl. Það þýðir að ýmsar lífsvenjur, t.d. tóbaksnotkun, áfengisneysla, hreyfingarleysi, mataræði og fleiri þættir geta haft áhrif á líkurnar á ákveðnum tegundum krabbameina.

Lesa meira

29. feb. 2024 : Köllum kalla þessa lands út!

Mottumars, árlegt árvekni- og fjáröflunarátak tileinkað krabbameinum hjá körlum hefst í dag. Kallaútkall er yfirskrift átaksins í ár þar sem lögð er áhersla á forvarnargildi hreyfingar. Regluleg hreyfing dregur úr hættunni á krabbameinum, en allt of margir karlmenn hreyfa sig ekki nóg til að njóta þessara verndandi áhrifa. Það þarf ekki nema örfáar mínútur af hreyfingu á dag til að ná fram jákvæðum áhrifum.

Lesa meira

28. feb. 2024 : Upp með sokkana og í Mottumarshlaupið 2024

Komdu með í fyrsta Mottumarshlaup Krabbameinsfélagsins sem haldið verður á hlaupársdeginum 29. febrúar. Við lofum stuði og stemmningu um leið og við hreyfum okkur til stuðnings góðum málstað!

Lesa meira

27. feb. 2024 : Sjöunda árið í röð fær forsetinn fyrsta parið

Forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni hefur frá árinu 2018 verið afhent fyrsta parið af Mottumarssokkunum sem seldir eru til styrktar Krabbameinsfélaginu í Mottumars, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki sem tileinkað er krabbameinum hjá körlum. Forsetinn hefur sýnt verkefninu ómetanlegan stuðning í gegnum árin.

Lesa meira

27. feb. 2024 : Mottumarssokkarnir hannaðir af AS WE GROW

Það eru þær Gréta Hlöðversdóttir, Snæfríð Þorsteins og Kamilla Henriau sem eru hugmyndasmiðirnir og hönnuðirnir á bakvið sokkana sem eru einstaklega fallegir. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?