Ása Sigríður Þórisdóttir 24. maí 2022

70 andlit í 70 ár - Gunnlaugur Snædal

Gunnlaugur Snædal prófessor var formaður Krabbameinsfélags Íslands frá 1979 til 1988 en hafði þá verið í stjórninni í eitt ár. Hann var formaður Krabbameinsfélags Reykjavíkur frá 1966 til 1979.

Meðal stærstu verkefna í formannstíð Gunnlaugs hjá Krabbameinsfélaginu var bygging nýrra höfuðstöðva félagsins við Skógarhlíð í Reykjavík. Þær voru teknar í notkun haustið 1984 en safnað var fyrir þeim að stórum hluta í fyrsta Þjóðarátaki gegn krabbameini. Í kjölfarið hófst skipuleg leit að brjóstakrabbameini og Rannsóknastofa í sameinda- og frumulíffræði og Heimahlynningin tóku til starfa.

Gunnlaugur var fæddur í Norður-Múlasýslu 13. október 1924, sonur Jóns Snædal bónda og Stefaníu Carlsdóttur, og dó 7. september 2010, 85 ára. Kona hans var Berta Jónsdóttir og áttu þau þrjá syni.

Að loknu prófi frá læknadeild Háskóla Íslands, 1951, fór Gunnlaugur til Danmerkur og Svíþjóðar í framhaldsnám og hlaut sérfræðiviðurkenningu í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp 1958. Í desember 1964 varði Gunnlaugur doktorsritgerð sína um brjóstakrabbamein á Íslandi. Hann var læknir á leitarstöð Krabbameinsfélagsins í Heilsuverndarstöðinni frá 1957 til 1964, læknir á fæðingardeild Landspítala frá 1960, yfirlæknir frá 1975 og prófessor í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp við læknadeild Háskóla Íslands frá 1985 til 1994. Var kennari við Hjúkrunarskóla Íslands og skólastjóri Ljósmæðraskóla Íslands.

„Vegna mannkosta var hann snemma valinn til forystu í læknastétt og líknarfélögum og vann öll þau störf af lagni og vandvirkni,“ sagði Jón Þorsteinsson læknir. „Gunnlaugur var glæsimenni, bjartur yfirlitum og þannig í fasi að eftir var tekið,“ sagði Jón Þorgeir Hallgrímsson læknir. „Það sem einkenndi framkomu hans og skapgerð öðru fremur var hvað hann var uppörvandi og jákvæður,“ sagði Tryggvi Þorsteinsson læknir.

Gunnlaugur Snædal er eitt af 70 andlitum Krabbameinsfélagsins á afmælisárinu 2021-2022. Við ætlum að birta 70 myndir eða myndskeið af fólki sem hefur komið við sögu í baráttunni gegn krabbameinum í 70 ára sögu félagsins. Krabbameinsfélagið er rekið fyrir sjálfsaflafé með stuðningi frá íslenskum almenningi og fyrirtækjum. Við hvetjum fólk til að fylgjast með á instagram og facebook, myllumerkið er #70andlit


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Takk sjálfboðaliðar!

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og Krabbameinsfélagið vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins. Í tilefni dagsins fengum við nokkra sjálfboðaliða til að segja okkur frá því hvers vegna þau velja að leggja baráttunni gegn krabbameinum lið.

Lesa meira

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?