Sigurlaug Gissurardóttir 7. des. 2016

Átak í fræðslu um krabbameinsleit kvenna af erlendum uppruna

Í dag miðvikudaginn 7. desember hefst átak á vegum Krabbameinsfélags Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) til að kynna krabbameinsleit fyrir konum af erlendum uppruna. Í átakinu felst dreifing á veggspjaldi með upplýsingum um leitina á fimm algengustu tungumálum sem töluð eru í landinu: íslenska, enska, pólska, rússneska og tælenska.

Að sögn Láru G. Sigurðardóttur, læknis og fræðslustjóra Krabbameinsfélagsins, er víða í heiminum sem ekki er boðið upp á skipulagða krabbameinsleit eða að þátttaka er dræm. Því er hætta á að konur af erlendum uppruna sem hingað flytji þekki ekki til þessarar tegundar heilsuverndar né þess mikla ávinnings sem hún skilar.

Við óttumst að konur af erlendum uppruna leiti síður til Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins en þær íslensku einmitt af þeim sökum og teljum því mikilvægt að auka vitund þeirra um mikilvægi þess að mæta í skoðun þegar þær fá boð um að bóka tíma.

KRA_VEF_828x315_velkomin_1216_OK

Allar konur á aldrinum 23 til 65 ára fá boð um að mæta í leghálskrabbameinsleit á þriggja ára fresti og 40 til 69 ára konur fá boð á tveggja ára fresti um að mæta í leit að brjóstakrabbameini. Innan sjávarútvegsfyrirtækja starfar mikill fjöldi kvenna af erlendum uppruna. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), segir að samtökin hafi viljað leita leiða til að koma upplýsingum áleiðis til þeirra kvenna sem starfa hjá fyrirtækjum innan samtakanna. „Það er þó ekki hlaupið að því enda eru fiskvinnslur fjölþjóðlegir vinnustaðir og þar að auki dreifðar  um landið. Við ræddum við Krabbameinsfélagið um hvernig best væri að miðla þessum mikilvægu upplýsingum sem geta svo sannarlega verið lífsnauðsynlegar,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir.

Samhliða dreifingu á veggspjaldinu til heilsugæslustöðva og vinnustaða verður vakin athygli á leitarstarfinu með auglýsingum á erlendum tungumálum á Facebook. Þjónustuskrifstofur Krabbameinsfélagsins um land allt taka þátt í dreifingu plakatsins. 

Þeir sem vilja nálgast veggspjald geta sent beiðni á krabb@krabb.is eða til þjónustuskrifstofa Krabbameinsfélagins út á landi sem finna má hér á www.krabb.is.


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?