Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 7. sep. 2020

Af hverju var starfsmaður nefndur vegna mistakanna?

Krabbameinsfélagið harmar að starfsmaður sem gerði mistök við greiningu leghálssýnis sé nú nafngreindur í fjölmiðlum. Krafa hefur verið gerð um að fréttir þess efnis verði fjarlægðar.

Félagið hefur legið undir ámæli fyrir að greina frá því að mistökin hafi verið gerð af einum starfsmanni. Það var ekki gert til að koma sök á starfsmanninn, heldur til að skýra í hverju mistökin fólust.

Þegar málið kom til tals í fjölmiðlum vildi félagið gera allt sem í valdi þess stóð til að forðast að draga starfsmanninn inn í umræðuna. Það var hins vegar ljóst að félagið myndi fá á sig mikla gagnrýni ef það leyndi upplýsingum. Því var mikilvægt að fram kæmi að ekki væri um kerfislæg eða tæknileg mistök að ræða heldur mannleg mistök. Þess vegna var óhjákvæmilegt að fram kæmi að um einn starfsmann væri að ræða þar sem greining leghálssýna fer fram með þeim hætti.

Kröfur voru um að félagið gæfi skýringu á því af hverju einungis sex þúsund sýni yrðu greind aftur þegar heildarfjöldi sýna á umræddu tímabili (þrjú ár) var 75 þúsund. Ekki var hægt að skýra það með öðrum hætti en þeim að um væri að ræða sýni eins starfsmanns.

Félagið vissi að fjölmiðlar hefðu fengið upplýsingar um ætluð veikindi starfsmannsins og myndu birta þær. Staðhæfingar um að Krabbameinsfélagið hafi gefið upp af hvaða toga veikindin voru eru ekki réttar. Áréttað skal að á meðan starfsmaðurinn var að störfum fyrir félagið var gengið út frá því að hann væri heill heilsu og hefði náð sér af veikindunum.

Undir engum kringumstæðum hefur Krabbameinsfélagið eða stjórnendur þess haldið því fram að starfsmaðurinn bæri þessa ábyrgð. Skýrt hefur verið tekið fram að Krabbameinsfélagið beri ábyrgð á mistökunum.

Krabbameinsfélagið hefur verið í góðum samskiptum við starfsmanninn alveg frá því að málið kom upp í sumar og veitt honum stuðning. Framkvæmdastjóri félagsins ræddi aftur við hann í dag til að biðja hann afsökunar á því að hann hafi dregist inn í umfjöllun um málið með þessum hætti og upplýsa hann um hvernig það kom til.

Uppfært:
Komið hefur fram í fjölmiðlum að frétt um starfslok starfsmannsins hafi verið fjarlægð af heimasíðu Krabbameinsfélagsins. Það er rétt og var gert í þeim tilgangi að vernda starfsmanninn og reyna að stuðla að nafnleynd hans.


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?