Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 27. jan. 2020

„Af hverju ekki ég?

  • Vigdís
    Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og verndari Krabbameinsfélagsins.

Vigdís Finnbogadóttir var 48 ára þegar hún greindist með brjóstakrabbamein og fór í brjóstnám. Hún rifjar upp þennan tíma fyrir rúmum 40 árum þegar ekki var talað jafn opinskátt um hlutina og gert er í dag.

„Ég var á leiðinni út af spítalanum frá mömmu sem hafði brotnað og hitti vinkonu mína á ganginum. Ég spurði hvað hún væri að gera þarna og hún svaraði að hún hefði greinst með brjóstakrabbamein og væri á leið í uppskurð. „Hvernig uppgötvaðirðu það?“ spurði ég og hún svaraði um hæl að hún hefði verið með inndregna geirvörtu. Skömmu síðar var ég í sturtu og uppgötvaði að ég var sjálf með inndregna geirvörtu. Þannig vaknaði grunur minn um að ég væri með brjóstakrabbamein. Það var fyrir algjöra tilviljun að ég skyldi hafa hitt þessa vinkonu mína á þessum tímapunkti.“

Svona hefst viðtal okkar Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands og verndara Krabbameinsfélagsins. Við sitjum í stofunni á fallegu heimili hennar að Aragötunni, sem ber glöggt merki þess að þarna búi ekki aðeins heimskona, heldur virt manneskja í alþjóðasamfélaginu. Bækur þekja hluta stofunnar og þarna má sjá ýmsa fallega muni og listaverk, héðan og þaðan úr heiminum.

Það er létt yfir Vigdísi. Yngsta barnabarnið, Ásta Sigríður sem er tíu ára gömul, er í heimsókn og það er augljóst að það er kært á milli þeirra. „Gullið mitt,“ segir Vigdís, „gerðu nú ömmu greiða og náðu í mjólkurkönnun í eldhúsið fyrir kaffið.“ Ásta Sigríður fer af stað og kemur að vörmu spori með mjólkina fyrir ömmu og gestina þennan bjarta þriðjudagseftirmiðdag. Við höldum spjallinu áfram.

„Við þennan grun fer ég strax til læknis sem sendir mig í röntgenmyndatöku og þá kemur í ljós krabbamein í öðru brjóstinu. Ég hringi í mömmu sem lá enn á spítalanum og segi henni fréttirnar. Hún hvatti mig til að hringja í fyrrverandi mág minn, lækni, sem segir svo afskaplega skemmtilega við mig í símann: „Já, Vigga mín. Life is tough, but you are tougher.“ Þetta er setning sem hefur mótað mig og oft gefið mér styrk í lífinu. Og einmitt þarna, þegar mér er sagt að ég geti komið viku seinna, þurfi að bíða, veitir þetta mér styrk til að vera fylgin mér. Ég sagðist fara til útlanda ef ég fengi ekki þjónustuna strax. Ég myndi panta mér pláss í Danmörku eða Ameríku, og það varð úr að ég var send í brjóstnám strax. Aðgerðin var 2. febrúar 1978. Þú sérð hvað þetta hefur haft mikil áhrif á mig að ég man dagsetninguna enn.“

Fannst Vigdísi þetta ósanngjarnt hlutskipti?

„Ég hugsaði, af hverju ekki ég? Þegar svo margar konur fá þennan sjúkdóm er eðlilegt að hugsa þannig.

Tölfræðin segir sína sögu og það er eðlilegra að hugsa af hverju maður ætti að vera laus við áföll sem aðrir fá. Ég hef alltaf hugsað þetta þannig.“

Vigdís var 48 ára þegar hún greinist með krabbameinið, leikhússtjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó, nú Borgarleikhúsið, og Ástríður dóttir hennar var þá einungis sex ára. Á slíkum tímum í lífinu skiptir máli að eiga góða að og það átti Vigdís svo sannarlega.

„Ástríður fékk að vera hjá vinkonu minni á meðan ég var á spítalanum og þarna voru gamlir nemendur mínir orðnir læknar á kandídatsári. Þeir fóru óbeðnir á bókasafnið á spítalanum og færðu mér bækur og greinar um sjúkdóminn. Ég gleymi þessu aldrei. Vinir mínir allir studdu mig og ekki síst leikhúsið og vinir þar og ég fann mikinn stuðning víða að. Og blómin! Þvílíkt blómahaf! Þau voru hlaðin á rúlluborð og höfð frammi í almenningi.“

Börn og veikindi foreldra

Í dag er lögð mikil áhersla á faglega ráðgjöf og stuðning sem hluta af endurhæfingu. Nýverið voru samþykkt á Alþingi lög sem tryggja börnum rétt til þessa stuðnings í kerfinu. Ástríður var sex ára þegar mamma hennar greindist: „Ég held að hún hafi ekki gert sér grein fyrir þessu. Mamma var bara lasin á spítala, svo kom ég heim og þá var allt eins og það átti að vera.“

Í þeim töluðu orðum kemur Ástríður dóttir Vigdísar inn úr dyrunum. Aðspurð um hvernig hún hafi upplifað þetta tímabil segist hún ekki hafa áttað sig á alvarleika málsins: „Mamma sýndi mér aldrei ef hún var hrædd við eitthvað heldur verndaði mig og passaði að lífið hefði sinn vanagang. Eftir á að hyggja var það hárétt hjá henni, því þetta fór allt vel. Það hefði verið erfiðara ef það hefði farið illa. Það er alltaf erfitt að taka ákvörðun um hversu miklu eigi að deila með ungum börnum í erfiðum aðstæðum. Mamma hefur alltaf passað vel upp á mig og fólkið sitt og þess vegna pössuðu allir vel upp á okkur á þessum tíma. Sem betur fer sigraði hún krabbann og við höfum fengið að hafa hana æ síðan.“

V4-copyVigdís tekur við: „Þetta er auðvitað óskaplegt áfall fyrir hvern og einn, en svo verður maður að lifa með því og ég held að ég hafi gert það besta úr stöðunni. Ég er náttúrulega sterk manneskja og tók þessu eins og verkefni sem þurfti að leysa og reyndi að komast í gegnum það eins vel og ég gat.“

Eftir aðgerðina tók við uppbygging á brjóstinu og sjúkrahúslega í nokkra daga, sem Vigdís segir að hafi einkennst af einskærri jákvæðni: „Árni minn Björnsson sá um uppbygginguna, blessuð sé minning hans. Hann gerði það svo vel og ég var svo afar kát á sjúkrahúsinu. Það var allt svo fyndið og ég var svo fegin að allt gekk vel. Við vorum á 4-6 manna stofu og vorum síhlæjandi. Lífið var aftur orðið skemmtilegt.“

Umræða um krabbamein hafði verið hluti af umhverfi Vigdísar. Mamma hennar var hjúkrunarfræðingur og í fjölskyldunni var saga um krabbamein. Á þessum tíma var þó ekki talað jafn opinskátt um hlutina og gert er í dag:

„Til allrar hamingju hefur umræðan opnast öllum til góðs. Ég er raunsæismanneskja og baráttukona og af því þetta var ekki rætt í þá daga, þá þagði ég og hélt áfram mínum verkefnum. Auk þess gat ég ekki hugsað mér að mér yrði vorkennt, að það væri talað niður til mín og ég kölluð „vinan“ eins og gert var í nokkur skipti á spítalanum. Það fór stundum í taugarnar á mér.“

Á þessum tíma var verið að leggja drög að byggingu Borgarleikhússins og viðræður Leikfélags Reykjavíkur við Reykjavíkurborg stóðu yfir. Vigdís sinnti vinnu galvösk og undirritaði samningana við borgina fyrir hönd leikhússins. Ég spyr Vigdísi um söguna um tjaldið fyrir sturtuklefa í sundlaugum borgarinnar.

„Já, ég fór til borgarstjóra, sem þá var Davíð Oddsson, og spurði hvort ekki væri hægt að setja sérstakt tjald fyrir einn af sturtuklefunum í sundlaugunum fyrir konur í minni stöðu og honum fannst það sjálfsagt. En þannig fór að það var rifið niður, fékk ekki að vera í friði af einhverri skemmdaráráttu. Skömmu síðar kom Davíð til mín og sagði mér að það væri ekki til friðs þetta tjald. Ég var búin að vera leikhússtjóri í sex ár og ekki nærri eins kunn í þjóðfélaginu og ég er núna, en menn vissu hver ég var. Ég varð hins vegar aldrei vör við að fólk væri nokkuð að velta þessu fyrir sér.“

Fyrirmynd kvenna

„Margar konur hafa sagt mér að þegar þær vakna upp eftir brjóstaaðgerð hafi þær hugsað til mín. Ég hef átt heilt líf eftir brjóstnám og ég verð alltaf svo fegin að heyra að ég er gangandi dæmi um hvernig hægt er að komast í gegnum brjóstakrabbamein. Ef ég vil vera fyrirmynd á einhverju sviði þá vil ég að það sé í þessu tilliti.“

Þriðji hver Íslendingur greinist með krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Sjúkdómurinn hefur sett sitt mark á fjölskyldu Vigdísar.

BolurBolur með tilvitnun Vigdísar er til sölu í vefverslun Krabbameinsfélagsins.

„Föðurfólkið mitt tók það nærri sér að vita að ég væri í baráttu við þennan sjúkdóm, ekki síst vegna þess að föðursystir mín hafði lotið í lægra haldi fyrir brjóstakrabbameini. Að öðru leyti var ég ekki spurð út í þennan sjúkdóm fyrr en í kosningaframboðinu. Þú þekkir söguna af því þegar ég var spurð hvort ég gæti verið forseti bara með eitt brjóst. Ég var svo fljót að hugsa á þessum árum að ég sagði að ég hefði ekki hugsað mér að hafa þjóðina á brjósti og salurinn lá í hláturskasti eins og svo oft í þessari kosningabaráttu,“ segir Vigdís sposk á svipinn:

„En tímarnir hafa breyst. Ég man eftir manni sem stóð upp og sagði að hann væri feginn að ég væri ekki gift, eða með karlmann mér við hlið, því þá hefði verið sagt að þetta hefði karlinn sagt mér að segja. Þetta var alveg brilljant. En þetta myndi enginn segja í dag því konur eru nú um stundir svo sannarlega taldar jafningjar karla.“

Sem verndari hefur Vigdís reynst Krabbameinsfélaginu ómetanlegur stuðningur og þekking hennar og reynsla skiptir miklu máli. Að greinast með krabbamein mótar fólk, er það reyndin í hennar tilfelli?

„Ég hugsa það, en ég er ekki alveg dómbær. Allt andstreymi mótar mann. En síðan ég fékk krabbameinið, þá tek ég ekki neinu sem gefnu.“ Vigdís missti bróður sinn af slysförum þegar hún var tvítug. Hún segir að það hafi haft mikil áhrif á hana.

„Slík áföll eru öllum ógleymanleg. Það er ekki hægt að panta að lífið sé alltaf eins og maður óskar. Ég held að ég hafi tekið andstreymi í lífinu tiltölulega skynsamlega. Að gefast ekki upp og leita að eigin styrk og ég hugsa að ég myndi ekki gera neitt öðruvísi í dag. “

Sólin er farin að varpa skuggum af fallegu hlutunum á heimili Vigdísar og Ásta Sigríður spásserar um stofuna. Lundapar úr postulíni í suðurglugganum virðist tvístígandi og það er kominn tími til að þakka Vigdísi gestrisnina. Hún vill að lokum koma skilaboðum til kvenna um þátttöku í skimun.

„Ég skil ekki að þjóð sem er jafn menntuð og Íslendingar eru, skuli ekki sinna þessari sjálfsögðu forvörn betur. Ef ég ætti að giska, þá held ég að það sé óttinn við að það gæti verið eitthvað að eða það kæruleysi og sú hugsun að þetta geti ekki komið fyrir viðkomandi.“

Ástríður tekur undir þetta og bætir við að hraði samfélagsins geti einnig haft þessi áhrif, sem og kostnaður við skimunina fyrir ákveðinn hóp kvenna og þess vegna ætti að vera sjálfsagt að hafa skimunina gjaldfrjálsa.

Um leið og við kveðjum Vigdísi ítrekar hún hvatningu sína til kvenna:

„Þiggið allt sem er í boði til að vita allt sem viðkemur heilsu ykkar. Farið í skimun, því ef eitthvað er að, segja vísindin okkur að það skipti máli að hefja meðferð sem fyrst. Ef ég hefði ekki farið í röntgenmyndatöku á sínum tíma, er ekki víst að ég hefði fengið að lifa eins skemmtilegu og viðburðamiklu lífi og raun ber vitni.“

 

Viðtalið birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins 2020 sem má nálgast í heild sinni hér .

 

Viðtal: Sigríður Sólan Guðlaugsdóttir
Ljósmyndir: Ásta Kristjánsdóttir
Förðun: Elín Reynisdóttir

Vigdis-vid-insta-copyKonurnar að baki viðtalinu; Sigríður, Vigdís, Elín og Ásta.

 


Fleiri nýjar fréttir

Halla Þorvaldsdóttir

28. mar. 2020 : Mottumars snýst um karla og krabbamein

Verum ávallt vakandi fyrir einkennum krabbameina eins og segir í Mottumarslaginu í ár ættu karlmenn að „tékka á sér“ og vera vakandi fyrir ýmsum breytingum á líkama sínum sem geta verið vísbendingar um krabbamein.

Lesa meira

26. mar. 2020 : Heimildarmyndin: Lífið er núna

Rúv sýndi þann 26. mars heimildarmyndina Lífið er núna sem framleidd var í tilefni þess að Kraftur fagnaði 20 ára afmæli á árinu 2019.

Lesa meira

23. mar. 2020 : Temporary stop on cancer screening at The Cancer Detection Clinic (Leitarstöð)

In compliance with the Director of Health we must temporarily suspend all cancer screening procedures beginning Tuesday, 24th of March.

Lesa meira

23. mar. 2020 : Tímabundið hlé á skimunum hjá Leitarstöð

Í samræmi við fyrirmæli Landlæknis verður gert tímabundið hlé á skimunum Leitarstöðvarinnar frá og með þriðjudeginum 24. mars.

Lesa meira

20. mar. 2020 : Covid-19: Questions and answers

Answers to common questions that concern people with cancer and their caregivers.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?