Stuðningsnetið

Það getur verið hjálplegt að ræða við einhvern sem hefur gengið í gegnum svipaða reynslu og þú ert að ganga í gegnum, einhvern sem hefur þann skilning sem einungis fæst með því að upplifa hlutina sjálfur. 

Krabbameinsfélagið og Kraftur bjóða upp á jafningjastuðning fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein og  fyrir aðstandendur. Þeir sem veita stuðninginn eru einstaklingar sem greinst hafa með krabbamein eða eru aðstandendur. Þeir hafa allir lokið stuðningsfulltrúanámskeiði hjá sálfræðingi Krabbameinsfélagsins.

Ef þú hefur áhuga á að ræða við stuðningsfulltrúa getur þú haft samband í síma 800 4040 alla virka daga frá kl. 9:00 til 16:00 eða sent tölvupóst á radgjof@krabb.is. Einnig er hægt að senda inn beiðni með því að smella á hlekkinn hér að neðan. Sækja um jafningjastuðning

Stuðningurinn getur farið fram í síma, í tölvupósti eða þið getið mælt ykkur mót. Einnig er hægt að óska eftir því að fá að ræða við einhvern sem er á svipuðum aldri, af sama kyni, og/eða hefur greinst með sömu tegund krabbameins. Reynt er að verða við óskum þínum ef hægt er.

Öll samtöl eru trúnaðarmál.

Viltu gerast stuðningsfulltrúi?

Til að gerast stuðningsfulltrúi þurfa að minnsta kosti tvö ár að vera liðin frá því að krabbameinsmeðferð lauk. Fyrir aðstandendur er einnig æskilegt að tvö ár séu liðin frá því að meðferð aðstandanda lauk. Einnig er nauðsynlegt að verðandi stuðningsfulltrúar séu að mestu búinir að vinna úr þeim tilfinningum sem krabbameinið hafði í för með sér svo þeir eigi auðveldara með að styðja aðra. Það er kostur að vera hlýleg(ur), næm(ur) á líðan annarra, einlæg(ur), sveigjanleg(ur), dæmir ekki og eiga auðvelt með að hlusta á aðra.

Hafir þú áhuga á að gerast stuðningsfulltrúi getur þú sótt um með því að smella á hlekkinn hér að neðan.

Umsókn um að gerast stuðningsfulltrúi

Eftir að þú hefur fyllt út umsóknina og sent hana inn, mun Þorri, sálfræðingur hafa samband við þig. Í framhaldi mun hann boða þig í viðtal þar sem þið farið yfir umsóknina og reynslu þína af krabbameini.

Ef niðurstaða ykkar beggja er sú að þú sért tilbúin(n) til að gerast stuðningsfulltrúi þá er næsta skref að sitja stuðningsfulltrúnámskeið á vegum Krafts og Ráðgjafarþjónustunnar. Námskeiðið tekur tvö kvöld. Þegar því er lokið getur þú hafið sjálfboðastarf sem stuðningsfulltrúi.

Öllum stuðningsfulltrúum býðst einstaklingshandleiðsla frá sálfræðingi Krabbameinsfélagsins.

Stuðningsfulltrúar sækja fræðslufund/hóphandleiðslu tvisvar á ári.

Hér að neðan má sjá myndbönd með reynslusögum.

https://www.youtube.com/playlist?list=PLA0011C2F28D7B78A


Var efnið hjálplegt?