Geislameðferð

Geislameðferð er ein að þeim meðferðum sem beitt er gegn krabbameini. Tilgangur hennar getur verið að lækna sjúkdóminn eða halda honum niðri og hindra þannig frekari útbreiðslu hans um óákveðinn tíma. Þegar um lengra genginn sjúkdóm er að ræða má bæta líðan með geislameðferð. Við geislameðferð er notuð háorkuröntgengeislun eða rafeindageislun.

Undirbúningur

Þegar geislameðferð hefur verið ákveðin er meðferðarsvæðið ákvarðað með hjálp röntgenmyndatöku og oft einnig sneiðmyndatöku. Svæðið sem á að meðhöndla er afmarkað með því að setja merkingar á húðina með sérstökum penna og verða þær merkingar að sjást allt meðferðartímabilið.

Stundum er útbúið stuðningsmót til að auðvelda legu í sömu stellingu meðan á meðferð stendur.

Sumir þurfa að koma einu sinni í undirbúning, aðrir tvisvar til þrisvar. Hver heimsókn tekur frá 30 mínútum upp í 2 klukkustundir og allur undirbúningurinn getur tekið allt að vikutíma.

Meðferð 

Tímalengd geislameðferðar er breytileg. Sumir koma í eitt skipti, aðrir daglega í nokkrar vikur. Hver meðferð tekur aðeins nokkrar mínútur og er sársaukalaus. Meðferðin veldur ekki geislavirkni.

Líðan fólks meðan á meðferð stendur er einstaklingsbundin. Algengt er að fólk finni fyrir þreytu meðan á geislameðferðinni stendur og í nokkurn tíma eftir að henna lýkur, en aðrar aukaverkanir eru háðar því hvar á líkamann geislun er gefin og stærð geislasvæðis.

Sjúkrahúsvist vegna geislameðferðar er yfirleitt óþörf. Margir stunda áfram sína vinnu og sinna áhugamálum.Hjúkrunarfræðingar, geislafræðingar og læknar deildarinnar fylgjast með þér á meðferðartímabilinu og veita þér frekari upplýsingar um meðferðina, aukaverkanir og úrræði.

Þegar geislameðferðinni lýkur er gefinn tími hjá krabbameinslækni til eftirlits.

Heimildir

Landspítali háskólasjúkrahús, Fræðsluefni fyrir krabbameinsdagbók. Unnið af Arndísi Jónsdóttur, Kristínu Láru Ólafsdóttur og Svandísi Írisi Hálfdánardóttur, janúar 2014.


Var efnið hjálplegt?