• Hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins starfa sálfræðingur, félagsráðgjafi og hjúkrunarfræðingar.

Krabba­mein og vinnu­staðir

Árlega greinast að meðaltali um 924 manns á vinnualdri með krabbamein. 

KRA_FRAEDSLA0221_Thegar-vinnufelagi-greinist-med-krabbamein-mynd

Krabbameinsfélagið býður fólki sem greinist og mökum þeirra hagnýta ráðgjöf um stöðu á vinnumarkaði, réttindi og bætur. Málið þarf að skoða á einstaklingsgrundvelli. Hægt er að hafa samband við Ráðgjafarþjónustuna í síma 800 4040 og á radgjof@krabb.is.

Einnig býður félagið vinnuveitendum og samstarfsmönnum upplýsingar og ráðgjöf um hvernig hægt er að styðja við veikan starfsmann við greiningu, í meðferð, að meðferð lokinni og þegar snúið er aftur til vinnu. Hægt er að hafa samband á alla virka daga frá kl. 9:00-16:00 í síma 800 4040 eða senda fyrirspurn á radgjof@krabb.is .

Áhrif þess að greinast með krabbamein

Að greinast með krabbamein hefur víðtæk áhrif á fólk, m.a. andleg, líkamleg og fjárhagsleg. Áhrifin eru þó misjöfn hjá hverjum einstaklingi fyrir sig og ráðast af ýmsum þáttum svo sem tegund krabbameins, á hvaða stigi það er, meðferðinni sem viðkomandi fer í, kyni, aldri, persónuleika, hvernig fjölskylduhagir hans eru o.fl.

Mörgum finnst sem líf þeirra gangi úr skorðum á víðtækan hátt. Daglegt líf getur gjörbreyst, fólk finnur fyrir vanmætti og óöryggi og upplifir oft að það hafi litla stjórn á eigin lífi.

Ýmsar líkamlegar aukaverkanir fylgja krabbameinsmeðferð, þær eru þó mismunandi eftir því hver meðferðin er auk þess sem það er einstaklingsbundið hversu miklar aukaverkanir koma fram hjá hverjum og einum. Algengar aukaverkanir eru þreyta, úthaldsleysi, einbeitingarskortur, sýkingarhætta, ógleði/uppköst, hármissir, þyngdaraukning/þyngdarmissir o.fl.

Andleg vanlíðan af ýmsum toga getur gert vart við sig. Það getur verið reiðarslag fyrir einstaklinginn að greinast með krabbamein. Algengt er að tilfinningar á borð við afneitun, kvíða, hræðslu, reiði, biturð og sorg komi fram. Margir finna líka fyrir miklum einmanaleika og upplifa sig einangraða frá öðrum, eins og þeir standi einir.

Mikilvægi þess að geta haldið áfram að vinnan eða verið í tengslum við vinnustað

Vinnan getur skipt miklu máli fyrir marga sem greinst hafa með krabbamein. Vinnan getur veitt ákveðið öryggi og festu á meðan hversdagslíf viðkomandi getur verið gerbreytt að öðru leyti vegna sjúkdómsins. Að halda tengslum við vinnufélagana getur síðan að einhverju leyti uppfyllt félagslegar þarfir og dregið úr einangrun.

Það fer þó eftir einstaklingnum og þeirri meðferð sem hann fær hvort hann geti haldið áfram að vinna (að fullu eða hluta) eða þurfi að fara í veikindaleyfi. Það fer eftir eðli vinnunnar og líðan viðkomandi.

Mörgum sem greinast með krabbamein finnst gott að halda sambandi við vinnustaðinn sinn, jafnvel þó þeir þurfi að vera alveg frá vinnu. Þannig getur viðkomandi fylgst með því sem um er að vera á vinnustaðnum og um leið getur samstarfsfólk fengið fregnir af honum, allt eftir því hvað viðkomandi kærir sig um. Aðrir vilja hins vegar draga sig alveg út úr vinnuumhverfinu.

Þó að viðkomandi sé lítið eða ekkert í vinnu er líklegt að það verði auðveldara fyrir hann og samstarfsmenn þegar hann mætir aftur til vinnu eftir veikindin ef reglulegu sambandi er haldið þann tíma sem starfsmaðurinn er fjarverandi. Þó þarf að virða ef starfsmaður vill ekki halda sambandi.

Samstarfsmenn geta stutt hinn veika á ýmsa vegu

Stuðningur og velvilji vinnustaðar og samstarfsfólks getur haft verulega þýðingu og verið mikils virði fyrir þann sem glímir við krabbamein. Það veitir styrk að finna fyrir umhyggju, að maður hafi hlutverki að gegna og skipti máli. Samstarfsmenn geta stutt hinn veika á ýmsa vegu, bæði meðan hann er í meðferð og að meðferð lokinni.

Meðal annars geta þeir:

 • Leitast við að sýna skilning, verið tilbúnir að hlusta og sýna áhuga (þó án óþarfa hnýsni). Sýnt nærgætni og reynt að vega og meta hvað hentar viðkomandi, sumir eiga auðvelt með að tala frjálslega um veikindi sín en aðrir vilja sem minnst um þau ræða.
 • Sýnt sveigjanleika, verið tilbúnir að breyta skipulagi og sýnt liðleika við að koma til móts við breyttar aðstæður vinnufélagans.
 • Verið meðvitaðir um að líðan getur verið mjög breytileg. Algengt er að fólk eigi ,,góða daga og slæma“.
 • Hvatt vinnufélaga sem þarf að vera alveg frá vinnu í lengri eða skemmri tíma til að halda sambandi við vinnustaðinn. Vill hann t.d. vera í sambandi við ákveðinn starfsmann eða yfirmann sem myndi þá heyra í honum með reglulegu millibili og sá yrði tengiliður við hitt starfsfólkið? Vill hann vita af og fá boð þegar starfsmenn hittast?
 • Spurt beint út hvort og þá hvernig hægt sé að aðstoða viðkomandi. Það veitist mörgum erfitt að biðja um aðstoð.
 • Til dæmis: ,,Væri í lagi að ég hefði samband eða kíkti við hjá þér öðru hverju eða viltu fá ró og næði?“
 • ,,Viltu hringja í mig ef það er eitthvað sem ég get aðstoðað þig við? Eða væri í lagi að ég hefði samband öðru hverju til að athuga hvort það sé eitthvað sem ég gæti hjálpað þér með?“
 • Þegar valmöguleikar eru gefnir auðveldar það viðkomandi að afþakka aðstoð ef hann þarfnast hennar ekki. Kannski þarf hann heldur ekki aðstoð nákvæmlega núna en finnst gott að vita hvert hægt sé að leita ef þörf verður á.
 • Orðið að liði utan vinnutíma. Oft fer mikill tími og kraftar í ferðir, bið og umstang vegna meðferðar. Hægt er að bjóðast til að keyra viðkomandi, koma með mat heim til hans eitthvert kvöldið, slá blettinn, boðið honum í bíó eða á tónleika. Sumir kunna ekki við að þiggja hitt og þetta en stundum er hægt að framkvæma án þess að spyrja. Til dæmis færa vinnufélaganum eitthvað matarkyns án þess að stoppa neitt við (nema hann óski eftir). Slíkt getur verið honum mikils virði og mikilvægt að hann finni fyrir velvild og umhyggju í sinn garð.

Þegar starfsmaður snýr aftur til vinnu eftir krabbameinsmeðferð

Mismunandi er hvernig fólki líður eftir krabbameinsmeðferð. Margir finna fyrir þreytu og úthaldsleysi löngu eftir að meðferð lýkur og ýmsum öðrum líkamlegum kvillum. Þetta gæti t.d. þýtt að viðkomandi geti ekki unnið fullan vinnudag eða alla daga. Það gæti því þurft að aðlaga vinnutíma og verkefni að getu starfsmannsins. Samstarfsfólk getur orðið vinnufélaga að liði með því að fylgjast með og taka eftir (án hnýsni) og láta yfirmann vita hvaða sveigjanleiki gæti komið sér vel, hvaða þarfir hann gæti haft.

Mörgum veitist erfitt að snúa aftur til vinnu eftir krabbameinsmeðferð. Andleg áhrif þess að hafa greinst með krabbamein og farið í meðferð eru oft verulega mikil, sumir eiga erfitt með að ná aftur jafnvægi í tilverunni og sitja uppi með flóknar tilfinningar og langtímafylgikvilla sem tengjast meðferð. Sýn þeirra á lífið og tilveruna og afstaða til ýmissa hluta gæti líka hafa breyst.

Upplýsingar fyrir yfirmenn

Miklu máli skiptir að yfirmaður ræði sem fyrst við starfsmann sem greinst hefur með krabbamein um það hvað samstarfsmenn fái að vita. Það er starfsmannsins sjálfs að ákveða hvort öðrum á vinnustaðnum verði greint frá stöðunni eða ekki. Vert er þó að benda honum á að ef vinnufélagarnir fá að vita af veikindunum er líklegra að þeir sýni skilning á fjarveru eða breytingum á vinnutilhögun.

Ef starfsmaður vill að aðrir séu upplýstir um veikindi hans þurfa yfirmaður og viðkomandi að koma sér saman um:

 • hver eigi að upplýsa starfsmenn (starfsmaðurinn sjálfur, yfirmaður, einhver annar),
 • hvernig eigi að standa að því (á hópfundi eða maður á mann), og hvort viðkomandi vill vera viðstaddur eða ekki,
 • hverju eigi að segja frá og hverju ekki.

Þegar upplýst er um stöðuna ætti aðallega að ræða um hver áhrifin gætu orðið á starfsfólk og vinnuna sjálfa en reyna að forðast að segja frá persónulegum smáatriðum nema viðkomandi hafi óskað eftir því. Nota ætti jákvætt orðalag og tala af bjartsýni en segja þó raunsætt frá því við hverju er að búast.

Yfirmaður/vinnuveitandi þarf að vera vel meðvitaður um réttindi starfsmannsins.

 • Oft felst stuðningur vinnuveitenda/yfirmanna að miklu leyti í því að breyta skipulagi og veita sveigjanleika. Hugsa þarf fyrir og taka ákvarðanir um mögulegar fjarvistir eða breytingar á vinnutilhögun í samráði við starfsmanninn. Einnig þarf að undirbúa hvernig endurkomu til vinnu verði háttað.
 • Hægt er að koma til móts við skerta starfsgetu starfsmanns á ýmsan hátt, bæði meðan á meðferð stendur og á eftir. Sem dæmi má nefna sveigjanlegan vinnutíma, möguleika á að vinna heima, styttri starfsdaga og einfaldari verkefni. Litlir hlutir eins og það að geta sest niður og hvílst með reglulegu millibili eða farið út í stutta göngu geta haft mikið að segja. Oft er erfitt fyrir starfsmann að biðja um svona hluti en auðveldara að þiggja þegar yfirmaður býður það að fyrra bragði.
 • Yfirmenn þurfa að vera meðvitaðir um að veikindi starfsmanns geta haft veruleg áhrif á starfsmannahópinn allan og andrúmsloft á vinnustaðnum.

Heimildir og frekari lestur

 • Macmillan cancer support: ,,Managing cancer in the workplace“
 • Kræftens bekæmpelse: ,,Hvis din kollega har kræft“

Staðfært hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins.

Yfirfarið í mars 2021.

Ýmislegt sem getur nýst á vinnustöðum

Vinnustaðir gegna líka mikilvægu hlutverki til að hvetja fólk til að bregðast við einkennum krabbameina og lifa heilbrigðum lífsháttum sem draga úr líkum á krabbameinum. Margir vinnustaðir prenta út plakötin sem finna má hér neðar á síðunni og hengja upp á baðherbergjum, kaffistofum og víðar. 

Hér er ýmislegt efni sem nýtist á vinnustöðum.

Einkenni

Var efnið hjálplegt?