Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 7. des. 2018

Aukin þjónusta við krabbameinssjúklinga á LSH

Landspítalinn hefur brugðist einkar vel við ábendingum sem Krabbameinsfélagið kom á framfæri í haust um erfiða reynslu sjúklinga og aðstandenda af komum á bráðamóttöku spítalans. 

Nú hefur verið aukið við sérhæfða fræðslu á bráðamóttöku um einkenni sjúklingahópsins og viðbrögð við þeim og unnið er að auknu samstarfi sérfræðinga á lyflækningasviði við starfsfólk bráðamóttökunnar.  Þá verður farið yfir komur og endurkomur til að greina umfang og mögulegar breytingar á ákveðnum tímabilum.

Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi framkvæmdastjóra Krabbameinsfélags íslands og forstöðumanns Ráðgjafarþjónustu félagsins með fulltrúum Landspítala þann 29. nóvember síðastliðinn. Fyrir hönd Landspítala sátu fundinn Páll Matthíasson, forstjóri LSH, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs, Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs og Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga.

Bakvakt sérfræðinga og fimm daga líknardeild

Upp úr áramótum verða opnuð 3 rými á fimm daga líknardeild, sem sérstaklega eru ætluð fólki sem fær þjónustu frá HERU í heimahúsum en þarfnast tímabundið frekari þjónustu. Með þessum rýmum er ætlunin að fækka komum þessa hóps á bráðamóttöku.

Í janúar verður mikil breyting á þjónustu við fólk í krabbameinsmeðferð því þá verður komið á sérstakri bakvakt sérfræðinga sem sjúklingar og aðstandendur munu geta hringt í eftir lokun göngudeildar, frá fjögur á daginn til miðnættis, til að fá ráðgjöf um  ýmis mál er geta komið upp tengt veikindum og/eða krabbameinsmeðferð. Í framhaldi af þeirri ráðgjöf verður hægt að bóka fólk í bráðatíma á deild 11B ef þörf krefur.

„Við hlökkum til að geta sagt enn betur frá þessum úrræðum sem verða án efa mjög til bóta og geta fækkað komum á bráðamóttöku,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins: „Við stefnum að því að fá fulltrúa spítalans til að kynna þá auknu þjónustu sem af þessu leiðir í byrjun næsta árs.“

Eins og ítrekað hefur verið fjallað um vantar fjölda hjúkrunarfræðinga til starfa á spítalanum og það hefur margvíslegar afleiðingar. Ein er sú að á krabbameinslækningadeild 11-E eru einungis 10 af 15 rúmum í notkun.

„Það er auðvitað grafalvarlegt mál og þýðir meðal annars að krabbameinssjúklingar þurfa að leggjast inn á aðrar deildir,“ segir Halla; „önnur afleiðing er að loka þarf hjartagátt spítalans sem aftur leiðir til þess að aukinn fjöldi sjúklinga mun þurfa að sækja þjónustu á bráðamóttöku spítalans í Fossvogi.“

Ljóst er að stöðugt þarf að vera vakandi fyrir þörfum einstaklinga sem greinast með krabbamein og hvernig hægt er að mæta þeim á faglegan og árangursríkan hátt.

Krabbameinsfélag Íslands á í góðu samstarfi við starfsfólk Landspítala sem leggur sig fram um að vinna að úrbótum. Félagið fagnar því að ákveðið hefur verið að ofangreindur hópur hittist reglulega til að fara yfir þau mál sem varða þjónustu við sjúklingahópinn.

 


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?