Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 25. sep. 2020

Af hverju er ristilskimun ítrekað frestað?

Á ári hverju greinast að meðaltali um 185 einstaklingar með krabbamein í ristli og endaþarmi og um 70 manns látast af völdum sjúkdómsins, fleiri en einn í hverri viku.

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins, 6. júní 2020, var skorað á heilbrigðisráðherra að setja þegar í stað fram tímasetta og fjármagnaða áætlun um að hefja skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi síðar á þessu ári.

Nýgengi fer vaxandi en þessi tegund krabbameina og forstig þeirra eru meðal fárra sem hægt er að greina með skimun. Ef hægt er að greina og meðhöndla forstig má koma í veg fyrir krabbameinin og ef þau greinast snemma eru mun meiri líkur á lækningu og meðferð við þeim minna íþyngjandi. Þrátt fyrir endurtekna umræðu, fyrirheit og áralangan undirbúning hafa heilbrigðisyfirvöld ekki hrundið skimuninni af stað. 

Allt frá aldamótum hefur ristilskimun reglulega verið til umræðu á Alþingi, ályktað hefur verið um hana og veitt til hennar fjármagni. Sem dæmi má nefna að Alþingi fól heilbrigðisráðherra undirbúning sem skyldi leiða til þess að skimunin hæfist árið 2008. Af því varð ekki og heldur ekki árið 2009 sem heilbrigðisráðherra lýsti þó yfir að stæði til. 

Með samkomulagi Krabbameinsfélagsins og velferðarráðuneytisins fór fram undirbúningur sem skyldi leiða til þess að skimunin hæfist haustið 2017 en stjórnvöld frestuðu því. Á fjárlögum síðustu þriggja ára hefur verið veitt fjármagni til verkefnisins en skimunin ekki hafin þrátt fyrir það. Með samkomulagi velferðarráðuneytis og Krabbameinsfélagsins var unnið að undirbúningi ristilskimunar árið 2016, hannað kerfi til innköllunar, keypt greiningartæki, forritaðir gagnagrunnar og fleira. 

Embætti landlæknis var falið að skilgreina markhópinn og aðferðir. Mælt var með skimun fyrir blóði í hægðum annað hvert ár hjá 60-69 ára. Greindist blóð yrði ristilspeglun framkvæmd í framhaldinu. Lagt var til að stækka markhópinn í 50-74 ára ef vel gengi. Með samkomulaginu voru lagðar 45 milljónir í verkefnið, þar af 20 milljónir frá Krabbameinsfélaginu.

„Það er ótrúlegt að ekki skuli hafa verið aðhafst í heil þrjú ár frá því fyrirhugað var að hefja skimunina. Ef skimunin hefði hafist upp úr 2008 eins og upphaflega var ráðgert hefði verið hægt að bjarga hluta þeirra sem létust á tímabilinu með því að grípa fyrr inn í framgang sjúkdómsins. Það má ekki leggja árar í bát því afar brýnt er að hefja skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi sem allra, allra fyrst. Málið hefur haft mjög víðtækan stuðning á Alþingi og engin leið að átta sig á hvar eða hvers vegna málið steytir sífellt á skeri. Það verður að hefja þessa skimun og þar verða stjórnvöld að láta verkin tala,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins veturinn 2020-2021.


Fleiri nýjar fréttir

Halla Þorvaldsdóttir

15. jan. 2022 : Dýrkeypt heimsóknabann

Þær aðstæður sem skapast af heimsóknarbanni gera fólki ókleift að vera saman í erfiðum aðstæðum og eru í raun óboðlegar og ómannúðlegar. Það getur haft víðtæk áhrif til lengri tíma litið bæði fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. Leita verður allra leiða til lausna meðan staðan er þessi og þar ríður á að fólk standi saman, sjúklingar, aðstandendur og heilbrigðisstarfsfólk, gefist ekki upp gagnvart verkefninu heldur takist á við aðstæðurnar með þrautseigju en ekki síður útsjónarsemi að leiðarljósi. 

Lesa meira

14. jan. 2022 : Bláa Lónið styrkir Vísindasjóð Krabbameinsfélagsins um 3 milljónir

„Það er okkur sönn ánægja að geta veitt fjárstuðning sem þennan, enda er, hér eftir sem hingað til, afar mikilvægt að efla og styrkja íslenskar rannsóknir á krabbameinum og er Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins vel til þess fallinn að halda utan um þær,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins.

Lesa meira

10. jan. 2022 : Doktorsvörn - Keratinocyte krabbamein á Íslandi: Faraldsfræði og lyfjanotkun

Þann 20. desember sl. varði Jónas Aðalsteinn Aðalsteinsson doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Verkefnið byggði á gögnum Krabbameinsskrár. Unnið í samstarfi við Rannsókna- og Skráningarsetur Krabbameins­félagsins og var forstöðumaður setursins annar tveggja leiðbeinenda.

Lesa meira

5. jan. 2022 : Fundur með heilbrigðisráðherra um nýja dagdeild

Í morgun átti Krabbameinsfélagið góðan fund með nýjum heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórssyni og starfsmönnum ráðuneytisins. Á fundinum var farið stuttlega yfir starfsemi félagsins en meginefni fundarins var alvarlega staða á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala en aðstaða deildarinnar er óboðleg, fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. 

Lesa meira

5. jan. 2022 : Tölfræði um krabbamein uppfærð til ársins 2020

Á heimasíðu Rannsókna- og skráningarseturs Krabbameinsfélags Íslands (RSKÍ) má finna ýmsa tölfræði um krabbamein, undir Rannsóknir og skráning. Nýgengi, dánartíðni og lifun eru birt sem meðaltal 5 ára til að jafna út tilviljunarsveiflum sem eru algengar í hinu fámenna íslenska þýði. Þessi tölfræði er uppfærð árlega. Nýgengi og dánartíðni eru aldursstöðluð með norrænum aldursstaðli.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?