Birna Þórisdóttir 26. feb. 2020

Af hverju hreyfing í Mottumars?

Nú styttist í Mottumars, árlegt verkefni Krabbameinsfélagsins, sem er í senn vitundarvakning um krabbamein hjá körlum og fjáröflun fyrir félagið. Í ár leggjum við áherslu á gildi hreyfingar sem forvarnar gegn krabbameinum.

Skiptir hreyfing máli?

Rannsóknir sýna að regluleg hreyfing minnkar líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi, brjóstum, legbol og að öllum líkindum einnig blöðruhálskirtli. Sjálf hreyfingin hefur áhrif á hormónamagn líkamans, meðal annars insúlín og estrógen, bólguþætti og hversu hratt fæðan fer í gegnum meltingarveginn, sem eru allt þættir sem hafa áhrif á krabbameinsáhættu. Þar sem hreyfing er mikilvægur þáttur í þyngdarstjórnun gætir einnig óbeinna verndandi áhrifa á fjölda annarra krabbameina, sem tengjast líkamsþyngd.

Auk þess að hafa fyrirbyggjandi áhrif á krabbamein er hreyfing til góðs fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein. Því er þeim sem greinast með krabbamein ráðlagt að fylgja almennum ráðleggingum um hreyfingu, nema þeim sé sérstaklega ráðlagt frá því.

Hreyfing dregur einnig úr líkum á mörgum öðrum langvinnum sjúkdómum, hefur jákvæð áhrif á starfsemi líkamans og getur bætt almenna líkamlega og andlega líðan. Regluleg hreyfing hefur því fjölþætt góð áhrif.

Hversu mikil þarf hreyfingin að vera?

Hreyfing til heilsubótar einskorðast ekki við æfingu í íþróttafötum og hvers kyns hreyfing hefur jákvæð áhrif. Mikill heilsufarsávinningur er í því fólginn að fara úr því að hreyfa sig lítið flesta daga yfir í reglulega hreyfingu.

Ráðlagt er að fullorðnir hreyfi sig þannig að hjartsláttur og öndun verði hraðari en venjulega í að minnsta kosti hálftíma á dag og börn tvöfalt lengur. Heildartímanum má skipta upp í nokkur styttri tímabil yfir daginn, t.d. 10-15 mínútur í senn. Dæmi um slíka hreyfingu er rösk ganga, rólegt skokk, hjólreiðar, sund, jóga, styrktarþjálfun með lausum lóðum og ýmsar fleiri æfingar og íþróttir sem ekki endilega eru hugsaðar með bætingu eða keppni í huga.

Um hreyfingu gildir að meira er betra, bæði hvað varðar tíma og ákefð, svo lengi sem hreyfingin fer ekki út í öfgar og hlustað er á skilaboð líkamans. Einnig er mikilvægt að takmarka þann tíma sem fer í kyrrsetu, meðal annars með því að velja sem oftast virkan ferðamáta og standa reglulega upp.

Hvað gera Íslendingar?

Í könnun Embættis landlæknis frá 2017 (birt apríl 2018) var fólk spurt hversu marga daga í vikunni á undan það hefði hreyft sig rösklega að minnsta kosti í hálftíma. Fimmtungur fólks hafði ekki gert það nokkurn dag vikunnar og einungis helmingur fólks sagðist hafa náð því þrjá eða fleiri daga. Stór hluti Íslendinga hefði því hag af því að auka hreyfinguna.

Hreyfing sem hluti af stærri heild

Hægt er að koma í veg fyrir 4 af hverjum 10 krabbameinum með heilsusamlegum lífsstíl. Auk reglulegrar hreyfingar er fólk hvatt til að forðast reyk, tóbak, áfengi og ljósabekki, huga að mataræðinu og velja sem oftast lítið unnin matvæli úr jurtaríkinu, stefna að eða viðhalda hæfilegri líkamsþyngd og vernda húðina fyrir skaðlegum geislum sólar. Fleiri þættir eiga við um ákveðna hópa, sjá frekari upplýsingar www.krabb.is/forvarnir.

Aðal heimildir:

---


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Takk sjálfboðaliðar!

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og Krabbameinsfélagið vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins. Í tilefni dagsins fengum við nokkra sjálfboðaliða til að segja okkur frá því hvers vegna þau velja að leggja baráttunni gegn krabbameinum lið.

Lesa meira

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?