Guðmundur Pálsson 23. nóv. 2017

asa iceland safnaði 1.750.000 kr. fyrir Bleiku slaufuna

Allur ágóði af silfurhálsmeni Bleiku slaufunnar sem var til sölu hjá gullsmiðum rann til stuðnings Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins sem afhent var á 10 ára afmæli Ráðgjafarþjónustunnar í Skógarhlíð 8.

Ása Gunnlaugsdóttir gullsmiður hjá asa iceland afhenti í gær veglegan styrk upp á 1.750.000 kr. sem er afrakstur sölu á 200 silfurhálsmenum Bleiku slaufunnar í ár. Silfurhálsmenið var til sölu hjá asa iceland, Meba, og um 20 gullsmiðum um land allt auk Krabbameinsfélaginu. Hálsmenið seldist upp á örfáum dögum en það var framleitt í takmörkuðu upplagi.

Í samstarfi við Félag íslenskra gullsmiða hefur salan á silfurslaufum frá upphafi skilað hátt í 9 milljónum króna til átaksins. Þetta er í sjötta skiptið sem Krabbameinsfélagið og Félag íslenskra gullsmiða taka höndum saman um samkeppni um hönnun Bleiku slaufunnar en sú hefð sem hefur skapast með samstarfinu er einstök á heimsvísu.

Ása sigurvegari samkeppninnar

Ása Gunnlaugsdóttir gullsmiður og hönnuður hannaði slaufuna í ár eftir sigur í samkeppninni. Skartgripir asa iceland eru seldir í skartgripaverslunum víða um land og eru þekktir fyrir stílhreina og vandaða hönnun.

 „Það er mér mikil ánægja að geta lagt mitt af mörkum til að styðja við þá mikilvægu þjónustu sem Krabbameinsfélagið veitir án endurgjalds þeim sem greinast með krabbamein. Við hönnunina hafði ég að leiðarljósi táknmyndina um hlýju og umhyggju sem sveipar þann sem ber slaufuna. Í formi hennar er einnig dropasteinn fyrir dropann sem „breytir veig heillar skálar“ eins og segir í kvæðinu. Verkefnið var bæði afar skemmtilegt og krefjandi”, segir Ása.

Styrkurinn ásamt annarri fjáröflun Bleiku slaufunnar í ár rennur til Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins sem fagnar nú 10 ára afmæli. Þar er veitt þjónusta hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa og sálfræðings alla virka daga án endurgjalds. Í boði eru viðtöl og einstaklingsráðgjöf, símaráðgjöf, slökun, fyrirlestrar og starfsemi stuðningshópa félagsins.  Einnig er fjöldi námskeiða og viðburða í boði sem mæta þörfum þeirra sem til Ráðgjafarþjónustunnar leita.

„Við þökkum Ásu fyrir einstaklega gott og gefandi samstarf og þökkum fyrir alla þá vinnu sem hún hefur lagt af mörkum endurgjaldslaust við hönnun og framleiðslu slaufunnar í ár,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?