Björn Teitsson 21. jún. 2021

70 andlit fyrir 70 ár - Vigdís Finnbogadóttir

  • Vigdis

Frú Vigdís Finnbogadóttir er verndari Krabbameinsfélags Íslands og er að sjálfsögðu eitt af 70 andlitum félagsins á 70 ára afmælinu. Hér er Vigdís ásamt Þorvaldi bróður sínum á táningsaldri. 

Kæru Íslendingar. Gleðilega hátíð! Frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands frá 1980 til 1996 er verndari Krabbameinsfélagsins. Hér á mynd ásamt Þorvaldi bróður sínum sem var tekin árið 1949 á Ljósmyndastofunni ASIS á Bankastræti, sem þýðir að ljósmyndari hafi verið Jóhanna Sigurjónsdóttir eða Ingibjörg Sigurðardóttir. Vigdís er 19 ára þegar myndin er tekin en Þorvaldur ári yngri. Hann lést af slysförum árið 1952, tekinn frá fjölskyldu sinni allt of ungur.

Vigdís þekkir krabbamein vel og af eigin raun. Hún var til viðtals hjá Krabbameinsfélaginu í fyrra, í tímariti sem var gefið út á vegum félagsins, en á árinu 2020 fagnaði Vigdís 90 ára afmæli. Árið 1978 fer Vigdís á spítalann til að heimsækja móður sína. „Ég var á leiðinni út af spítalanum frá mömmu sem hafði brotnað og hitti vinkonu mína á ganginum. Ég spurði hvað hún væri að gera þarna og hún svaraði að hún hefði greinst með brjóstakrabbamein og væri á leið í uppskurð. „Hvernig uppgötvaðirðu það?“ spurði ég og hún svaraði um hæl að hún hefði verið með inndregna geirvörtu. Skömmu síðar var ég í sturtu og uppgötvaði að ég var sjálf með inndregna geirvörtu. Þannig vaknaði grunur minn um að ég væri með brjóstakrabbamein. Það var fyrir algjöra tilviljun að ég skyldi hafa hitt þessa vinkonu mína á þessum tímapunkti.“

Vigdís fór skömmu síðar í brjóstnám. „Við þennan grun fer ég strax til læknis sem sendir mig í röntgenmyndatöku og þá kemur í ljós krabbamein í öðru brjóstinu. Ég hringi í mömmu sem lá enn á spítalanum og segi henni fréttirnar. Hún hvatti mig til að hringja í fyrrverandi mág minn, lækni, sem segir svo afskaplega skemmtilega við mig í símann: „Já, Vigga mín. Life is tough, but you are tougher.“ Þetta er setning sem hefur mótað mig og oft gefið mér styrk í lífinu. Og einmitt þarna, þegar mér er sagt að ég geti komið viku seinna, þurfi að bíða, veitir þetta mér styrk til að vera fylgin mér. Ég sagðist fara til útlanda ef ég fengi ekki þjónustuna strax. Ég myndi panta mér pláss í Danmörku eða Ameríku, og það varð úr að ég var send í brjóstnám strax.“

Vigdís Finnbogadóttir er eitt af 70 andlitum Krabbameinsfélagsins á afmælisárinu 2021. Við ætlum að birta 70 myndir eða myndskeið af fólki sem hefur komið við sögu í baráttunni gegn krabbameinum í 70 ára sögu félagsins. Krabbameinsfélagið er rekið fyrir sjálfsaflafé með stuðningi frá íslenskum almenningi og fyrirtækjum. Við hvetjum fólk til að fylgjast með á instagram og facebook, myllumerkið er #70andlit

70 andlit fyrir 70 ár í sögu Krabbameinsfélags Íslands - yfirlit yfir þau andlit sem þegar hafa verið birt:





Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?