© Mats Wibe Lund

Eldri starfsemi

Starfsemi 2015-2016

Skýrslan nær yfir síðasta starfsár, frá aðalfundi 23. mars 2015, til aðalfundar 14. mars 2016. Stjórnarfundir voru níu milli aðalfunda og sóttu varamenn þá til jafns við aðalmenn. Ársskýrsla í fullri lengd er á: http://www.krabb.is/reykjavik

Fræðslu- og forvarnastarfsemi

Í samstarfssamningi við Krabbameinsfélag Íslands frá því í mars 2014 er kveðið á um fræðslu- og fagráð sem skuli skipað fimm manns og tveimur til vara. Þrír aðalmenn eru tilnefndir af Krabbameinsfélagi Íslands og tveir frá Krabbameinsfélag Reykjavíkur.

Fulltrúar Krabbameinsfélags Íslands í ráðinu eru Lára G. Sigurðardóttir læknir formaður, Jónas Ragnarsson ritstjóri og Sigrún Lillie Magnúsdóttir forstöðumaður Ráðgjafarþjónustunnar. Varamaður er Laufey Tryggvadóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsskrárinnar. Fulltrúar Krabbameinsfélags Reykjavíkur eru Þórunn Sævarsdóttir hjúkrunarfræðingur og Ásgerður Sverrisdóttir læknir. Varamaður er Vala Smáradóttir fulltrúi. Framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Reykjavíkur er starfsmaður ráðsins.

Hlutverk ráðsins er að marka stefnu í fræðslumálum Krabbameinsfélagsins og leggja fram framkvæmda- og kostnaðaráætlun, þar sem gerðar eru tillögur um helstu verkefni komandi árs. Krabbameinsfélag Reykjavíkur óskaði eftir endurskoðun á samningi félaganna í febrúar 2015. Formenn félaganna hafa verið með málið í vinnslu. Samstarf félaganna í fræðslumálunum er ennþá í þróun og funduðu formenna Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur m.a. á árinu um efni og framkvæmd samstarfssamningsins og áttu fund með fræðslustjóra Krabbameinsfélag Íslands og framkvæmdastjóra Krabbameinsfélags Reykjavíkur til þess að fara yfir inntak hans og verklag samstarfsins.

Útgáfumál

Fræðsluritið „Krabbamein í blöðruhálskirtli“ var endurgert. Fræðsluspjaldið „Skilaboð til karla“ var endurprentað.Leiðbeiningar fyrir karla sem eru nýgreindir með krabbamein í blöðruhálskirtli er breskt yfirgripsmikið efni sem var þýtt og staðfært. Efnið, sem verður á vefnum, er í lokayfirlestri hjá þvagfærasérfræðingum á Landspítalanum. Stuðningshóparnir Frískir menn og Góðir hálsar standa að útgáfu efnisins með aðstoð félagsins. Styrkur úr Velunnarasjóði Krabbameinsfélagsins fékkst til verkefnisins.

Búið er að prenta og byrjað að dreifa þriðja árið í röð afmæliskortunum til fimmtugra, „Gefðu þér góða afmælisgjöf“, þar sem hvatt er til ristilskimunar. 

Fræðslumyndir

Vinna er hafin við gerð fræðslumyndar um skaðsemi reykinga. Í viðræðum félagsins og Embættis landlæknis var spurt hvort félagið gæti tekið að sér að að láta gera fræðslumynd þar sem skaðsemi reykinga í tengslum við fleiri sjúkdóma en krabbamein kæmi fram. Hugmyndin er að gera fræðslumynd um skaðsemi reykinga í heild og gera hana þannig að hægt sé að búta hana niður og nýta í auglýsingar, þar sem einstaklingar lýsa því hvaða skaðlegu afleiðingar reykingar hafa/höfðu á viðkomandi. Krabbameinsfélag Reykjavíkur óskaði eftir samstarfi við fleiri aðila sem barist hafa gegn reykingum og það varð úr að Samtök lungnasjúklinga, Hjartavernd, Hjartaheill og Astma- og ofnæmisfélag Íslands eru samstarfsaðilar okkar við gerð myndarinnar. Þessir hópar hafa greiðan aðgang að fagfólki og „sjúklingum“. Páll Kristinn Pálsson kvikmyndagerðarmaður gerir myndina með okkur og samstarfsaðilarnir tilnefndu Karl Andersen hjartalækni sem faglegan ráðgjafa en fleiri sérfræðilæknar og heilbrigðisstarfsfólk koma að vinnunni. Veglegur styrkur fékkst frá Lýðheilsusjóði og verið er að vinna að því að fá fleiri styrki til að standa straum af kostnaði. 

Tóbaksvarnir

Krabbameinsfélag Reykjavíkur hefur haldið reglulega reykleysisnámskeið þar sem þátttakendur hittast átta sinnum á þriggja mánaða tímabili. Að námskeiði loknu er þátttakendum fylgt eftir í eitt ár. Á starfsárinu var aðeins eitt námskeið með 13 þátttakendum. Því miður tókst ekki að fylla haustnámskeiðið. Leiðbeinandi er Ingibjörg K. Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur sem veitir einnig einstaklingsráðgjöf. Ingibjörg svarar fyrirspurnum um tóbaksvarnir sem koma gegnum vefinn og í síma. Einnig hefur hún svarað fyrirspurnum frá foreldrum og gefið ábendingar og veitt ráðgjöf um það hvernig takast á á við tóbaksnotkun barna og unglinga. Ingibjörg var með ráðgefandi erindi hjá Gámaþjónustunni. Nokkur fyrirtæki hafa fengið símaráðgjöf. Ingibjörg fór í tvö útvarpsviðtöl um áramótin og ræddi um aðstoð til reykleysis.

Félagið hefur boðið aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins að aðstoða þau ef þau vilja standa fyrir reykleysisnámskeiðum á sínum félagasvæðum. Mikilvægt er að efla meðferð til reykleysis þar sem reykingar eru stærsti áhættuþáttur krabbameins. Félagið fékk styrk úr Lýðheilsusjóði til að vinna sérstaklega að því að ná til hópa sem af ýmsum félags- og menningarlegum ástæðum hefur gengið illa að ná til með tóbaksvarnir og reykleysisupplýsingar. Í haust var skipaður ráðgjafarhópur til að vinna að verkefninu sem við nefnum „Líf án tóbaks“. Hópinn skipa Jón Steinar Jónsson heilsugæslulæknir, Rósa Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur, Karitas Ívarsdóttir ljósmóðir, Þóra Magnea Magnúsdóttir kennari og sérfræðingur í fræðslumálum, Ingibjörg K. Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur og starfsmaður félagsins, auk Árna formanns félagsins og Guðlaugar framkvæmdastjóra. Ráðgjafarhópurinn hefur fundað reglulega og ákvað að einbeita sér til að byrja með að ófrískum konum sem reykja. Verið er að ganga frá framkvæmdaáætlun verksins.

Ingibjörg hefur tekið að sér að svara árlegum spurningalista frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) um ýmislegt er snýr að tóbaksvörnum á Ísland.

Norrænn fundur félagasamtaka í tóbaksvörnum var haldinn í Helsinki í september sl. sem Guðlaug sótti. Fyrst og fremst voru þetta fulltrúar frá krabbameinsfélögunum. Farið var yfir stöðu mála í hverju landi fyrir sig. Mikill vilji kom fram til áframhaldandi samráðs.

Árni formaður, Ásgerður varaformaður og Guðlaug framkvæmdastjóri voru meðhöfundar að grein sem birtist í Fréttablaðinu um rafrettur ásamt 14 öðrum einstaklingum þar sem varað var við almennri notkun rafretta. Mikil umræða hefur verið að undanförnu um rafrettur.

Að undirlagi Krabbameinsfélags Reykjavíkur var bréf sent í febrúar til heilbrigðisráðherra þar sem óskað er eftir upplýsingum um stöðu stefnumótunar í tóbaksvörnum og innleiðingu Evróputilskipana á sviði tóbaksvarna. Forstjóri Krabbameinsfélagsins og formaður Læknafélag Íslands skrifuðu undir bréfið. Félögin telja að tafarlaust þurfi að undirbúa markvissar aðgerðir til að stemma enn betur stigu við allri tóbaksnotkun, meðal annars með því að frekari takmarkanir verði settar í lög til að vernda börn og ungmenni. Setja þarf ákvæði vegna rafrettna og ákveða hvort fella eigi þær undir tóbaksvarnarlögin.

Læknafélag Íslands, Embætti landlæknis og Krabbameinsfélagið eru að undirbúa málþing sem væntanlega verður í haust um tóbaksvarnir. Við undirbúning þess viljum við gjarna taka mið af stefnumótun hins opinbera í tóbaksvörnum.Guðlaug situr í fagráði landlæknis um tóbaksvarnir og er varamaður í stjórn Lýðheilsusjóðs.

Hættan er ljós og samnorrænt átak

Tólf ár eru síðan átaksverkefnið „Hættan er ljós“ hófst en það er samstarfsverkefni Geislavarna ríkisins, Embættis landlæknis, húðlækna og Krabbameinsfélagsins. Stefna hópsins er að stuðla að skynsamlegri hegðun landsmanna í sól og að draga enn frekar úr almennri notkun ljósabekkja.

Árlega er gerð könnun átakshópsins á ljósabekkjanotkun landsmanna og haldið er áfram að fræða um afleiðingar óhóflegra sólbaða. Niðurstöður síðustu könnunar staðfesta minnkandi notkun ljósabekkja hér á landi og að fáir undir 18 ára aldri noti ljósabekki. Um 11% fullorðinna (eldri en 18 ára) notuðu ljósabekki síðustu tólf mánuðina áður en könnunin var gerð, en þessi tala var um 30% árið 2004 þegar átakið hófst. Í könnuninni var ennfremur spurt hvort viðkomandi hefði brunnið af völdum sólar eða ljósabekkja á síðastliðnum tólf mánuðum. Með bruna er átt við að roði myndist á húð ásamt því að sviði sé til staðar. Um 75% þeirra sem svöruðu höfðu ekki brunnið, sem er nokkuð há tala í samanburði við tölur í erlendum rannsóknum.

Í tilefni af alþjóðlegum árveknimánuði um sortuæxli í maí sl. tókum við þátt með Krabbameinsfélagi Íslands að skipuleggja greinaskrif og viðtöl í fjölmiðlum um sólarvarnir. Verið er að kanna möguleika á blettadegi í samstarfi við húðlækna í vor.

Guðlaug er fulltrúi Krabbameinsfélagsins í norrænu samstarfi um varnir gegn húðkrabbameini. Norræna samstarfið felst í því að fá ferðaþjónustuna, ferðaskrifstofur, flugfélög og fleiri, í samvinnu um að bæta upplýsingar um öryggi í sólinni og hvernig skynsamlegt er að njóta sólarinnar á sem öruggastan hátt. Einnig hefur hópurinn með sér samstarf um fleira er viðkemur sólarvörnum. 

Bleiki mánuðurinn

Í bleika mánuðinum, í október 2015, var aðstoðað við yfirlestur gagna og setnir samráðsfundir. Guðlaug tók þátt í undirbúningi örráðstefnu um ristilkrabbamein sem Ráðgjafarþjónustan boðaði til.

Krabbameinsfélag Reykjavíkur, Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar, Brjóstaheill – Samhjálp kvenna og Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins stóðu fyrir málþingi um erfðir og brjóstakrabbamein í október undir yfirskriftinni „Viltu vita“. Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar flutti erindi um erfðir krabbameins, Þórdís Jónsdóttir nemi í lýðheilsuvísindum kynnti viðhorfskönnun um erfðaráðgjöf og erfðapróf, Heiðdís B. Valdimarsdóttir prófessor talaði um áhrif prófunar fyrir BRCA-stökkbreytingu á vanlíðan og ákvarðanir um forvarnir og Óskar Þór Jóhannsson krabbameinslæknir kynnti þjónusta Landspítalans við fólk með BRCA-stökkbreytingu. Thelma Hólm Másdóttir var með reynslusögu. Fundarstjóri var Laufey Tryggvadóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsskrárinnar. 

Mottumars

Framkvæmdastjóri hefur setið samráðs- og undirbúningsfundi og aðstoðað með yfirlestur á greinum og við að útbúa ýmiss konar fræðslu- og upplýsingagögn. Áherslan í mánuðinum í mars 2016 er á krabbamein í blöðruhálskirtli. „Björgunarbox“ Krabbameinsfélagsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) var afhent áhöfnum skipa og félagasamtökum svo sem Kiwanis, Lions, Rótarý og Oddfellow en í þessum félögum eru einkum karlmenn. Í boxinu eru Skilaboð til karla, fræðslurit um krabbamein í blöðruhálskirtli og fleira. Skip útgerða innan Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi fengu þar að auki í boxin sín tóbaksvarnabæklinginn „Hættu fyrir lífið“. 

Nemendur og skólar

Starfsfólk félagsins aðstoðar nemendur, kennara framhaldsskóla og háskóla og fleiri við heimildaöflun vegna ýmissa skrifa, rannsókna og kennslu sem tengist krabbameini og forvörnum.

SAFF, samstarf félagasamtaka í forvörnum

SSamstarf félagasamtaka í forvörnum, SAFF, hafa umsjón með ýmsum verkefnum í forvörnum. Um 25 samtök standa að SAFF. Guðlaug er fulltrúi Krabbameinsfélagsins í stjórn ráðsins.

Krabbameinsfélag Reykjavíkur er þátttakandi í „Viku 43“ sem er vettvangur félagasamtaka sem vilja leggja forvörnum lið og/eða hafa forvarnir að markmiði starfs síns, til þess að vekja athygli á forvarnastarfi og áfengis- og vímuefnamálum. Í „Viku 43“ var að þessu sinni áhersla á mikilvægi þess að skapa börnum og ungmennum góðar forsendur til mótunar jákvæðrar sjálfsmyndar undir yfirskriftinni „Hvernig líkar barninu þínu við sig?“ Fulltrúar stjórnar SAFF fóru á fund félagsmálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, og afhentu henni yfirlýsingu Viku 43 í innrömmuðu skjali.

Félagið er einnig þátttakandi í átakinu „Verum vakandi“ sem er vakningarátak sömu aðila og standa að Viku 43 og snýr að skaðsemi kannabis undir yfirskriftinni „Bara gras?“. Markmið átaksins er að fræða foreldra um kannabis, einkenni, skaðsemi og forvarnir, svo og að gera foreldra og heimili virk í forvörnum með því að leggja þeim til þekkingu, traustar upplýsingar og möguleg úrræði. Einnig að virkja samfélagið í átaki gegn kannabisneyslu og þeim rangfærslum um áhrif kannabisefna sem nú er dreift til ungmenna með aðstoð netsins.

SAFF endurtók fyrra árs áskorun til alþingismanna þar sem það mótmælti frumvarpi um að fella úr gildi einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og gefa smásölu áfengis frjálsa upp að ákveðnu marki. Unnið var áfram að greinaskrifum í fjölmiðlum og umræðu á samfélagsmiðlum. Stjórn samstarfsráðsins hefur fundað oft á starfsárinu og fundað með stjórn Fræðslu og forvarna og einstaka félagasamtökum í samstarfsráðinu. 

Vefsíðumál og samfélagsmiðlar

Ný vefsíða Krabbameinsfélagsins var opnuð 4. febrúar, á alþjóðlega krabbameinsdeginum. Krabbameinsfélag Reykjavíkur styrkti gerð hennar með 1.900.000 kr. því það vildi vinna að því að fræðslumál Krabbameinsfélagsins yrðu aðgengilegri og meiri. Mikill tími hefur farið í yfirlestur á gögnum fyrir nýju síðuna. Fésbókarsíða Krabbameinsfélag Reykjavíkur er notuð til koma á framfæri því sem félagið stendur fyrir og til að styrkja stöðu þess.

Stuðningur við sjúklinga

Tveir stuðningshópar sem eru ekki formlegir aðilar að Krabbameinsfélagi Íslands starfa undir verndarvæng Krabbameinsfélags Reykjavíkur. Annars vegar eru það Góðir hálsar , stuðningshópur um krabbamein í blöðruhálskirtli, og hins vegar Stuðningshópur kvenna með krabbamein  í kvenlíffærum. Hvor hópur um sig hittist reglulega á rabbfundum og fræðslufundum, karlahópurinn fyrsta miðvikudag í mánuði allt árið og kvennahópurinn síðasta miðvikudag í hverjum mánuði á veturna.Hóparnir hafa undanfarin ár haldið sameiginlegan aðventufund þar sem rithöfundar hafa komið og lesið úr bókum sínum og boðið er upp á tónlistar- og skemmtiatriði.

Góðir hálsar tóku þátt í verkefninu „Karlarnir og kúlurnar“ þar sem hópur karla fékk tækifæri til að æfa golfsveifluna og fræðast gildi jafningjastuðnings. Verkefnið var unnið í samvinnu við Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins, Fríska menn og Kraft. 

Félagar í Góðum hálsum hafa verið öflugir við að veita stuðning við nýgreinda þegar eftir því hefur verið leitað. 

Stuðningshópi kvenna með krabbamein í eggjastokkum var breytt á starfsárinu þannig að fleiri krabbamein tengd kvenlíffærum falli undir einn og sama stuðningshópinn. Kvensjúkdóma-, krabbameins- og heimilislæknar fengu bréf þar sem þessi breyting var kynnt og þeir hvattir til að benda sínum skjólstæðingum á hópinn. Báðir hóparnir hafa tekið þátt í samstarfsfundum stuðningshópanna sem Ráðgjafarþjónustan boðar til.

Krabbameinsfélag Reykjavíkur, Ristilfélagið og Stómastamtökin héldu áfram að senda út afmæliskortið „Gefðu þér góða afmælisgjöf“, til þeirra sem urðu fimmtugir á árinu, með skilaboðum um mikilvægi þess að gefa sjálfum sér þá gjöf að fara í ristilskoðun. Tilgangurinn er að vekja athygli á ristilkrabbameini og hvetja fólk til að vera vakandi fyrir einkennum og hvetja stjórnvöld til að sem fyrst verði hafin skipuleg leit að sjúkdómnum. Ákveðið var að halda þessu verkefni áfram þetta árið þar sem bæði Ráðgjafarþjónustan og læknar staðfestu að útsending kortanna skilaði árangri, t.d. með auknum fyrirspurnum. Í febrúar sl. fór fyrsta sending þessa árs í dreifingu. Roche-lyfjafyrirtækið, sem er hluti af Icepharma, hefur styrkt gerð og útsendingu afmæliskortanna. Á næsta ári er svo stefnt að skipulegri leit að krabbamein í ristli.

Félagið er í góðu samstarfi við stuðningshópa Krabba-meinsfélagsins og aðstoðar þá eftir þörfum, t.d. við gerð fræðsluefnis, árskýrslna, yfirlestur, við skipulag funda og fleira.

Styrkveitingar

Styrkveitingar félagsins á reikningsárinu voru ellefu, að fjárhæð rúmar 670.000 krónur. Heilbrigðisstarfsfólk fékk styrki vegna sérnáms, fræðsluferða og ráðstefna. Til stendur að endurskoða úthlutunarreglur styrktarsjóðsins. 

Happdrættið

Happdrætti Krabbameinsfélagsins er enn sem fyrr helsta tekjulind Krabbameinsfélags Reykjavíkur og hefur í meira en sextíu ár gert félaginu kleift að sinna fræðslustarfinu. Það má segja að fræðsla um krabbamein og krabbameinsvarnir byggist að miklu leyti á happdrættisfé og að happdrættið eigi sinn þátt í þeim mikla árangri sem náðst hefur í tóbaksvörnum síðustu áratugi.

Á síðasta ári var ákveðið var að hækka verð hvers miða úr 1.250 kr. í 1.500 kr. en miklar kostnaðarhækkanir hafa orðið og sérstaklega varðandi póstkostnað. Heildarsala happdrættismiða í sumarhappdrættinu varð aðeins betri en árið áður en sölutölur í jólahappdrætti nokkru lakari. Vinningsbíll var í sumarhappdrættin í Smáralind og þar fór fram sala á lausasölumiðum. Því miður fengum við ekki aðstöðu fyrir bíl og sölufólk í jólahappdrættinu. Kynning og auglýsingar voru á Facebook. Sala miða í netverslun Krabbameinsfélagsins gengur vel. Sala happdrættismiða til fyrirtækja fór fram hjá Markaðsráði.

Í samstarfssamningi Krabbameinsfélags Reykjavíkur og Krabbameinsfélags Íslands er ákvæði um stjórn happdrættis Krabbameinsfélagsins. Í stjórn happdrættisins eru tveir fulltrúar hvors félags þar af báðir gjaldkerar þeirra. Hlutverk stjórnar happdrættisins er að ákvarða hvernig skipting allra tekna happdrættisins verði. Jafnframt að hafa eftirlit með rekstri og reikningsskilum happdrættisins. Stjórn happdrættisins fundaði einu sinni á starfsárinu með formönnum félaganna þar sem bæði staða samningsins og happdrættið var rætt. 

Fjármál

Afkoma félagsins á reikningsárinu var neikvæð um rúma hálfa milljón króna. Reiknaðar lífeyrissjóðsskuldbindingar félagsins eru rúmar 56,7 milljónir króna og hækkuðu um tæpar 6,9 milljónir króna milli ára. Ekki liggur fyrir niðurstaða í viðræðum fjármálaráðuneytis og Krabbameinsfélags Íslands um lífeyrisskuldbindingar Krabbameinsfélagsins í heild.

Kostnaður við fræðslustarfsemi félagsins var rúmar 18 milljónir króna. Þar að auki voru tíu milljónir króna lagðar í nýstofnaðan Vísindasjóð Krabbameinsfélagsins. Árið 2015 skilaði happdrættið félaginu um 25,1 milljónum króna í tekjur, þar af eru fjórar milljónir króna sem eru afskrifaðir ósóttir vinningar, en tekjurnar voru árið áður rúmar 18,3 milljónir króna. Þessar upphæðir eru fyrir utan lífeyrisskuldbindingar og greiddan lífeyri.

Á starfsárinu fékk félagið óvenju mikla styrki og framlög, tæpar ellefu milljónir króna. Þar munar mest um samtals níu milljónir króna úr Lýðheilsusjóði. Aðrir tekjuliðir, eru félagsgjöld og merkjasala, auk vaxtatekna. Merkjasalan var fyrstu helgina í september. Seldir voru pennar og innkaupapokar með merki Krabbameinsfélagsins. 

Samstarf við ýmsa aðila

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands var haldinn 9. maí 2015. Hefðbundin aðalfundarstörf voru fyrir hádegi en eftir hádegi var fjallað um gildi vísindarannsókna, nýr fyrirhugaður vísindasjóður Krabbameinsfélagsins var kynntur og sagt frá undirbúningi skipulegrar leitar að ristilkrabbameini.

Formannafundur Krabbameinsfélaganna var haldinn í október 2015 í Reykjavík. Þetta var ákveðið með stuttum fyrirvara. Árni formaður var fundarstjóri en auk hans mættu fyrir hönd okkar Ásgerður varaformaður og Gunnar Már gjaldkeri. Á fundinum var m.a. rætt um nýja krabbameinsáætlun, skýrsla um leit að ristilkrabbameini var kynnt, áherslur í fræðslustarfi Krabbameinsfélagsins og nýjungar hjá Ráðgjafarþjónustunni. Eftir hádegi voru umræðuhópar um þjónustu við sjúklinga og aðstandendur og hvernig bæta megi miðlun fræðsluefnis til aðildarfélaga.

Gjaldkeri okkar félags, Gunnar Már Hauksson, er fulltrúi í fjáröflunarráði Krabbameinsfélagsins. Það á að hafa það hlutverk að efla, samhæfa og hafa yfirumsjón með fjáröflun Krabbameinsfélags Íslands, svæðafélaga þess og stuðningshópa, en hefur ekki komið saman í langan tíma.

Vegna formennsku Krabbameinsfélags Íslands í Nordic Cancer Union (NCU) frá áramótum 2015 var óskað eftir því við Krabbameinsfélag Reykjavíkur að það legði frá maí til ársloka til 15% stöðugildi til að aðstoða við það verkefni. Var þetta samþykkt og Guðlaug tók að sér að aðstoða Ragnheiði Haraldsdóttur formann NCU, við ýmis skipulagsverkefni.

Krabbameinsfélag Reykjavíkur hefur átt gott samstarf við Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins, hefur aðstoðað við afleysingar í sumarfríi starfsmanna, við útgáfumál, málþing og ráðstefnur sem Ráðgjafarþjónustan stendur fyrir, og mun áfram styðja starfsemina eftir bestu getu.

Húsnefnd hefur verið starfandi mörg undanfarin ár og er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Reykjavíkur í nefndinni ásamt Jónasi Ragnarssyni ritstjóra, Sigríði Þorsteinsdóttur hjúkrunarframkvæmdastjóra á Leitarstöðinni og Helga Björnssyni nýráðnum fjármálastjóra Krabbameinsfélags Íslands. Einnig situr Oddur Eggertsson húsvörður fundi nefndarinnar.

Lokaúttekt á framkvæmdum við endurbætur á klæðningu og gluggum húss Krabbameinsfélagsins var í október sl. Einnig voru gerðar breytingar á aðkomu að húsinu og lóð. Félagið var mjög heppið með verktaka, Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar (VHE), og eftirlitsaðila verksins, Verkfræðistofuna Eflu. Samráðsfundir með fulltrúum húseigenda voru reglulega haldnir á framkvæmdatíma. Framkvæmdirnar skiluðu sér til baka í hækkuðu verðmati hússins.

Mörg verkefni félaganna eru unnin í samvinnu Jónasar Ragnarssonar og okkar. Gott samstarf er við starfsfólk Leitarstöðvarinnar og félagið aðstoðar við yfirlestur á ýmsum gögnum Leitarstöðvarinnar. Öðrum sviðum Krabba-meinsfélags Íslands er líka veitt aðstoð við yfirlestur gagna og með þátttöku í skipulagningu ýmissa verkefna. Einnig hefur Guðlaug aðstoðað við útgáfu ársskýrslu Krabbameinsfélagsins. Óskað var eftir yfirlestri Jónasar og Guðlaugar á krabbameinsáætluninni.

„Heilsuhlaup Krabbameinsfélagsins“ var haldið í júní sl. og var Guðlaug í undirbúningshópi hlaupsins.

Félagið hefur átt gott samstarf við aðildarfélög og stuðningshópa Krabbameinsfélagsins, Morgunblaðið, Icepharma, Smáralind, starfsmenn Fræðslu og forvarna (FRÆ) og fleiri. Einnig má minnast á afar gott samstarf við starfsfólk Arion banka og Advania varðandi happdrættið og fleira.

Lokaorð

Krabbameinsfélag Reykjavíkur varð 67 ára þann 8. mars sl. Það var stofnað árið 1949 af framsýnum áhugamönnum. Þar má nefna Alfreð Gíslason lækni, Gísla Sigurbjörnsson forstjóra og Niels Dungal prófessor sem varð fyrsti formaður félagsins. Starfsemi félagsins varð strax í byrjun fjölbreytt en áhersla var lögð á fræðslustarf því mikilvægt þótti að auka þekkingu manna á sjúkdómnum. Tilgangur félagsins hefur frá upphafi verið hinn sami: Að styðja í hvívetna baráttuna gegn krabbameini. Í lögunum er skilgreint hvernig ná skuli þessum tilgangi:

  • Að fræða almenning um krabbamein og krabbameinsvarnir
  • Að stuðla að aukinni menntun heilbrigðisstétta í greiningu, fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferð krabbameins
  • Að veita krabbameinssjúklingum stuðning
  • Að stuðla að krabbameinsrannsóknum hér á landi.

Krabbameinsfélagi Reykjavíkur var falið árið 1963 að annast stóran hluta fræðslustarfsemi krabbameinssamtakanna og árið 1976 hóf félagið víðtækt fræðslustarf um skaðsemi reykinga. Tóbaksforvarnir hafa verið eitt stærsta baráttumál félagsins og undir forystu Þorvarðar Örnólfssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins náðist mikill árangur. Fram til ársins 2004 sinnti félagið tóbaksvarnafræðslu í skólum landsins en þá fluttust tóbaksvarnir til Lýðheilsustöðvar, nú Embættis landlæknis. Krabbameinsfélag Reykjavíkur hefur þó haldið áfram að hjálpa fólki að hætta að reykja og hefur haldið á þriðja hundrað námskeið bæði fyrir almenning og fyrirtæki á öllu landinu.

Með verkefninu okkar „Líf án tóbaks“ vonumst við til að geta hjálpað fleiri einstaklingum við að hætta að nota tóbak. Markmið verkefnisins er að ná til hópa sem af ýmsum félags- og menningarlegum ástæðum hefur gengið lakar að ná til með tóbaksvarnir og reykleysisupplýsingar en annarra og draga úr tíðni reykinga og annarrar tóbaksnotkunar í þeirra röðum, fjölga þeim sem takast á við tóbaksfíkn sína og hækka hlutfall þeirra sem ná að halda tóbaksleysi sínu (reykingum, munn-tóbaksnotkun) til frambúðar. Í starfi ráðgjafarhóps verkefnisins hefur greinilega komið fram mikilvægi þess að stofnuð verði reykleysis/tóbaksleysismiðstöð með sérhæfðu starfsfólki til að vinna með einstaklingum og hópum sem þarf að nálgast á mismunandi hátt.

Félagið er orðið óþreyjufullt að bíða eftir stefnumótun hins opinbera í tóbaksvörnum og hefur áhyggjur af því að Ísland sé að verða eftirbátur annarra vestrænna ríkja í tóbaksvörnum þar sem við vorum lengi vel með góða forystu.

Í tilefni af sextíu ára afmæli félagsins, árið 2009, og fram til dagsins í dag hefur félagið lagt áherslu á að fræða almenning um ristilkrabbamein. Yfirskrift átaksins á sextíu ára afmælisárinu var "Forvörn er fyrirhyggja". Settur var á laggirnar átakshópur, haldin hafa verið málþing og ráðstefnur, og fræðslumynd gerð, Ristilfélagið var stofnað, ályktanir og áskoranir lagðar fram og afmæliskort til fimmtugra send út til að minna á mikilvægi ristilkrabbameinsleitar. Nú hyllir undir að sú leit sé að verða að veruleika. Undirritað var í febrúar samkomulag milli heilbrigðisráðuneytis og Krabbameinsfélags Íslands um undirbúning skimunar fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi hjá aldurshópnum 60-69 ára og stefnt að því að hefja skimun í ársbyrjun 2017. Gríðarmikil undirbúningsvinna fór fram hjá Krabbameinsfélagi Íslands á síðasta ári til að vinna að þessu.

Krabbameinsfélag Íslands og aðildarfélög þess hafa stofnað vísindasjóð sem mun styrkja krabbameinsrannsóknir hér á landi. Stofnfé sjóðsins er 254 milljónir króna og getur stjórn sjóðsins ráðstafað allt að 10% af höfuðstól hans á hverju ári í rannsóknastyrki, auk tekna sjóðsins á liðnu starfsári. Þess er vænst að sjóðurinn muni hleypa nýju lífi í krabbameins-rannsóknir hér á landi og því lagði Krabbameinsfélag Reykjavíkur fram myndarlegt framlag í hann eða tíu milljónir króna.

Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem hefur ekki ennþá heildstæða krabbameinsáætlun. Vinna við hana hefur verið lengi í vinnslu á vegum heilbrigðisráðuneytis og það er ekki laust við að nokkurrar óþreyju gæti hjá Krabbameinsfélaginu eftir henni.

Félögum fer fækkandi í Krabbameinsfélagi Reykjavíkur og það er stórt áhyggjuefni hversu fáir velunnarar Krabbameinsfélags Íslands gerast félagar í aðildarfélögum. Félagið mun leggja áherslu á að umræða um þessa þróun verði tekin upp sem allra fyrst. 

Lög Krabbameinsfélags Reykjavíkur

Samþykkt á aðalfundi félagsins 17. febrúar 1973 með breytingum samþ. á aðalfundum 8. mars 1979 24. mars 1997, 29. mars 1999 og 17. mars 2014.

1. gr. Félagið heitir Krabbameinsfélag Reykjavíkur. Það er aðili að Krabbameinsfélagi Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. 

2. gr. Tilgangur félagsins er að styðja í hvívetna baráttuna gegn krabbameini. Þessum tilgangi hyggst félagið einkum ná með því:Að fræða almenning um krabbamein og krabbameinsvarnir.Að stuðla að aukinni menntun heilbrigðisstétta í greiningu, fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferð krabbameins.Að veita krabbameinssjúklingum stuðning.Að stuðla að krabbameinsrannsóknum hér á landi.

3. gr. Félagi getur hver sá einstaklingur verið sem aðhyllist tilgang félagsins og greiðir því tilskilin gjöld. Félög eða stofnanir geta verið styrktarmeðlimir gegn árlegu gjaldi. Árgjöld og ævifélagagjald skulu ákveðin á aðalfundi. 

4. gr. Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Hann skal halda fyrir marslok ár hvert. Skal hann boðaður með að minnsta kosti viku fyrirvara. Tilkynna skal dagskrá í fundarboði. Fundurinn er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

5. gr. Á aðalfundi skulu jafnan tekin fyrir þessi mál: Skýrsla félagsstjórnar fyrir síðastliðið starfsár. Endurskoðaðir reikningar fyrir síðastliðið reikningsár lagðir fram til samþykktar. Ákveðin árgjöld og ævifélagagjald. Kosin stjórn, varastjórn og endurskoðendur. Kosnir fulltrúar á aðalfund Krabbameinsfélags Íslands.

6. gr. Stjórn félagsins er skipuð sjö mönnum. Skal að minnsta kosti einn þeirra vera læknir. Formaður skal kjörinn sérstaklega til tveggja ára í senn. Árlega skulu kosnir þrír meðstjórnendur til tveggja ára og þrír varamenn til eins árs. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Aðalfundur skal kjósa, til eins árs í senn, löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunar-félag til þess að annast endurskoðun á ársreikningi félagsins. 

7. gr. Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra til að stjórna daglegum rekstri félagsins og framkvæma ályktanir stjórnarinnar. Honum til fulltingis starfar framkvæmdanefnd, skipuð formanni félagsins, gjaldkera og þriðja stjórnarmanni sem kjörinn skal á fyrsta stjórnarfundi að loknum aðalfundi. Stjórnin skipar nefndir til starfa fyrir félagið eins og þurfa þykir.

8. gr. Stjórnarfundi skal halda að jafnaði mánaðarlega. Skylt er að boða stjórnarfund ef þrír stjórnarmenn óska þess. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef minnst fjórir stjórnarmenn eða varamenn þeirra sækja fundinn.

9. gr. Almenna félagsfundi skal halda þegar stjórn félagsins telur ástæðu til eða minnst einn fimmti hluti félagsmanna óskar þess. Skal boða til þeirra með sama hætti og til aðalfundar.

10. gr. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

11. gr. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Til þess þarf tvo þriðju greiddra atkvæða. Skal þess getið í fundarboði ef tillögur til lagabreytinga verða lagðar fram á fundinum. Aldrei má breyta lögunum þannig að raskað sé megintilgangi félagsins, sbr. 2. gr.

12. gr. Til þess að leggja félagið niður þarf samþykki þriggja fjórðu fundarmanna á aðalfundi, enda hafi áforms um félagsslit verið getið sérstaklega í fundarboði. Verði félagið lagt niður skulu eignir þess renna til Krabbameinsfélags Íslands. Því ákvæði má aldrei breyta.


Guðlaug B. Guðjónsdóttir og Árni Einarsson.


Var efnið hjálplegt?