Sálræn viðbrögð við því að greinast

Það er flestum mikið áfall að greinast með krabbamein. Mörgum er kippt út úr sínu daglega lífi og við tekur ferli sem oft minnir einna helst á ferð í rússíbana.

Einstaklingurinn upplifir gjarnan að hann missi alla stjórn á lífi sínu sem getur fyllt hann vanmætti. Margir hafa lýst því þannig að allt í einu sé sem lífið standi í stað en að á sama tíma sé þeim kippt inn í veruleika sem að felur í sér að hitta fjölmörg ný andlit, taka við ógrynni af upplýsingum og heyra ný og framandi orð.

Spurningar um lífið og dauðann skjóta upp kollinum og áhyggjur af hugsanlegum breytingum á daglegu lífi sækja að. Það er eðlilegt að upplifa dofa til að byrja með. Einnig er eðlilegt að finna fyrir ótta, depurð og einmanaleika.

Það hjálpar oftast að geta deilt líðan þinni og reynslu með öðrum eða einhverjum sem þú treystir. Hjá okkur í Ráðgjafarþjónustunni býðst þér einnig að setjast niður með ráðgjafa og ræða um það sem hvílir á þér.

Jafnvel þó að það sé margt sem þú hefur ekki stjórn á um þessar mundir er samt ýmislegt sem að þú getur gert til að viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu í erfiðum og flóknum aðstæðum. Mikilvægt er að geta gefið sér svigrúm og tíma til að hlúa að sjálfum sér. Þá skiptir oft máli að huga að þáttum eins og svefni, næringu, hreyfingu og ekki síst því að vinna með hugann og hugarástandið. 


Var efnið hjálplegt?