Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 30. jan. 2020

160 milljónir til rannsókna á þremur árum

  • Sigríður Gunnarsdóttir, formaður stjórnar Vísindasjóðsins, afhendir Lindu Karlsdóttur styrk til rannsóknar á hvort textaskilaboð (SMS) geti aukið þátttöku kvenna í skimun fyrir leghálskrabbameini.

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá árinu 2017 úthlutað 160 milljónum til 24 íslenskra rannsókna.

Sjóðurinn var stofnaður árið 2015 og markmið hans er að efla íslenskar rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga. 

Formaður sjö manna stjórnar Vísindasjóðsins er Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala. Stjórn ákvarðar styrkveitingar á grundvelli umsagna Vísindaráðs félagsins sem í sitja níu manns. Eiríkur Steingrímsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands er formaður ráðsins. 

Sjóðurinn er byggður á grunni fjárframlaga frá Krabbameinsfélaginu og aðildarfélögum, auk þess sem tvær erfðagjafir runnu inn í sjóðinn; Minningarsjóður Ingibjargar Guðjónsdóttur Johnson og sjóður Kristínar Björnsdóttur, fyrrverandi starfsmanns Sameinuðu þjóðanna. Stofnfé sjóðsins var rúmar 250 milljónir króna. 

Þær rannsóknir sem hlotið hafa styrki eru afar fjölbreyttar. Hér má sjá nokkur dæmi: 

Doktorsrannsókn á frjósemisverndun 

Suzannah A. Williams og Bríet Bjarkadóttir, doktorsnemi við Háskólann í Oxford, vinna að rannsókn sem hlaut 2,5 milljónir króna í styrk. Hún fjallar um frjósemisverndun án inngrips og áhrif krabbameinslyfja á eggbú og þróun frjósemisverndandi lyfja. Krabbameinsmeðferðir geta skert frjósemi stúlkna og kvenna með því að eyða eggbúum eggjastokkana. Markmið rannsóknarinnar er að þróa nýja greiningaraðferð til að rannsaka skaðleg áhrif krabbameinslyfja á eggbú. Á grundvelli þeirra niðurstaðna verður leitað að frjósemisverndandi efnum og kannað hvort þau geti komið í veg fyrir skemmdir á eggbúum. 

Kanna áhrif ónæmismeðferða á lifun krabbameinsfruma 

Erna Magnúsdóttir hefur hlotið styrk úr sjóðnum í þrígang, alls 21 milljón króna til að rannsaka áhrif Waldenströmsjúkdómsins, sem er ólæknandi hægfara krabbamein B-eitilfruma. Um þrjár milljónir einstaklinga eru greindir með sjúkdóminn á hverju ári. Í rannsókninni hafa verið uppgötvaðir þættir sem hafa áhrif á það hvort frumur sjúkdómsins lifi eða deyi, meðal annars í samhengi við ónæmismeðferð. 

„Stuðningur Krabbameinsfélagsins við þetta verkefni hefur skipt sköpum fyrir okkur og hjálpað okkur að afhjúpa ferla sem auka skilvirkni ónæmiskerfisins í því að drepa æxlisfrumur. Það er von okkar að þessar niðurstöður leiði til fjölbreyttari meðferðarmöguleika í sjúkdómnum,“ segir Erna. 

Áhrif skimunar á andlega heilsu 

Andri Steinþór Björnsson og Inga Wessman hafa hlotið rúmar 12,7 milljónir króna í styrki úr sjóðnum fyrir verkefnið Áhrif skimunar fyrir forstigi mergæxlis á andlega heilsu. Rannsóknin er sú fyrsta sem metur áhrif skimunar og greiningar á forstigi mergæxlis á andlega heilsu og lífsgæði á landsvísu. 

„Þessi styrkur er mjög mikilvægur fyrir okkur og mun gera okkur kleift að rannsaka áhrif skimunar og greiningar á forstigi mergæxlis á andlega heilsu,“ segir Andri. 

Er hægt að fyrirbyggja myndun meinvarpa? 

Guðrún Valdimarsdóttir hefur hlotið 19,3 milljónir króna í þremur úthlutunum úr Vísindasjóðnum fyrir rannsóknina Samspil TGFß boðleiðarinnar og Thrombospondin-1, áhrif á samskipti æðaþels- og brjóstakrabbameinsfruma. Þótt batahorfur brjóstakrabbameinssjúklinga séu góðar, þá steðjar aðal ógnin af mögulegri meinvarpamyndun. Markmið verkefnisins er að skilja í þaula samspil æðaþels og brjóstakrabbameinsfruma á sameindafræðilegum grundvelli, með tilliti til Thrombospondin-1 og hinnar margslungnu TGF-beta boðleiðar. 

„Sú þekking [sem verkefnið skapar] hefur gífurlegt gildi þegar litið er til meðferðarmöguleika með sértæku sameindalyfi fyrir brjóstakrabbameinssjúklinga til að fyrirbyggja myndun meinvarpa,“ segir Guðrún. 

Gagnvirkt ákvörðunartæki fyrir blöðruhálskirtilskrabbamein 

Birna Baldursdóttir hefur hlotið 8,7 milljónir króna í tveimur úthlutunum fyrir rannsóknina Prófun á gagnvirku ákvörðunartæki sem aðstoðar karlmenn, sem greinst hafa með staðbundið blöðruhálskirtilskrabbamein, við ákvarðanatöku um meðferðarleið. Meðferðarleiðir við staðbundnu blöðruhálskirtilskrabbameini hafa mismunandi aukaverkanir. Engin ein meðferð er talin best og getur val á meðferð því valdið streitu og vanlíðan og leitt til ákvörðunar sem ekki er nægjanlega ígrunduð. 

„Markmið okkar er að prófa gagnvirkt tæki sem veitir upplýsingar og aðstoð við þessa erfiðu ákvörðun. Styrkurinn er afar mikilvægur og gerir okkur kleift að efla upplýsingar og aðstoð við val á meðferðarleið við staðbundnu blöðruhálskirtilskrabbameini og bæta þannig líðan og lífsgæði karlmanna og fjölskyldna þeirra,“ segir Birna.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins 2020.

 


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?