Kastað til bata 21.-23. maí

  • 21.5.2017, Langá á Mýrum

,,Kastað til bata“ er verkefni á vegum Brjóstaheilla ‒ Samhjálpar kvenna, Krabbameins-félagsins og styrktaraðila þar sem konum er boðið í veiðiferð. Þetta skemmtilega verkefni er hugsað sem endurhæfing fyrir konur sem lokið hafa meðferð við brjóstakrabbameini. 

Markmið veiðiferðarinnar er að veita konum tækifæri til að styrkja sig á líkama og sál með því að æfa flugukast í fallegu umhverfi, njóta samvista við veiðifélaga með svipaða reynslu – og veiða ef heppnin er með þeim. 

Vanir fluguveiðimenn kenna þátttakendum að kasta flugu og er ávallt tekið mið af líkamlegri getu þeirra. Að þessu sinni verður farið í Langá á Mýrum og geta 12-14 konur tekið þátt. Gist er í tveggja manna herbergjum í veiðihúsinu við Langá. Ferðin hefst á hádegi sunnudaginn 21. maí og henni lýkur um kaffileytið þriðjudaginn 23. maí. Þessi ævintýraferð er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Þetta er í áttunda sinn sem „Kastað til bata“ verkefnið er í boði. Þátttakendur hafa verið afar ánægðir og halda margar konur enn hópinn.  

Umsagnir frá þátttakendum: 

 „Þetta var sannkallað ævintýri frá upphafi til enda.“ 

 „Frábær ferð í alla staði, gott að hitta konur sem hafa gengið í gegnum sambærilega hluti og fá upplýsingar um þeirra ferli.“ 

 „Þvílíkt flott hópefli. Bý að þessu um ókomna tíð. Yndislegur hópur.“


Þær konur sem hafa áhuga á taka þátt eru beðnar að senda umsókn á netfangið kastadtilbata@krabb.is fyrir 30. apríl 2017 þar sem fram koma eftirfarandi upplýsingar: Nafn, heimilisfang, sími, kennitala, hvenær meðferð lauk (mánuður og ár) ásamt stuttri greinargerð um hvers vegna umsækjandi vill taka þátt í verkefninu og hvernig hann metur líkamlegt ástand sitt til þess að taka þátt í endurhæfingarverkefni á borð við þetta. 

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Krabbameinsfélagsins, www.krabb.is, hjá starfs­fólki Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins í síma 800 4040 eða í gegnum netfangið radgjof@krabb.is 


Var efnið hjálplegt?