Fysio Flow - hreyfistund
Gegn verkjum, streytu og stífleika.
Heiðbjört Tíbrá Kjartansdóttir sjúkraþjálfari, stýrir Fysio Flow æfingatíma sem veitir góða æfingu fyrir daginn.
Fysio Flow er æfingakerfi, þróað af dönskum sjúkraþjálfara , sem vinnur með bandvefi líkamans (fascíurnar), með það að markmiði að auka hreyfanleika og virkja slökunarkerfi líkamans. Við minnkandi virkni, miklar kyrrstöður, streitu og þegar við eldumst minnkar rennslið milli bandvefslaga. Það getur orðið erfiðara að hreyfa sig, við upplifum stirðleika og jafnvel verki. Fysio Flow snýst um að virkja rennslið milli bandvefslaga, fá hita í bandvefinn og gera hann eftirgefanlegan og hreyfanlegan. Æfingarnar eru eins konar hreyfiteygjur. Unnið er með langa hreyfiferla, rólega en taktfasta. Allir eiga að geta tekið þátt og fengið jákvæð áhrif af Fysio Flow.
Æfingarnar henta meðal annars þeim sem glíma við verki, streitu, stífleika og þeim sem hafa undirgengist aðgerðir.