Ása Sigríður Þórisdóttir 11. maí 2022

70 andlit fyrir 70 ára - Ragnheiður Haraldsdóttir

Ragnheiður Haraldsdóttir hjúkrunarfræðingur var forstjóri Krabbameinsfélagsins á árunum 2010 til 2015. Hún var afar framsýn og á hennar starfstíma var unnin hnitmiðuð stefnumótun fyrir félagið auk þess sem mjög stór framfaraverkefni voru ýmist undirbúin eða framkvæmd. Má þar nefna íslenska krabbameinsáætlun, sem Ragnheiður var mikill talsmaður fyrir. 

Heilbrigðisráðherra tilkynnti á 60 ára afmæli félagsins, árið 2011 að gerð yrði krabbameinsáætlun fyrir Ísland. Verkið sóttist seint en undir forystu Ragnheiðar lagði Krabbameinsfélagið mikla vinnu auk fjármuna í áætlunina. Heilbrigðisráðherra samþykkti loks tillögur að krabbameinsáætlun til 2020 í upphafi árs 2019 og framlengdi gildistíma hennar til 2030.

Á starfstíma Ragnheiðar var líka unnið að undirbúningi innleiðingar skimunar fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi og m.a. gengið frá samstarfssamningi við tryggingafélagið Okkar líf. Formlegur undirbúningur verkefnisins hófst á árinu 2016. Á starfstíma Ragnheiðar var einnig gengið frá samkomulagi Krabbameinsfélagsins og Landspítala um að spítalinn sinnti klínískum brjóstaskoðunum, sem leiddi til þess að Landspítalinn tók alfarið við þeim skoðunum frá 1. janúar 2017. Ragnheiður vann unnið að uppbyggingu Vísindasjóðs félagsins, sem var stofnaður í lok árs 2015. Vísindasjóðurinn hefur reynst bylting í krabbameinsrannsóknum á Íslandi. 

Eftir að Ragnheiður lét af starfi forstjóra var hún formaður stjórnar Nordic Cancer Union út árið 2017 og leiddi starf sambandsins með miklum sóma. Þó Ragnheiður sé ekki lengur starfsmaður Krabbameinsfélagsins brennur hún fyrir málstað félagsins. Hún var kjörin í heiðursráð félagsins árið 2018 en gegnir einnig formannshlutverki í Vísindasjóði félagsins, sem hún kom á í sinni forstjóratíð.

Ragnheiður Haraldsdóttir er eitt af 70 andlitum Krabbameinsfélagsins á afmælisárinu 2021-2022. Við ætlum að birta 70 myndir eða myndskeið af fólki sem hefur komið við sögu í baráttunni gegn krabbameinum í 70 ára sögu félagsins. Krabbameinsfélagið er rekið fyrir sjálfsaflafé með stuðningi frá íslenskum almenningi og fyrirtækjum. Við hvetjum fólk til að fylgjast með á instagram og facebook, myllumerkið er #70andlit


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?