Ása Sigríður Þórisdóttir 22. des. 2020

Árið sem gleymist seint

Allt það sem við höfðum talið sjálfsagðan hluta af tilveru okkar í byrjun árs er ekki jafn sjálfsagt lengur, þegar því er að ljúka. Það er einmitt þetta sem margir upplifa við það að greinast með krabbamein og aðstandendur þeirra. Að takast á við breytta tilveru, óvissu og verkefni sem ekki voru á dagskránni.

Eflaust eru tilfinningar margra blendnar, nú þegar sér fyrir endan á árinu 2020. Það er óhætt að fullyrða að langflestir hafa orðið fyrir áhrifum af heimsfaraldrinum sem hefur sett svo sterkan svip á árið og líf fólks um alla heimsbyggðina. Það má segja að tilveran hafi breyst nánast á augabragði. Allt það sem við höfðum talið sjálfsagðan hluta af tilveru okkar í byrjun árs er ekki jafn sjálfsagt lengur, þegar því er að ljúka. Það er einmitt þetta sem margir upplifa við það að greinast með krabbamein og aðstandendur þeirra. Að takast á við breytta tilveru, óvissu og verkefni sem ekki voru á dagskránni.

Það er viðbúið að fyrir þá hafi Covid-19 þyngt róðurinn að mörgu leiti. Fyrstu niðurstöður könnunar á vegum Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélagsins á upplifun og líðan fólks með krabbamein og aðstandenda, í faraldrinum, benda til þess að margir takist á við kvíða og vanlíðan sem tengist einangrun frá ástvinum. Einnig kemur skýrt fram að margir geta ekki nýtt sér ýmis bjargráð, þjónustu og stuðning sem alla jafna er í boði, vegna aðgerða sem grípa hefur þurft til vegna Covid-19.

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins er til staðar fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Þar er boðið upp á viðtöl, jafningjastuðning, fjölbreytt námskeið, opna tíma í slökun og fræðslufyrirlestra og er þjónustan fólki að kostnaðarlausu.

Ráðgjafarþjónustan hefur, líkt og margir aðrir, þurft að gera miklar breytingar á sinni starfsemi í tengslum við faraldurinn og sóttvarnarlög. Þessar aðstæður hafa kallað á nýjar hugmyndir og leiðir í þjónustunni. Við bjóðum nú upp á fjarviðtöl í mynd í gegnum KöruConnect, kerfi sem er viðurkennt af embætti landlæknis og einnig höfum við aukið framboð af ýmis konar fjarnámskeiðum. Opnir tímar í slökun fara nú fram vikulega í beinni útsendingu í lokaða facebook hópnum Slökun og vellíðan og við höfum deilt ýmsu rafrænu efni, nýju sem eldra, af vefnum okkar.  Þessar nýjungar hafa því að einhverju leiti gert okkur kleift að færa þjónustuna heim til fólks í faraldrinum.

Það er ánægjulegt að með þessu hefur verið stigið stórt skef til framfara í aukinni þjónustu við þá sem búa á landsbyggðinni og erlendis, eða þá sem af öðrum orsökum sækja ekki þjónustuna beint til okkar. Það má því segja að árið hafi verið okkur í Ráðgjafarþjónustunni afar lærdómsríkt og gefið okkur hugrekki til að halda áfram að sækja fram, finna nýjar leiðir og mæta fólki á nýjan hátt.

Við horfum fram á nýtt ár með von og bjartsýni og hlökkum til að taka á móti ykkur hér í Skógarhlíðinni um leið og fært verður.

 


Fleiri nýjar fréttir

17. maí 2022 : 70 ár fyrir 70 andlit - Bjarni Bjarnason

Bjarni Bjarnason læknir var formaður Krabbameinsfélags Íslands frá 1966 til 1973 en hafði áður verið varaformaður þess síðan 1960. Hann var í stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur frá 1951 og formaður frá 1960 til 1965. 

Lesa meira

16. maí 2022 : 70 andlit fyrir 70 ár - Guðbjartur Hannesson

Alþjóðlegi krabbameinsdagurinn 4. febrúar 2011 var merkisdagur. Þá tilkynnti Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra á árunum 2011 til 2013, að hann hygðist láta vinna krabbameinsáætlun fyrir Ísland. Ákvörðunina tengdi hann 60 ára afmæli Krabbameinsfélagsins.

Lesa meira

12. maí 2022 : Bjóðum Hörpu velkomna

Við erum stolt af því að bjóða nýjan starfsmann, Hörpu Ásdísi félagsráðgjafa, til starfa í ráðgjafarteymi Krabbameinsfélagsins. Harpa vann hjá Félagsþjónustu Reykjavíkur í 9 ár, áður en hún færði sig yfir á Reykjalund þar sem hún starfaði síðastliðin 22 ár.

Lesa meira

11. maí 2022 : Málþing: Krabba­meins­áætlun - á áætlun?

Málþing Krabbameinsfélags Íslands, laugardaginn 21. maí kl. 10 – 12 í Skógarhlíð 8, Reykjavík. Erindi á málþinginu flytja fulltrúar Krabba­meins­félagsins, Landspítala, heilbrigðis­ráðu­neytisins auk landlæknis.

Lesa meira

11. maí 2022 : 70 andlit í 70 ár - Lára Vigfúsdóttir

Fólk sem vill láta gott af sér leiða eftir sinn dag arfleiðir Krabbameinsfélagið reglulega að eigum sínum eða hluta þeirra. Lára Vigfúsdóttir, innanhússarkitekt frá Vestmannaeyjum er ein þeirra. Hennar erfðagjöf gerði Krabbameinsfélaginu mögulegt að bjóða fyrstu árgöngum sem boðið var í skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum á árinu 2020 ókeypis skimun. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?