Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 1. jún. 2018

Auðvelt að koma í veg fyrir leghálskrabbamein með þátttöku í skimun

  • Ágúst Ingi Ágústsson
    Ágúst Ingi Ágústsson, sviðsstjóri Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins.

Viss­ir þú að krabba­mein í leg­hálsi er fjórða al­geng­asta krabba­mein kvenna á heimsvísu? Senni­lega kem­ur það á óvart enda er leg­hálskrabba­mein fátíðara á Íslandi eða í 11. sæti yfir al­geng­ustu krabba­mein meðal kvenna. 

Það gæti líka komið þér á óvart að fimm ára hlut­falls­leg lif­un eft­ir grein­ingu er aðeins 50% á heimsvísu en á Íslandi er hún 86%. Ástæðan fyr­ir svo góðum ár­angri er ein­föld: Á Íslandi, eins og í mörg­um þróuðum sam­fé­lög­um, er stunduð skipu­leg skimun fyr­ir leg­hálskrabba­meini. Öllum kon­um hér­lend­is, á aldr­in­um 23-65 ára, er boðið að láta skoða leg­háls­inn á þriggja ára fresti.

Það sem aðgrein­ir leg­hálskrabba­mein frá flest­um teg­und­um krabba­meina er að or­sök þess er veiru­smit og teng­ist ekki erfðum. Um 80% full­orðinna ein­stak­linga smit­ast af HPV-veirunni og hún berst á milli ein­stak­linga við kyn­líf. Vegna þess hve marg­ir smit­ast af HPV-veirunni, og þar sem þeir sem eru smitaðir finna ekki til ein­kenna, er mjög mik­il­vægt að fram fari skimun til að kom­ast að því hvort finna megi frumu­breyt­ing­ar af völd­um veirunn­ar.

Mark­mið skimun­ar­inn­ar er fyrst og fremst að greina slík­ar frumu­breyt­ing­ar, sem eru forstig krabba­meins­ins eða að greina krabba­meinið á fyrstu stig­um þess svo hægt sé að meðhöndla það með sem minnstu inn­gripi. Frumu­breyt­ing­arn­ar þró­ast yf­ir­leitt á löng­um tíma, jafn­vel á mörg­um árum. Þannig er mun auðveld­ara að greina forstigs­breyt­ing­ar og meðhöndla þær ef mætt er reglu­lega í skimun.

Meðal­ald­ur við grein­ingu leg­hálskrabba­meins er 45 ár sem er ung­ur ald­ur miðað við grein­ingu annarra krabba­meina. Það end­ur­spegl­ar að um veiru­smit er að ræða sem er al­geng­ara hjá kon­um í yngri ald­urs­hóp­um. Það er því mikið áhyggju­efni að mæt­ing í skimun­ina hef­ur farið hægt og síg­andi niður á við síðustu ár, sér­stak­lega hjá yngstu ald­urs­hóp­un­um. Mæt­ing ís­lenskra kvenna er til að mynda mun minni en í hinum landa­ríkj­un­um en óljóst er hvað veld­ur.

Skimun fyr­ir leg­hálskrabba­meini fer fram með frumustroki frá leg­hálsi. Á Leit­ar­stöð Krabba­meins­fé­lags Íslands er skoðunin fram­kvæmd af ljós­mæðrum. Hún er óþæg­inda­lít­il fyr­ir lang­flest­ar kon­ur og tek­ur aðeins ör­fá­ar mín­út­ur. Kon­ur geta einnig farið í skoðun­ina hjá kven­sjúk­dóma­lækn­um eða á heilsu­gæslu­stöðvum á lands­byggðinni.

Á vef­gátt­inni Mínar síður á island.is eru nú aðgengi­leg­ar upp­lýs­ing­ar um mæt­ingu í krabba­meins­leit þar sem kon­ur geta séð hvenær þær hafa fengið boð og hvenær þær hafa mætt í skoðun.

Öllum 12 ára stúlk­um býðst bólu­setn­ing við tveim­ur al­geng­ustu teg­und­um HPV-veirunn­ar sem geta valdið leg­hálskrabba­meini. Þegar fram í sæk­ir mun ár­ang­ur bólu­setn­ing­ar­inn­ar sýna sig með færri til­fell­um frumu­breyt­inga og fækk­un krabba­meinstil­fella. Mik­il­vægt er að taka fram að bólu­efnið veit­ir ekki vörn gegn öll­um teg­und­um HPV-veirunn­ar sem geta valdið leg­hálskrabba­meini og þá er ekki vitað hvort bólu­efnið veiti 100% vörn við þeim teg­und­um sem bólu­sett er fyr­ir. Þess vegna er mjög þýðing­ar­mikið að kon­ur haldi áfram að taka þátt í skimun þó þær hafi fengið bólu­setn­ing­una.

Ég skora á alla að hvetja kon­urn­ar í kring­um sig til að mæta reglu­bundið í skimun. Það er ekk­ert feimn­is­mál að fara í skoðun eða grein­ast með frumu­breyt­ing­ar í leg­hálsi og með umræðu og hvatn­ingu get­um við komið í veg fyr­ir al­var­leg­an sjúk­dóm.

Nán­ari upp­lýs­ing­ar má finna hér .

Ágúst Ingi Ágústsson
sviðsstjóri Leit­ar­stöðvar Krabba­meins­fé­lags Íslands

Greinin birtist í Morgunblaðinu og á mbl.is 31.5.2018.


Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?