Lyfjameðferð

Krabbameinslyfjameðferð er ein tegund krabbameinsmeðferða. Meðferðin felur í sér gjöf frumueyðandi lyfja. Frumueyðandi lyf hafa áhrif á frumur í vexti, það er að segja truflun verður á frumumyndun og þær missa hæfileikann til að skipta og fjölga sér.

Lyfin berast með blóðrásinni um líkamann hvort sem þau eru gefin í æð, vöðva eða í töfluformi. Þess vegna hafa þau ekki einungis áhrif á krabbameinsfrumurnar heldur einnig á aðrar frumur í líkamanum. Þetta á aðallega við frumur sem eru hraðar í vexti og skipta sér oft eins og frumur í beinmerg, í slímhúð meltingarvegar, frumur í kynkirtlum og hársverði. Áhrifin á þessar frumur eru tímabundin, þar sem þær koma til með að endurnýja sig.

Til eru margar tegundir krabbameinslyfja semvinna á mismunandi hátt á krabbameinsfrumunum.Því getur reynst nauðsynlegt að gefa fleiri en eitt lyf í senn, en það fer eftir eðli sjúkdómsins hvernig samsetning lyfjameðferðarinnar er. Lyfin er hægt að gefa á mismunandi hátt allt eftir því hvaða krabbamein er verið að meðhöndla. Algengast er að gefa lyfin í æð, en einnig sem töflur um munn, inngjöf í vöðva, undir húð eða í vökvarýmið umhverfis mænu. Í sumum tilvikum er fleiri en ein leið notuð.

Það er einstaklingsbundið hversu oft og hve lengi lyfin eru gefin. Einnig er mismunandi hversu langur tími líður á milli lyfjagjafa. Hver lyfjagjöf getur staðið í nokkrar mínútur, klukkustundir eða nokkra daga í einu. Algengt er að gefa lyfin með 3-4 vikna millibili í 1-2 ár.

Meðferðin er oftast gefin á göngu- og dagdeildum og stundum krefst hún innlagnar á legudeild.Þú færð nánari upplýsingar um þá meðferð sem þú færð, aukaverkanir og möguleg úrræði hjá þínum lækni og hjúkrunarfræðingi.

Landspítali háskólasjúkrahús, Fræðsluefni fyrir krabbameinsdagbók. Unnið af Arndísi Jónsdóttur, Kristínu Láru Ólafsdóttur og Svandísi Írisi Hálfdánardóttur, janúar 2014.

Áhrif krabbameinslyfjameðferðar á húð og slímhúð

Mikilvægt er að huga að húðumhirðu fyrir og samhliða krabbameinsmeðferð til að forðast erfiðar aukaverkanir.

Lyfjameðferð er ein tegund krabbameinsmeðferða. Hún felur í sér að gefin eru ákveðin lyf með það að markmiði að veikja krabbameinsfrumurnar og hamla vexti þeirra, fjölgun og dreifingu. Lyfin dreifast með blóðrásinni um líkamann og ná þannig til krabbameinsfrumnanna en dreifingin er þó ekki bara bundin við þær heldur verða aðrar, heilbrigðar frumur einnig fyrir áhrifum lyfjanna. Það eru aðallega frumur sem einkennast af því að vaxa hratt og fjölga sér ört eins og frumur í beinmerg, slímhúð og frumur í kynkirtlum og hársverði. Lyfin geta því valdið skemmdum á þessum heilbrigðu frumum um leið og þær hafa tilætluð áhrif á krabbameinsfrumurnar. Það getur leitt til erfiðra aukaverkana á þeim svæðum sem frumuskemmdir verða, svo sem hármissi og særindum í slímhúð t.d. í munni, meltingarvegi, augum og leggöngum. Í sumum tilfellum hafa lyfin áhrif á húðfrumur sem lýsir sér meðal annars sem þurrkur og erting í húð, roði útbrot og kláði.

Að viðhalda heilbrigðri húð og meðhöndlun húðvandamála

Vegna áhrifa krabbameinslyfja á húðfrumur, er mikilvægt að bera rakakrem á húðina og nota handáburð, þar sem fingurgómar eru gjarnan útsettir fyrir þurrki og sárum. Þetta er gert í fyrirbyggjandi skyni, en einnig ef einkenni húðvandamála hafa þegar gert vart við sig. Mælt er með rakakremum með náttúrulegum innihaldsefnum og E-vítamini, sem talið er verndandi gegn húðvandamálum. Þar sem húðin getur verið mjög viðkvæm af völdum lyfjanna ætti að nota öfluga sólarvörn yfir sumarmánuðina. Þá er einnig ráðlagt að drekka vel af vatni og neyta næringarríkrar fæðu. Ef húðvandamál versna þrátt fyrir ráðlagðar húðmeðferðir, ætti að leita til heilbrigðisstarfsfólks til frekari meðferða.

Slímhúðin og mikilvægi fyrirbyggjandi meðferða

- Áhrif á slímhúð geta leitt til þrálátra sára og sýkinga
Mikilvægt er að beita viðeigandi ráðum til að koma í veg fyrir myndun sára í slímhúð í munni, þar sem slík sár eru útsett fyrir sýkingum af völdum veira og baktería, auk þess sem þau geta valdið óþægindum og vanlíðan. Markmið með fyrirbyggjandi meðferð er að halda vörum og munnholi röku, til dæmis með því að sjúga ísmola og drekka vel af vatni, auk þess sem ísmolar lina eymsli séu þau til staðar. Einnig er hægt að kaupa munnvatnsörvandi munnsogstöflur og gel í apótekum í þeim tilgangi að halda munnholi röku og koma í veg fyrir þurrk og sár. Ef varir eru þurrar er mælt með að nota varasalva. Mikilvægt er að læknir skoði og leggi mat á einkenni við upphaf þeirra.

Góð munn- og tannhirða er afar mikilvæg þar sem lyfjameðferðin getur haft áhrif á tennur og tannhold. Mikilvægt er að fá faglegt mat og ráðleggingar hjá tannlækni áður en meðferðin hefst.

Léttu þér lífið í lyfjameðferð -Bæklingur með góðum ráðum fyrir þig, ættingja og vini (2018)

Smelltu á slóðina til að opna bæklinginn (pdf-skjal) https://www.krabb.is/media/baeklingar/KRA_105x148_lyfjamedferd_140918_OK-3.pdf 


Var efnið hjálplegt?