Aðventu­stund Ráð­gjafar­þjónustunnar: Upp­lestur, söngur og sætindi

  • 4.12.2019, 12:00 - 13:00, Krabbameinsfélagið Skógarhlíð 8

Miðvikudaginn 4. desember 2019 bjóðum við þér að njóta með okkur notalegrar aðventudagskrár í tali og tónum. Jólagestirnir okkar þetta árið eru rithöfundarnir Sæunn Kjartansdóttir og Bergur Ebbi og tónlistarkonan Hrafnhildur Eva Guðmundsdóttir.

Sæunn Kjartansdóttir er höfundur bókarinnar “Óstýrláta mamma mín…og ég”. Bókin segir sögu Ástu Bjarnadóttur sem fór alla tíð sínar eigin leiðir. Hún var níunda í röð fimmtán systkina, fædd á Húsavík 1922. Átján ára gömul eignaðist hún barn sem hún fól foreldrum sínum en flutti sjálf til Bandaríkjanna. Þar átti hún í sambandi við 30 árum eldri ofursta sem hún hafði kynnst í „ástandinu“ í Reykjavík. Seinna giftist hún íslenskum manni og eignaðist með honum fjórar dætur en varð ung ekkja og gekk brösuglega að takast á við afleiðingar þess og ábyrgðina á ungum börnum.

Bergur Ebbi hefur nýlega sent frá sér bókina “Skjáskot” og hefur bókinni verið lýst sem mögnuðu og upplýsandi ferðalagi um mannshugann og áskoranir dagsins í dag. Hver eru tengslin milli falsfrétta og gervigreindar? Hvernig líður okkur í heimi þar sem allar skoðanir og hugsanir eru flokkaðar, fá einkunn og umsagnir? Hefur allt merkingu? Hræðist nútímafólk ekki lengur eld og tortímingu, heldur einmitt þá staðreynd að framvegis mun aldrei neitt gleymast eða eyðast? Bergur Ebbi spyr stórra spurninga og leitar svara í þessari snörpu, skörpu og lærdómsríku krufningu á vandamálum og þversögnum sem blasa við okkur öllum.

Viðskiptafræðingurinn Hrafnhildur Eva Guðmundsdóttir starfar í bókhaldsdeild tölvuleikjafyrirtækisins CCP og stundar nám við Söngskóla Sigurðar Demetz. Hún var í þrjá vetur í Óperukórnum í Reykjavík og er nú í skólakór Söngskóla Sigurðar Demetz og hefur tekið þátt í uppfærslu nokkurra söngleikja á vegum skólans.

Dagskráin hefst stundvíslega kl. 12:00 og er áætlað að hún standi til ca. 13:00. Boðið verður upp á heitt súkkulaði, ilmandi brauð frá Brauðhúsinu í Grímsbæ, te frá Tefélaginu og viðbit frá Mjólkursamsölunni.

Jolagestirnir

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins er að Skógarhlíð 8 í Reykjavík. Opið mánudaga til miðvikudaga kl. 9-16, fimmtudaga kl. 9-18 og föstudaga kl. 9-14.
Fagfólk svarar í síma 800 4040 kl. 13-15.


Var efnið hjálplegt?