Björn Teitsson 25. nóv. 2020

Betri lífshorfur fólks með krabbamein á Norðurlöndum

Ný samanburðarrannsókn sem byggir á gögnum norrænna Krabbameinsskráa sýnir að lífshorfur fólks sem greinist með krabbamein á Norðurlöndunum hafa aukist á síðustu 25 árum. Almennt eru lífshorfur fólks með krabbamein á Norðurlöndum með þeim hæstu í heimi.

Ísland kemur vel út úr norræna samanburðinum þegar kemur að lífshorfum fólks með lungnakrabbamein fimm árum frá greiningu og lífshorfum fólks með endaþarmskrabbamein. Aftur á móti eru lífshorfur íslenskra kvenna með brjóstakrabbamein og íslenskra karla með blöðruhálskirtilskrabbamein í lægri kantinum í norrænum samanburði, þó þær séu innan eðlilegra marka og góðar á heimsvísu.

Að sögn Elínborgar J. Ólafsdóttur, sérfræðings hjá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins, renna niðurstöðurnar enn frekari stoðum undir það að á Íslandi hafa lífshorfur kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein ekki aukist eins mikið og þær hafa gert á hinum Norðurlöndunum á síðustu 15 árum. Varðandi blöðruhálskirtilskrabbamein þá hafi hins vegar nýgengið á Íslandi lækkað hratt á síðustu árum og er nú það lægsta á Norðurlöndunum. Því er líklegt að á Íslandi greinist nú hlutfallslega fá lág- og miðlungsáhættu mein. Því gæti í raun verið um jákvæða þróun að ræða , þar sem markvisst hefur verið unnið að því að greina ekki lág-áhættumeinin til að minnka ofgreiningu sjúkdómsins.

Því til stuðnings er sú staðreynd að dánartíðni af völdum krabbameins í blöðruhálskirtli er í lægri kantinum miðað við hin löndin.

Fyrir flest krabbamein sker Ísland sig ekki marktækt frá hinum Norðurlöndunum og vert er að geta þess að sennilega er mesta ónákvæmnin í útreikningum fyrir Ísland vegna smæðar landsins og aldurssamsetningar íslensku þjóðarinnar sem er frábrugðin hinum löndunum sem eru tiltölulega lík innbyrðis.

Lífshorfur hafa aukist á öllum Norðurlöndunum

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í nýrri grein norræns samstarfshóps í vísindatímaritinu Acta Oncologica en í rannsókninni var lifun (þ.e. hlutfall fólks á lífi) einu og fimm árum eftir greiningu metin fyrir krabbamein í ristli, endaþarmi, lungum, nýrum, brjóstum, legbol, eggjastokkum og blöðruhálskirtli, svo og sortuæxli. Notast var við gögn úr Krabbameinsskránum á Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, sem höfðu að geyma upplýsingar um rúmlega tvær milljónir tilfella greind á árunum 1990-2016.

Niðurstöðurnar sýna auknar lífshorfur fólks sem greinist með krabbameinin níu í öllum löndunum á þessu 25 ára tímabili, hvort sem horft er til eins árs eða fimm ára lifunar. Enn fremur sýna niðurstöðurnar að framfarirnar hafa verið hvað mestar í Danmörku, sem hingað til hefur verið eftirbátur hinna Norðurlandanna þegar kemur að lífshorfum krabbameinsgreindra. Munur í lifun milli Norðurlandanna hefur því minnkað frá því sem áður var.

Fjölbreyttar aðgerðir skila árangri

Höfundar greinarinnar telja líklegt að auknar lífshorfur megi þakka fjölbreyttum aðgerðum sem öll löndin hafa ráðist í á undanförnum áratugum, svo sem aukinni áherslu á snemmgreiningu, bætta meðferð, innleiðingu krabbameinsáætlana, samræmdra meðferðarleiðbeininga og ferla til að veita sjúklingum bestu umönnun.

„Niðurstöður rannsóknarinnar eru mjög jákvæðar en þær sýna okkur að við verðum eins og aðrar þjóðir að halda vel á spilunum, við viljum ekki dragast aftur úr nágrannaþjóðunum. Afar brýnt er að Ísland sé ekki eftirbátur hinna Norðurlandanna varðandi greiningu og meðferð krabbameina. Við eigum að sjálfsögðu að nýta okkur þeirra reynslu og horfa til aðgerða sem geta dregið úr líkum á því að fá krabbamein og að auka lífshorfur fólks sem greinist með krabbamein. Reynsla hinna Norðurlandanna af krabbameinsáætlunum sem eru nýttar á markvissan hátt er mjög góð. Það er erfiðara að bæta árangur þegar hann er eins góður og raunin er á Norðurlöndunum og við þurfum virkilega að vanda okkur, til að geta samt gert enn betur“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Vöntun á innleiddri krabbameinsáætlun og skipulagðri ristilskimun

Ísland sker sig úr varðandi það að íslensk krabbameinsáætlun var ekki samþykkt hér á landi fyrr en í upphafi síðasta árs og heilbrigðisyfirvöld hafa ekki lagt fram aðgerðabundna og fjármagnaða framkvæmdaáætlun. Hér á landi hefur skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi heldur ekki enn verið hrint í framkvæmd þrátt fyrir að hafa sannað gildi sitt alþjóðlega og verið á dagskrá hjá heilbrigðisyfirvöldum frá aldamótum.

„Þó lífshorfur hafi aukist á undanförnum áratugum eru tækifæri til að gera enn betur og ekki má gleyma þeim krabbameinum sem hafa enn tiltölulega slæmar horfur. Og auðvitað verðum við að tryggja það að missa ekki niður árangur þegar við tökumst á við nýjar áskoranir, svo sem COVID-19. Samstarf norræna rannsóknarhópsins heldur áfram og næsta verkefni sem liggur fyrir er að skoða hvort munur sé á lífshorfum á Norðurlöndunum eftir meingerð og á hvaða stigi sjúkdómurinn greinist,“ segir Helgi Birgisson, yfirlæknir hjá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins.

Samstarf norrænu Krabbameinsskránna mikilvægt fyrir lýðheilsu

Vönduð lýðgrunduð krabbameinsskráning er mikilvæg fyrir rannsóknir á horfum sjúklinga og gæðum þjónustunnar. Auk þess er hún forsenda þess að meta áhrif stefnubreytinga stjórnvalda og breytinga í greiningu, meðferð og gæðum umönnunar og að unnt sé að áætla fjölda krabbameinsgreindra í framtíðinni. Hún er einkar mikilvæg fyrir lýðheilsu því hún er grunnur faraldsfræðilegra rannsókna á orsökum krabbameina en þær eru aftur forsenda forvarna gegn krabbameinum.

Norrænu krabbameinsskrárnar eru meðal þeirra elstu í heimi og vinna þær náið saman. Upplýsingar úr þeim er að finna í NORDCAN gagnagrunninum en þar er hægt að skoða og bera saman upplýsingar um krabbamein á Norðurlöndunum, meðal annars sem línurit og töflur og gera margvíslegar fyrirspurnir. NORDCAN grunnurinn er auðveldur í notkun og aðgengilegur öllum á netinu.

Elínborg J. Ólafsdóttir sérfræðingur hjá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins og Helgi Birgisson yfirlæknir á Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins eru meðhöfundar að greininni.

Heildartexti greinarinnar:

Frida E Lundberg, Therese M-L Andersson, Mats Lambe, Gerda Engholm, Lina Steinrud Mørch, Tom Børge Johannesen, Anni Virtanen, David Pettersson, Elínborg J Ólafsdóttir, Helgi Birgisson, Anna L V Johansson, Paul C Lambert. Trends in cancer survival in the Nordic countries 1990-2016: the NORDCAN survival studies. Acta Oncologica, online 19 October 2020, doi: 10.1080/0284186X.2020.1822544.

Myndir:

Meðfylgjandi myndir er hægt að nýta, sýna fimm ára lífshorfur fyrir algeng mein á Norðurlöndum: brjóst hjá konum, blöðruhálskirtil hjá körlum, lungu hjá konum og körlum, endaþarm hjá konum og körlum.


Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?