Ása Sigríður Þórisdóttir 11. jún. 2021

Athugasemdir og leiðréttingar Krabbameinsfélags Íslands

Við skýrslu heilbrigðisráðherra um breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi, samkvæmt beiðni. Í skýrslunni kemur glöggt fram hve ábótavant undirbúningi flutnings leghálsskimana frá Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands var.

Fram kemur að 2. júní óskaði KÍ eftir upplýsingum um hvaða stofnanir tækju við afmörkuðum þáttum í starfsemi Leitarstöðvarinnar um áramót, frá heilbrigðisráðuneytinu. Þá hafði stofnununum ekki verið úthlutað verkefnunum formlega en það gerðist tíu dögum síðar, um miðjan júní. Þá voru sex mánuðir þar til stofnanirnar skyldu taka við verkefnunum.

Hlutaúttekt Embættis landlæknis – enginn skuggi á samskiptum LSH og LKÍ

Í lok júlí átti Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins samskipti við Landspítala um framtíð rannsókna leghálssýna. Fulltrúar Landspítala tóku fram að til að geta sinnt frumurannsóknum þyrfti að ná samkomulagi við KÍ um leigu á aðstöðu og að starfsfólk þyrfti að vilja ráða sig til starfa hjá spítalanum. Í skýrslunni er látið að því liggja að hlutaúttekt Embættis landlæknis á gæðamálum Leitarstöðvar hafi haft áhrif á samskipti Landspítala og LKÍ. Ekki er ljóst hvað átt er við með þessu en félagið fullyrðir að engan skugga hafði borið á samskipti Landspítala og KÍ eða LKÍ vegna úttektarinnar.

Talsvert er fjallað um niðurstöður hlutaúttektar Embættis landlæknis á LKÍ. Ekki er eðlilegt að ætla að sú úttekt hefði takmarkað möguleika Landspítala til að sinna rannsóknunum, þvert á móti. Leiða má líkur að því að úttekt Embættis landlæknis hafi gert embættinu betur kleift en áður að leiðbeina Landspítala (ef þörf var talin á) hvernig haga skyldi gæðamálum varðandi frumurannsóknir.

Samskipti LKÍ og HRN vegna lokunar Leitarstöðvar

Í skýrslunni er farið yfir samskipti LKÍ og Heilbrigðisráðuneytisins í október 2020 en þá höfðu LKÍ ekki borist upplýsingar um hvernig haga skyldi frágangi mála vegna lokunar Leitarstöðvarinnar.

Í skýrslunni er skáletraður texti úr tölvupósti framkvæmdastjóra KÍ til ráðuneytisins, þar sem hann býður upp á að skimað verði fyrir leghálskrabbameinum lengur en ráðuneytið hafði áður sent LKÍ ákvörðun um. Í sama tölvupósti óskar félagið eftir upplýsingum um hver muni sinna rannsóknunum og hvernig upplýsingagjöf til kvenna verði háttað.

Ekki kemur fram að við þessu tölvuskeyti LKÍ barst ekki svar frá HRN. Eðli málsins samkvæmt hélt LKÍ sig því við áður framkomna ákvörðun og sinnti skimun og tók á móti sýnum til 30. nóvember en ekki lengur. Af sama leiðir að starfsfólk LKÍ hafði ekki upplýsingar um hvar rannsóknir færu fram eftir áramót en hafði ekki ástæðu til að ætla annað en gengið hefði verið frá málum um rannsóknir leghálssýna til framtíðar.

Rannsóknarstofa LKÍ starfaði út samningstíma

Síðar í skýrslunni kemur fram að svo virðist sem rannsóknarstofa LKÍ hafi hætt störfum í byrjun desember þótt starfssamningur hafi legið fyrir til ársloka 2020 og nefnt að það hafi leitt til þess að leghálssýni sem tekin voru undir lok ársins voru ekki rannsökuð heldur varðveitt til að unnt væri að rannsaka þau síðar. Þarna er alrangt með farið. Á rannsóknarstofu LKÍ voru sýni rannsökuð til 22. desember. Þeir dagar sem eftir lifðu árs voru nýttir í frágang vegna lokunar LKÍ. Skýrsluhöfundur spurðist hvorki fyrir um þetta fyrirkomulag hjá KÍ né annað í sambandi við skýrsluna.

Rof á þjónustu - samningsgerð

Í skýrslunni kemur fram að samningsgerð vegna rannsókna á leghálssýnum var fyrst að fara af stað í lok nóvember síðasta árs þegar rúmmur mánuður var til stefnu þrátt fyrir að markmiðið væri að ekki yrði rof á þjónustu. Í byrjun desember var ákveðið að taka upp danskar skimunarleiðbeiningar. Öllum mátti vera ljóst að þær breytingar kölluðu á endurforritun hugbúnaðarkerfa, skimunarskrár auk umfangsmikillar upplýsingagjafar til kvenna og sérfræðilækna. Slíkt tekur tíma, sem ekki var til staðar.

Í skýrslunni er hvergi minnst á ítrekaða hvatningu KÍ og LKÍ til stofnana og HRN um að vanda undirbúning þessa umfangsmikla og mikilvæga verkefnis og gefa því nægilegan tíma.

Sérhæfð þekking

Í skýrslunni kemur fram að Landspítali taldi sig þurfa að ráða starfsfólk sem áður starfaði hjá LKÍ til að geta sinnt frumurannsóknum. Ástæða þess er auðvitað sérhæfing starfsfólksins. Fjöldi stöðugilda er ekki afgerandi þáttur þegar rætt er um áhrif breytinga á sérhæfð störf heldur sú staðreynd að rannsóknirnar krefjast sérhæfðrar þekkingar sem tapast úr landinu ef rannsóknirnar eru fluttar úr landi.

Hér má lesa skýrsluna í heild sinni


Fleiri nýjar fréttir

21. okt. 2021 : Fjölsótt málþing skorar á heil­brigðis­yfir­völd að setja brjósta­heilsu í for­gang

Málþing um brjóstakrabbamein fór fram miðvikudaginn 20. október að viðstöddu fjölmenni. Auk þess var fylgst með dagskránni í gegnum streymisveitu Krabbameinsfélagsins á ríflega 100 stöðum um land allt.

Lesa meira

21. okt. 2021 : Tengsl milli mataræðis á unglingsárum og brjóstakrabbameins

Nýverið birtist íslensk vísindagrein í American Journal of Epidemiology um áhrif vaxtarhraða á unglingsárunum á áhættuna að greinast með krabbamein í brjóstum og í blöðruhálskirtli síðar á ævinni.

Lesa meira

15. okt. 2021 : Bleiki dagurinn er í dag

Við finnum fyrir mikilli stemmningu í samfélaginu fyrir deginum og til að mynda hafa fjölmörg fyrirtæki komið við hjá okkur og keypt slaufur, sokka, fánalengjur, blöðrur og servíettur fyrir Bleika kaffið.

Lesa meira

14. okt. 2021 : VERUM TIL - mál­þing um brjósta­krabba­mein

Bleikt málþing um brjóstakrabbamein fer fram miðvikudaginn 20. október kl. 17:00-18:15 á vegum Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna,Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. 

Lesa meira
Halla Þorvaldsdóttir

14. okt. 2021 : Lífið breytir um lit

Bleikur október er runninn upp. Það er táknrænt að skipta um lit í október, í mánuðinum sem helgaður er krabbameinum hjá konum, því oftar en ekki er það líkast því að lífið skipti um lit þegar fólk greinist með krabbamein.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?