Björn Teitsson 16. ágú. 2021

70 andlit fyrir 70 ár - Arnar Sveinn Geirsson

  • Arnar_sveinn

Arnar Sveinn Geirsson, formaður Leikmannasambands Íslands og fótboltamaður, situr í stjórn Krafts. Hann á sér sögu með krabbameinum eins og við flest. Hann missti móður sína aðeins 12 ára gamall. 

Arnar Sveinn Geirsson er fæddur árið 1991, alinn upp í Hlíðunum og varð snemma þekktur fótboltamaður í uppeldisfélagi sínu í Val. Þar naut hann mikillar velgengni og hefur fagnað bæði bikar-og Íslandsmeistaratitlum að Hlíðarenda. Arnar hefur einnig vakið athygli sem talsmaður fótboltamanna á Íslandi sem formaður Leikmannasambands Íslands og nú nýlega sem sérfræðingur eða „pundit“ á Evrópumóti karla sem fram fór um alla Evrópu í sumar.


Arnar, eins og við flest, á sér sögu með krabbameinum. Hann missti móður sína þegar hann var aðeins 12 ára gamall. Hann glímdi við erfiðar tilfinningar vegna þess lengi vel, fannst eitthvað vanta. Í dag hefur hann unnið mikið í sinni sorg og lifir með henni og minningu móður sinnar. Hann lætur líka af sér kveða á vettvangi Krafts, stuðningsfélagi ungs fólks sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur, en þar situr Arnar í stjórn.


„Ég hafði markvisst forðast Kraft í meira en 15 ár - þrátt fyrir þó að fylgjast með í laumi - áður en ég settist í stjórn félagsins. Ástæðan var sú að ég var logandi hræddur við krabbamein. Mamma dó úr krabbameini árið 2003, þegar ég var 12 ára gamall, og ég hélt að besta leiðin væri að setja hausinn undir mig og keyra áfram. Á endanum gat ég ekki meira - lenti á vegg sem ég gat ekki brotið niður - og fór loksins að vinna í öllum tilfinningunum undir niðri sem voru í einum stórum hnút. Í kjölfarið sá ég að fullt af fólki var og er í sömu sporum og ég og því fannst mér það liggja beinast við að gefa af mér og reyna að koma einhverju af því sem ég hef lært til annarra. Ekki reyna að gera þetta ein - það er bæði erfiðara og svo miklu leiðinlegra!“


Arnar Sveinn Geirsson er eitt af 70 andlitum Krabbameinsfélagsins á afmælisárinu 2021. Við ætlum að birta 70 myndir eða myndskeið af fólki sem hefur komið við sögu í baráttunni gegn krabbameinum í 70 ára sögu félagsins. Krabbameinsfélagið er rekið fyrir sjálfsaflafé með stuðningi frá íslenskum almenningi og fyrirtækjum. Við hvetjum fólk til að fylgjast með á instagram og facebook, myllumerkið er #70andlit


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

2. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?