Aksturs­þjónusta Krabbameins­félagsins

Krabbameinsfélagið býður krabbameinsgreindum sem búa á höfuðborgarsvæðinu akstur til og frá Landspítala eigi þeir erfitt með ferðir en þurfa að sækja meðferð eða rannsókn á spítalann. 

Þjónustan er gjaldfrjáls og sjálfboðaliðar sem sótt hafa námskeið og uppfylla ákveðin skilyrði sjá um aksturinn á eigin bifreiðum. 

Markmiðið er að styðja krabbameinsgreinda og auðvelda þeim að sækja nauðsynlega þjónustu og meðferðir á Landspítala, eins og lyfja- og geislameðferðir, blóð og myndrannsóknir eða viðtöl við heilbrigðisstarfsfólk. 

„Með þessari þjónustu viljum við koma til móts við þá sem af einhverjum ástæðum eiga ekki kost á öðrum akstursúrræðum. Krabbamein krefst gjarnan mikils af fólki, bæði andlega, líkamlega og félagslega. Aukin streita og álag vegna tíðra ferða á Landspítalann er ekki á það bætandi,“ segir Kristín Bergsdóttir, hjúkrunar- og lýðheilsufræðingur hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. 

Í sumum tilfellum eru bílastæði illfáanleg nálægt inngangi sjúkrastofnana, veður og færð getur verið óhagstæð og álag í umferð verið hindrun fyrir fólk og haft áhrif á líðan þess. Bílastæðum getur auk þess fylgt kostnaður sem getur verið íþyngjandi, sérstaklega ef um tíðar ferðir er að ræða eins og vegna geislameðferða. Þá getur félagsleg skerðing og erfið efnahagsstaða einnig verið áhrifaþáttur. 

„Þörf á akstursþjónustu er metin með tilliti til fjárhagslegrar, sálfélagslegrar og heilsufarslegrar stöðu hvers og eins og við leggjum áherslu á að tryggja öryggi notenda og ökumanna,“ segir Kristín. 

Akstursþjónustan hófst síðastliðinn vetur og er að fyrirmynd sambærilegrar þjónustu írska krabbameinsfélagsins. Góð reynsla hefur hlotist af þjónustunni þar í landi og á síðasta ári nutu rúmlega 16 þúsund manns góðs af henni. 

Ökumenn sem sóttu um að verða sjálfboðaliðar í akstursþjónustunni eru yfir þrítugu, hafa eigin bifreið til umráða sem uppfyllir öryggiskröfur, eru áreiðanlegir, búa yfir jákvæðni og góðri hæfni í mannlegum samskiptum. Þeir sátu undirbúningsnámskeið á vegum Krabbameinsfélagsins og afhentu einnig afrit af sakavottorði og ökuskírteini auk staðfestingar á tryggingu bifreiðarinnar. 

Samgöngustofa tók saman leiðbeiningar fyrir ökumennina í samvinnu við félagið. Að lokum undirrituðu sjálfboðaliðarnir samning um þagnarheit sem ökumaður í akstursþjónustunni.

  • Ráðgjafar eru við símann 800 4040 alla virka daga frá kl. 9-16, ef þú vilt panta akstur eða fá nánari upplýsingar . Einnig er hægt að að senda fyrirspurnir á radgjof@krabb.is


Ljósmyndir: Ásta Kristjánsdóttir og Sigríður Sólan Guðlaugsdóttir

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins veturinn 2020-2021. 


Var efnið hjálplegt?