Birna Þórisdóttir 24. sep. 2019

Alþjóðlegur dagur krabbameinsrannsókna í dag

Markmið dagsins er að vekja athygli alþjóðasamfélagsins á mikilvægi krabbameinsrannsókna og þeim miklu framförum sem hafa átt sér stað fyrir tilstilli þeirra. 

Einn af hverjum þremur Íslendingum má búast við að greinast með krabbamein á lífsleiðinni. Mikil framþróun hefur átt sér stað varðandi greiningar og meðferðir og nú er svo komið að um 72% þeirra sem greinast með krabbamein eru á lífi fimm árum síðar. Í dag eru rúmlega 15 þúsund Íslendingar á lífi sem greinst hafa með krabbamein og þeim fer hratt fjölgandi. Meðal helstu áskorana næstu ára er að finna leiðir til að hægja á framvindu krabbameina, bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein auk þess að bæta enn frekar meðferð og lifun. Krabbameinsrannsóknir eru nauðsynlegur þáttur í baráttunni gegn krabbameinum.

Alþjóðlegur dagur krabbameinsrannsókna gefur okkur tækifæri til vitundavakningar og að skuldbinda okkur sem einstaklingar og samfélag til að styðja krabbameinsrannsóknir í orði og gjörðum. Dagurinn gefur okkur líka tækifæri til að gleðjast yfir þeim framförum sem hafa átt sér stað fyrir tilstilli krabbameinsrannsókna, vísindafólkinu sem leggur dag og nótt við rannsóknir og einstaklingana og sjóðina sem styrkja þær.

Hjá Krabbameinsfélaginu fer fram fjölbreytt rannsóknarstarf og má helst nefna rannsóknir úr efnivið Krabbameinsskrár. Starfsfólk félagsins birtir fjölmargar vísindagreinar á hverju ári.

Krabbameinsfélagið heldur einnig úti öflugum vísindasjóði sem hefur á undanförum þremur árum styrkt 24 íslenskar krabbameinsrannsóknir um alls 160 milljónir króna.

Miðlun vísindaniðurstaðna á fjölbreyttum vettvangi skiptir líka máli og næstkomandi laugardag, 28. september kl. 15-20 tekur Krabbameinsfélagið þátt í Vísindavöku Rannís í Laugardalshöll.

Við gleðjumst yfir deginum og þökkum ykkur sem takið þátt í framförum krabbameinsrannsókna með stuðningi ykkar og velvilja. Áfram krabbameinsrannsóknir!

Á vefsíðu alþjóðlega krabbameinsdagsins, World Cancer Research Day, er að finna ýmsar upplýsingar og ykkur boðið að taka þátt í deginum með því að skrifa undir yfirlýsingu til stuðnings krabbameinsrannsókna


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?