Birna Þórisdóttir 24. sep. 2020

Málþing á alþjóðadegi krabbameinsrannsókna

Markmið dagsins er að vekja athygli alþjóðasamfélagsins á mikilvægi krabbameinsrannsókna og þeim miklu framförum sem hafa átt sér stað fyrir tilstilli þeirra. 

Í tilefni af alþjóðadegi krabbameinsrannsókna stóð Krabbameinsfélagið fyrir málþingi sem var streymt í beinni útsendingu í hádeginu. Upptökuna má nálgast hér og einnig á Facebook

Bleika slaufa ársins 2020, sem er hönnuð af Guðbjörgu Kristínu Ingvarsdóttur skartgripahönnuði í Aurum og fer í sölu 1. október, var sýnd í upphafi málþingsins. Halla Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins tilkynnti að allur ágóði af sölu bleiku slaufunnar í ár renni til krabbameinsrannsókna, enda eru þær forsenda þess að fækka megi þeim sem greinast með krabbamein, fækka megi þeim sem látast af völdum krabbameina og bæta megi lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein.

Á málþinginu kynnti Jóhanna Eyrún Torfadóttir doktor í lýðheilsufræði og sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu fyrstu niðurstöður úr Áttavitanum, rannsókn á reynslu fólks sem greinst hefur með krabbamein.

Valtýr Stefánsson Thors barnasmitsjúkdómalæknir á Landspítala sagði frá uppbyggingu gagnagrunns um æðaleggi hjá krabbameinsveikum börnum, en rauntímagagnagrunnur getur gefið ómetanlegar upplýsingar um hvar helst er hægt að bæta þjónustu við krabbameinsveik börn. 

Vigdís Hrönn Viggósdóttir hjúkrunarfræðingur á Barnaspítala og doktorsnemi fjallaði um síðbúnar afleiðingar krabbameina í æsku, svo sem á heilsufar, lífsgæði og hjarta- og efnaskiptatengda áhættuþætti á fullorðinsaldri

Margrét Helga Ögmundsdóttir dósent við Háskóla Íslands fjallaði um hlutverk endurvinnslu í frumum og hvernig skilningur á hegðun fruma getur skipt máli varðandi bætta meðferð og greiningu.

Þessar þrjár rannsóknir þeirra Valtýs, Vigdísar og Margrétar hafa hlotið styrki úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins sem hefur á síðastliðnum 4 árum styrkt 30 rannsóknir um alls 227 milljónir kr.

Að lokum fjallaði Helgi Birgisson yfirlæknir á Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins um gæðaskráningu greiningar og meðferðar krabbameina á Íslandi og hvernig gæðaskráning er í þágu þeirra sem greinast með krabbamein.

Hjá Krabbameinsfélaginu fer fram fjölbreytt rannsóknastarf og má þar helst nefna rannsóknir úr efnivið Krabbameinsskrár. Starfsfólk félagsins birtir fjölmargar vísindagreinar á hverju ári og er vísindagreinin úr gæðaskráningarverkefninu, sem lesa má hér, meðal þeirra nýjustu.

Eins og sjá má voru rannsóknirnar á hádegismálþinginu afar fjölbreyttar og endurspeglar það hvernig hver og ein rannsókn bætir við þekkingarbita í púsluspilið stóra sem skilningur á krabbameinum er. Það passar afar vel inn í þema alþjóðadags krabbameinsrannsókna, sem er „Let‘s team up for cancer research“, eða vinnum saman að krabbameinsrannsóknum.

Þessi alþjóðadagur krabbameinsrannsókna gefur okkur tækifæri til að fræðast og skuldbinda okkur sem einstaklingar og samfélag til að styðja krabbameinsrannsóknir í orði og gjörðum. Dagurinn gefur okkur líka tækifæri til að gleðjast yfir þeim framförum sem hafa átt sér stað fyrir tilstilli krabbameinsrannsókna, vísindafólkinu sem starfar við þær og einstaklingana og sjóðina sem styrkja þær.

Á vefsíðu alþjóðlega krabbameinsdagsins, World Cancer Research Day, er að finna ýmsar upplýsingar og okkur boðið að taka þátt í deginum með því að skrifa undir yfirlýsingu til stuðnings krabbameinsrannsókna.

Áfram krabbameinsrannsóknir!

Frá vinstri: Margrét Helga Ögmundsdóttir, Vigdís Hrönn Viggósdóttir, Guðbjörg Kristín Ingvarsdóttir, Helgi Birgisson, Jóhanna Eyrún Torfadóttir og Valtýr Stefánsson Thors.

 


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?