Birna Þórisdóttir 24. sep. 2019

Alþjóðlegur dagur krabbameinsrannsókna í dag

Markmið dagsins er að vekja athygli alþjóðasamfélagsins á mikilvægi krabbameinsrannsókna og þeim miklu framförum sem hafa átt sér stað fyrir tilstilli þeirra. 

Einn af hverjum þremur Íslendingum má búast við að greinast með krabbamein á lífsleiðinni. Mikil framþróun hefur átt sér stað varðandi greiningar og meðferðir og nú er svo komið að um 72% þeirra sem greinast með krabbamein eru á lífi fimm árum síðar. Í dag eru rúmlega 15 þúsund Íslendingar á lífi sem greinst hafa með krabbamein og þeim fer hratt fjölgandi. Meðal helstu áskorana næstu ára er að finna leiðir til að hægja á framvindu krabbameina, bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein auk þess að bæta enn frekar meðferð og lifun. Krabbameinsrannsóknir eru nauðsynlegur þáttur í baráttunni gegn krabbameinum.

Alþjóðlegur dagur krabbameinsrannsókna gefur okkur tækifæri til vitundavakningar og að skuldbinda okkur sem einstaklingar og samfélag til að styðja krabbameinsrannsóknir í orði og gjörðum. Dagurinn gefur okkur líka tækifæri til að gleðjast yfir þeim framförum sem hafa átt sér stað fyrir tilstilli krabbameinsrannsókna, vísindafólkinu sem leggur dag og nótt við rannsóknir og einstaklingana og sjóðina sem styrkja þær.

Hjá Krabbameinsfélaginu fer fram fjölbreytt rannsóknarstarf og má helst nefna rannsóknir úr efnivið Krabbameinsskrár. Starfsfólk félagsins birtir fjölmargar vísindagreinar á hverju ári.

Krabbameinsfélagið heldur einnig úti öflugum vísindasjóði sem hefur á undanförum þremur árum styrkt 24 íslenskar krabbameinsrannsóknir um alls 160 milljónir króna.

Miðlun vísindaniðurstaðna á fjölbreyttum vettvangi skiptir líka máli og næstkomandi laugardag, 28. september kl. 15-20 tekur Krabbameinsfélagið þátt í Vísindavöku Rannís í Laugardalshöll.

Við gleðjumst yfir deginum og þökkum ykkur sem takið þátt í framförum krabbameinsrannsókna með stuðningi ykkar og velvilja. Áfram krabbameinsrannsóknir!

Á vefsíðu alþjóðlega krabbameinsdagsins, World Cancer Research Day, er að finna ýmsar upplýsingar og ykkur boðið að taka þátt í deginum með því að skrifa undir yfirlýsingu til stuðnings krabbameinsrannsókna


Fleiri nýjar fréttir

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

23. nóv. 2023 : Fulltrúar Krabbameinsfélagsins á faraldsfæti

Um þessar mundir stendur Krabbameinsfélagið fyrir átaksverkefni sem miðar að því að fjölga í þeim góða hópi Velunnara sem styðja þétt við bakið á félaginu með mánaðarlegum framlögum. Í nóvember heimsækjum við Selfoss.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?