Upplýsingar um leghálsspeglun

Hagnýtar upplýsingar um undirbúning, framkvæmd og við hverju má búast eftir leghálsspeglun.

Hvað er leghálsspeglun?

Leghálsspeglun er smásjárskoðun á leghálsi sem er gerð ef frumubreytingar finnast í frumusýni. Einnig eru tekin lítil vefjasýni (1-2 mm bitar og skaf frá leghálsi) til nákvæmarirannsóknar. Til að stöðva blæðingu frá sýnatökusvæðinu á leghálsi er oftast penslað í þau t.d.með brennisteini (lapis).

Hvar eru leghálsspeglanir framkvæmdar?

Flestar leghálsspeglanir eru gerðar á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í Reykjavík en einnig á Sjúkrahúsi Akureyrar, Sjúkrahúsi Akraness og hjá einstaka kvensjúkdómalæknum í Reykjavík.

Undirbúningur

Leghálsspeglun þarfnast hvorki svæfingar né deyfingar en ráðlagt er að taka t.d. verkjalyfið Íbúfen 400-600 mg klukkutíma fyrir rannsókn, þ.e.a.s. ef þú þolir það lyf. Annars er hægt að taka önnur verkjalyf sem þú þolir.

Hvað má gera eftir leghálsspeglun?

Að öllu jöfnu er ekki talin ástæða til að vera frá vinnu eftir leghálsspeglun. Ekki er ráðlegt aðfara í sund, liggja í baðkari, hafa samfarir, stunda líkamsrækt eða fara í ferðalag erlendis í allt að sjö daga eftir leghálsspeglun eða á meðan útferð er.

Búast má við brún- til dökkleitri útferð eða smá blæðingu eftir speglunina. Fylgikvillar eftir leghálsspeglun eru sjaldgæfir en ef veruleg blæðing verður eða hitahækkun yfir 38°C er ráðlagt að hafa samband við Leitarstöðina í síma 540 1919 eða vakthafandi deildarlækni á Kvennadeild Landspítala í síma 543 1000.

Niðurstöður

Það tekur ofast 1-2 vikur að fá niðurstöðu úr leghálsspegluninni og er þá tekin ákvörðun um eftirlit eða meðferð. Læknir sem gerir leghálsspeglunina hefur samband símleiðis varðandi niðurstöðu.Allar nánari upplýsingar um HPV finnurðu á hpv.is.

Janúar 2016