Persónuupplýsingar

Upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga vegna Notendaráðs Krabbameinsfélagsins.

Krabbameinsfélag Íslands vinnur með persónuupplýsingar þátttakenda í Notendaráði félagsins á grundvelli upplýsts samþykkis þátttakenda.

Tilgangur vinnslunnar er að afla upplýsinga um það sem skiptir þá mestu sem veikjast af krabbameinum og aðstandendur þeirra, hverjar skoðanir þeirra og reynsla er. Úr upplýsingunum er meðal annars leitast við að sjá hver eru áherslumál fólks eftir því við hvaða tegund krabbameins er glímt, á hvaða aldursbili það er, við hvers konar aðstæður það býr og á hvaða landssvæði.

Þær persónuupplýsingar sem félagið vinnur með í þessum tilgangi eru: netföng þátttakenda, búsetusvæði og hvort viðkomandi býr einn eða með öðrum, á hvaða aldursbili viðkomandi er, menntunarstig og staða á vinnumarkaði, hvort viðkomandi er sjúklingur eða aðstandandi, hvaða krabbamein viðkomandi (eða aðstandandi hans) er með eða hafði og hvenær það greindist.

Upplýsingarnar eru notaðar til að hægt sé senda kannanir eða spurningar Krabbameinsfélagsins til þeirra þátttakanda sem þær eiga við í hverju tilfelli. Hvert starfstímabil Notendaráðsins er þrjú ár og persónuupplýsingum um þátttakendur er eytt í lok hvers tímabils, burtséð frá því hvenær þátttakendur skráðu sig í ráðið.

Upplýsingunum er safnað í gegnum forritið FORMS frá Microsoft og er unnið með eingöngu innan Evrópska efnahagssvæðisins, nánar tiltekið á Íslandi, í Hollandi og/eða á Írlandi. Krabbameinsfélag Íslands, kt. 700169-2789, Skógarhlíð 8, 105 Reykjavík, s. 540 1900, er ábyrgðaraðili þessarar vinnslu persónuupplýsinga og vinnsluaðili er félagið Microsoft Ireland Operations, Ltd. Um vinnsluna gildir vinnslusamningur, nú síðast frá 15. september 2022, en nýjasta útgáfa hans á hverjum tíma er aðgengileg á vefslóðinni https://www.microsoft.com/licensing/docs/view/Microsoft-Products-and-Services-Data-Protection-Addendum-DPA .

Þátttakendur í Notendaráði eiga margvísleg réttindi tengd vinnslu persónuupplýsinga, til dæmis upplýsingarétt og aðgangsrétt, sjá nánar niðurlag 1. kafla og í 8. kafla í persónuverndarstefnu Krabbameinsfélagsins en hún er aðgengileg á slóðinni https://www.krabb.is/personuvernd/ og netfang persónuverndarfulltrúa félagsins er personuvernd@krabb.is.