Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 8. apr. 2019

Áfengi getur valdið krabbameinum - Viðtal á Hringbraut

Vitað er að aukið aðgengi að áfengi er þvert á hagsmuni lýðheilsu þjóðarinnar og að það verður til að fjölga krabbameinstilfellum. Krabbameinsfélagið hefur gefið út yfirlýsingu þar sem þingmönnum er gefið „gula spjaldið“ vegna áfengisfrumvarpsins svokallaða. 

Þetta var umræðuefni þeirra Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þáttarstjórnanda þáttarins Tuttuguogeinn á Hringbraut, og Laufeyjar Tryggvadóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsskrár.

Þar kom meðal annars fram að tengsl áfengis og krabbameina hafa verið þekkt í um þrjá áratugi en Laufey telur að vegna þess hve áfengi er mikill hluti af menningu þjóðarinnar vilji fólk ekki heyra það. Til dæmis eru tengsl brjóstakrabbameins við áfengi og krabbamein í ristli og endaþarmi vel þekkt.

Í tengslum við þá mýtu að eitt glas á dag sé hjartastyrkjandi, benti Laufey á nýlega stóra rannsókn sem birtist í læknatímaritinu Lancet, þar sem sterklega kom fram að enginn lágmarksskammtur af áfengi sé hlutlaus eða hollur. Áfengisneysla byrjar strax að hafa áhrif og veldur 3 milljónum dauðsfalla á heimsvísu á ári. Ekki þurfi að hætta að smakka áfengi að hennar sögn, en aldrei að fá sér glas til að bæta heilsuna. Það sé bágbilja sem hafi verið hrakin. Ekki sé þó vinsælt að vera boðberi þessara frétta.

Aukið aðgengi eykur krabbameinstilfelli

Afleiðingar aukins aðgengis að áfengi hafa verið margrannsakaðar og hafa áhrif til fjölgunar krabbameinstilfella. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggur áherslu á að dregið sé úr áfengisneyslu til að bæta heilsufar þjóða. Stofnunin telur langáhrifaríkustu aðferðirnar til að minnka áfengisneyslu vera í höndum stjórnvalda; verðstýring, aðgangstakmörkun og auglýsingabann.

Íslendingar drekka minna en hinar Norðurlandaþjóðirnar en Danir drekka mest, sem marka má af tölum um heilsufar þjóðarinnar. Vínandi í áfengi er krabbameinsvaldurinn. Því meira magn, því meiri áhætta, en etanól og niðurbrotsefni þess eru staðfestir krabbameinsvaldar og geta meðal annars valdið stökkbreytingum, sem aftur valda krabbameinum.

Áfengistengd dauðsföll myndu aukast

Umræða um að leyfa einnig sölu á áfengi í sérverslunum er ekki ný af nálinni. Sú umræða hefur farið fram í Svíþjóð og niðurstaðan var sú að áfengistengd dauðsföll vegna krabbameina myndu aukast um 18 prósent ef salan færi fram í sérverslunum, enn meira ef hún færi einnig fram í almennum verslunum. Þessi skilaboð þurfi að komast til skila til fulltrúa okkar á Alþingi sem hafa nú til meðferðar frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak.

Áfengi veldur 5% af öllum brjóstakrabbameinum á Norðurlöndunum og 3% af krabbameinum í ristli og endaþarmi.

Ofsadrykkja er að minnka, sem er af hinu góða. En að fá sér einn á hverjum degi er ekki gott fyrir heilsuna að mati Laufeyjar.

Þáttinn á Hringbraut má sjá í heild sinni hér.


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?