Ása Sigríður Þórisdóttir 3. feb. 2023

Alþjóðlegi krabbameinsdagurinn er 4. febrúar

Af því tilefni er gott tækifæri til að horfa fram á veginn og taka stöðuna. Áskoranirnar eru sannarlega til staðar í dag og víða er heilbrigðiskerfið komið að þolmörkum. Samkvæmt spá um þróun krabbameina til ársins 2040 er róðurinn að þyngjast til muna - gert er ráð fyrir 52% fjölgun nýrra tilfella.

Áskoranirnar eru sannarlega til staðar í dag og víða er heilbrigðiskerfið komið að þolmörkum. Samkvæmt spá um þróun krabbameina til ársins 2040 er róðurinn að þyngjast til muna.

Rétt er að hafa í huga að almennt er krabbameinsáhætta ekki að aukast. Krabbamein eru fyrst og fremst sjúkdómar eldra fólks þó þau greinist hjá fólki á öllum aldursskeiðum. Aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar er að breytast hratt; þjóðin er að eldast. Það er þróun sem löngu er fyrirséð en umræða um afleiðingar þess hefur verið takmörkuð og einkum snúist um öldrunarþjónustu og fjölgun hjúkrunarrýma. Þessi þróun hefur mikla þýðingu í sambandi við krabbamein og nýjustu gögn sýna að fjölgun krabbameinstilvika verður mun meiri hér á landi en í nágrannalöndunum. Sá hópur sem stækkar mest og hefur þörf fyrir sérhæfða sjúkrahússþjónustu er fólk með krabbamein.

Evrópusambandið hefur sett krabbamein á oddinn í heilbrigðismálum enda er fyrirséð 21% fjölgun tilvika í Evrópu til ársins 2040. Evrópusambandið hefur sett 4 milljarða evra í krabbameinsáætlun vegna þessarar alvarlegu stöðu. Hér á landi er á sama tíma spáð 52% fjölgunar tilvika. Það þýðir að ný tilvik verða tæplega 1000 fleiri árið 2040 en í dag. Fjölgunin verður jafnt og þétt yfir tímabilið og er raunar löngu hafin. Í dag greinast um 1.800 manns með krabbamein á ári, árið 2035 má gera ráð fyrir að rúmlega 2.500 greinist og árið 2040 verði það tæplega 2.800 manns.

Vegna framfara í greiningu og meðferð krabbameina fjölgar hratt í hópi lifenda (þeim sem eru á lífi og hafa greinst með krabbamein). Í lok árs 2000 taldi hópurinn 7.500 manns, í lok árs 2021 voru um 17.000 landsmenn á lífi sem greinst höfðu með krabbamein en gert er ráð fyrir að árið 2035 verði þeir að lágmarki 24.300. Hluti hópsins er læknaður og þarf ekki frekari þjónustu. Margir þurfa hinsvegar á langtímameðferð að halda, sjúkdómurinn er í raun orðinn langvinnur í stað þess að vera bráður. Það getur krafist ævilangrar meðferðar. Hluti hópsins þarf einnig að takast á við langvinnar aukaverkanir eða síðbúnar afleiðingar af krabbameini og meðferð þess. Mikil fjölgun í þessum hópi mun því kalla á nýja heilbrigðisþjónustu sem ekki er verið að veita nema að litlu leyti í dag.

Þessi mikla fjölgun nýrra tilfella og fjölgun í hópi þeirra sem lifa eftir greiningu krabbameins kallar á mjög miklar og kerfisbundnar aðgerðir svo íslenskt samfélag geti mætt þörfum alls þessa fólks fyrir heilbrigðisþjónustu.

Vegna fyrirsjáanlegrar fjölgunar tilvika í Evrópu hefur Evrópusambandið hrint í framkvæmd nýrri krabbameinsáætlun „Europe‘s Beating Cancer Plan“. Á Íslandi eigum við okkar krabbameinsáætlun sem samþykkt var 2019 og gildir til ársins 2030. Ekki hefur enn verið gefin út forgangsröðuð aðgerðaáætlun og hún hefur ekki verið fjármögnuð sérstaklega.

Hér á landi er árangur mjög góður varðandi krabbamein og horfur þeirra sem greinast með því besta sem gerist í heiminum. Til að geta haldið þeim góða árangri sem hér hefur náðst og bætt enn frekar í er nauðsynlegt að hrinda áætluninni í framkvæmd með markvissum markmiðum og samstilltum aðgerðum. Það er nauðsynlegt til að við höfum möguleika á að takast á við hina fyrirsjáanlegu aukningu í fjölda tilfella og hópi lifenda.

Að mati Krabbameinsfélagsins er afar mikilvægt að auka enn frekar forvarnir gegn krabbameinum og auðvelda fólki að temja sér lífsstíl sem getur dregið úr líkum á að fá krabbamein. Hefja þarf skimanir fyrir nýjum meinum þegar þær þykja fýsilegar og auka þátttöku í þeim sem þegar er boðið upp á. Nauðsynlegt er að koma á samfelldu ferli allt frá því að grunur vaknar um krabbamein, til að tryggja að meinin greinist snemma og að allir fái þjónustu við hæfi. Sporna þarf við áhrifum ójöfnuðar sem eru að aukast hér á landi eins og víðar og tryggja aðgengi að þjónustu óháð búsetu og uppruna. Þróa þarf sérhæfða þjónustu við þá sem lifa með langvinnum aukaverkunum og síðbúnum fylgikvillum. Reisa og endurnýja þarf húsnæði svo aðstaða við hæfi bjóðist á öllum stigum, tryggja að til staðar sé nýjasti tækjabúnaður og aðgengi að bestu lyfjum. Síðast en ekki síst þarf að mennta og þjálfa aukinn fjölda hæfs fagfólks til að mæta þessari auknu þjónustuþörf.

Sem einstaklingar getum við líka lagt okkar af mörkum til að draga úr áhættunni á því að fá krabbamein með því að stunda reglulega hreyfingu, borða hollan mat, verja okkur fyrir sólinni og forðast áfengi og tóbak.

Saman getum við lagst á eitt að fækka þeim sem greinast, fjölga þeim sem lifa og bæta lífsgæði þeirra sem greinst hafa með krabbamein.


Fleiri nýjar fréttir

27. mar. 2023 : Stuðningur í verki

Viðtal við hjónin Hildi Ýr Kristinsdóttur og Helga Rúnar Bragason, þátttakanda í Skeggkeppni Mottumars og heiðursfélaga Round Table Ísland. Söfnunarsíðu Helga Rúnars í Skeggkeppni Mottumars má nálgast hér.

Lesa meira

27. mar. 2023 : Krabbameinsfélagið á ferð og flugi

Eitt af verkefnum Krabbameinsfélagsins er að sinna fræðslu og forvarnarstarfi, en vinnustöðum og fyrirtækjum stendur til boða að fá fræðsluerindi fyrir starfsmannahópa frá sérfræðingum félagsins. 

Lesa meira

25. mar. 2023 : Svona nýtist þinn stuðningur

Krabbameinsfélaginu er ekkert óviðkomandi þegar kemur að krabbameinum. Starfsemi og þjónusta félagsins er fyrir alla en í Bleiku slaufunni í október er athyglinni beint að krabbameinum hjá konum og í Mottumars að krabbameinum hjá körlum með áherslu á forvarnir og fræðslu af ýmsu tagi.

Lesa meira

25. mar. 2023 : Örþing Krabba­meins­félags­ins í tilefni Mottumars

Á Mottudeginum 31. mars stendur Krabbameinsfélagið fyrir málþingi sem ber yfirskriftina „Ekki humma fram af þér heilsuna!“ 

Lesa meira

24. mar. 2023 : Einstakrar konu minnst

Í dag er kvödd frá Hallgrímskirkju Gunnhildur Óskarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið HÍ og stofnandi samtakanna Göngum saman. Með Gunnhildi er gengin einstök kona sem skildi mikið eftir sig. Það er mikill sjónarsviptir að Gunnhildi víða í samfélaginu en mestur er auðvitað missir fjölskyldu Gunnhildar. Hjá Krabbameinsfélaginu er Gunnhildar minnst með mikilli hlýju og virðingu og aðstandendum Gunnhildar sendir félagið innilegar samúðarkveðjur.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?