Spurningar og svör um leghálskrabbameinsleit

Algengar spurningar um leghálskrabbameinsleit og svör við þeim

Hvers vegna þarf ég að fara í leghálskrabbameinsleit?

Ef þú hefur einhvern tímann stundað kynlíf, hvort sem það voru samfarir eða bara snerting viðkynfæri annarrar manneskju gætir þú hafa smitast af HPV (Human Papilloma Virus). Leghálskrabbamein og frumubreytingar eru af völdum HPV sem er algengasti kynsmitið í heiminum. 

HPV smitast líka við munnmök og mök í endaþarm. Allir geta smitast af HPV við kynlíf, konur, karlar, gagnkynheigðir, samkynhneigðir eða tvíkynhneigðir. Smokkur veitir ekki fullkomna vörn vegna þess að hann hylur ekki öll sýkt svæði en HPV getur fundist á öllu nærbuxnasvæðinu. Smokkurinn er hins vegar góð vörn fyrir þau svæði sem hann hylur, legháls og getnaðarlim.

Flestar HPV-sýkingar eru einkennalausar, hættulausar og ganga til baka. Í sumum tilfellum getur veirusýkingin valdið alvarlegum frumubreytingum sem geta þróast í leghálskrabbamein,venjulega á löngum tíma (nokkrum árum eða áratugum). Alvarlegar frumubreytingar og leghálskrabbamein geta fundist við reglulega leghálskrabbameinsleit.

Ef þú hefur aldrei stundað kynlíf þarftu ekki að fara í leghálskrabbameinsleit. 

Af hverju byrjar leit við 23 ára aldur?

Leghálskrabbamein er sjaldgæft hjá ungum konum (yngri en 25 ára). Þó flestar ungar konur smitist af HPV stuttu eftir að þær hefja kynlíf þá hverfur sýkingin hjá helmingi þeirra sem smitast á um sex mánuðum og í um 90% tilfella er hún horfin innan tveggja til þriggja ára. Þessar HPV veirusýkingar geta valdið frumubreytingum sem flestar ganga til baka. Í sumum tilfellum getur veirusýkingin valdið alvarlegum frumubreytingum sem geta þróast í leghálskrabbamein, venjulega á löngum tíma (nokkrum árum eða áratugum).

Þess vegna er ekki talið nauðsynlegt að leita skipulega að krabbameini í leghálsi fyrr en við 23 ára aldur. Ef byrjað er að leita fyrr er hætta á að finna frumubreytingar sem aldrei hefðu þróast í leghálskrabbamein. Þá getur þurft að gera ónauðsynlegar leghálsspeglanir og keiluskurði. Leitin miðast við að gera sem mest gagn og valda sem minnstum skaða.

Hvers vegna lýkur leit við 65 ára aldur?

Leghálskrabbamein og frumubreytingar eru af völdum HPV-sýkinga. HPV er algengasti kynsjúkdómurinn í heiminum og reikna má með að flestir smitist sem einhvern tímann hafa stundað kynlíf. HPV-sýkingar eru algengar hjá ungum konum en sjaldgæfar hjá eldri konum.

Líkur á að greinast með leghálskrabbamein fara því minnkandi með hækkandi aldri og með fjölda fyrri eðlilegra skoðana. Áhættan er hverfandi lítil hjá þeim konum sem mætt hafa reglulega til leitar.

Leghálskrabbmeinsleit lýkur ekki við 65 ára aldur hjá konum sem eru í eftirliti vegna frumubreytinga eða leghálskrabbameins. Þeim er boðin skoðun í samræmi við leitarleiðbeiningar þar til eftirliti lýkur.

Ef þú hefur einkenni frá kvenlíffærum, eins og t.d. óútskýrðar milliblæðingar, auknar blæðingar, útferð frá leggöngum, eymsli við samfarir eða önnur ný óútskýrð einkenni bendum við þér á að leita beint til læknis. 

Hvers vegna er leitað á þriggja ára fresti?

Með skipulegri leit að krabbameini í leghálsi er reynt að gera sem mest gagn og valda sem minnstum skaða. Ef leitað er of sjaldan er hætta á að missa af alvarlegum frumubreytingum og krabbameini en ef leitað er of oft getur það leitt af sér ónausynlegt eftirlit, leghálsspeglanir eða keiluskurði. Rannsóknir hafa sýnt að með því að leita að leghálskrabbameini á þriggja ára fresti er hægt að gera sem mest gagn og valda sem minnstum skaða fyrir konuna. Öll nágrannalönd okkar leita á þriggja ára fresti hjá ungum konum, sum leita á fimm ára fresti hjá konum eldri en 50 ára. 

Hvers vegna þarf ég að koma á þriggja ára fresti?

Rannsóknir hafa sýnt að ef þú kemur á þriggja ára fresti gerir krabbameinsleitin mest gagn og veldur minnstum skaða. Ef þú kemur sjaldnar en á þriggja ára fresti eykst hættan á að greinast með alvarlegar frumubreytingar eða krabbamein. Ef þú kemur oftar en á þriggja ára fresti eykst hættan á að greina frumubreytingar sem ekki leiða til krabbameins en auka líkur á ónauðsynlegu eftirliti, leghálsspeglunum eða keiluskurðum.

Hugsaðu vel um kvenheilbrigði þitt og nýttu boð um frumusýni á þriggja ára fresti. Leitarstöðin heldur utan um leitarsöguna þína og sendir þér boðsbréf þegar komið er að næstu skoðun.

Konur geta nú einnig skoðað upplýsingar um boðun og eigin þátttöku í skipulegum skimunum fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum á mínum síðum Ísland.is. Skimunarsagan er afrakstur samstarfs á milli Krabbameinsfélags Íslands og Þjóðskrár Íslands. 

Hvernig veit ég hvenær ég á að koma í næstu skoðun?

Leitarstöðin heldur utan um leitarsöguna þína og sendir þér boðsbréf þegar komið er að næstu skoðun. Leitarstöðin býður þér að koma í fyrsta skipti þegar þú ert 23 ára og síðan á þriggja ára fresti ef skoðunin er eðlileg.

Ef frumubreytingar finnast gilda um það ákveðnar leiðbeiningar um hvernig næstu skoðun er háttað. Leitarstöðin heldur skrá um allar frumubreytingar, leghálsspeglanir og keiluskurði hjáöllum konum á Íslandi og boð um í næstu skoðun er byggt á þessum upplýsingum. Ef það finnast frumubreytingar færðu alltaf bréf um niðurstöðuna frá Leitarstöðinni og leiðbeiningar um hvenær næsta skoðun á að fara fram og með hvaða hætti.

Þú átt líka að geta fengið þessar upplýsingar hjá þeim lækni, ljósmóður eða hjúkrunarfræðingi sem tók leghálssýnið því þau eiga að hafa beinan aðgang að gagnabanka Leitarstöðvarinnar. 

Á ég að koma í leghálskrabbameinsleit þegar ég er þunguð?

Ef kona er þunguð þegar hún fær boðunarbréf í leghálsskoðun ráðleggjum við að hún fresti því að koma í skimun þar til sex til átta vikum eftir barnsburð.

Hafi kona verið í sérstöku eftirliti vegna frumubreytinga og er þunguð þegar hún fær boðunarbréf ráðleggjum við henni að hafa samband við Leitarstöð þar sem metið er í hverju tilfelli fyrir sig hvort hún fari þá í skimun eða í kjölfar fæðingar.

Hvaða gagn er af leghálskrabbameinsleit?

Hér á landi hefur skipuleg leit að leghálskrabbameini dregið úr nýgengi (fjöldi nýrra tilfella áári) um 70% og dánartíðni (fjöldi þeirra sem deyja á ári) um 90% frá því leit hófst árið 1964. Árangur krabbameinsleitar byggir m.a. á góðri mætingu kvenna, skilvirku eftirliti með innköllun til hópleitar, auk eftirlits með þeim einstaklingum er greinast með afbrigðileika. Hér á landi hefur Leitarstöðin umsjón með þessum þáttum leghálskrabbameinsleitarinnar.

En það er ekki hægt að koma í veg fyrir krabbamein með því að senda út bréf og bjóða konum að koma í leit. Það næst enginn árangur nema að konur mæti. Nú mæta aðeins 65% allra kvenna í leghálskrabbameinsleit, Í Svíþjóð mæta 80% og í Englandi 83% í leghálskrabbameinsleit. 

Hugsaðu vel um kvenheilbrigði þitt og komdu þegar Leitarstöðin býður þér að koma. 

Ef ég er með einkenni?

Skipuleg leit að leghálskrabbameini er hugsuð fyrir einkennalausar konur. Ef þú ert með einkenni eins og t.d. óútskýrðar milliblæðingar, auknar blæðingar, blæðingar eftir samfarir, eymsli við samfarir eða útferð skaltu leita til læknis. Þá skipir ekki máli á hvaða aldri þú ert eða hvenær síðasta leghálssýni var tekið. 

Hvert get ég farið í skoðun?

Þú ert velkomin í Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands í Skógarhlíð 8, sími 540 1900 eða leitarstodin.is. Hjá Leitarstöðinni starfa læknar og ljósmæður við að taka frumusýni fráleghálsi. 

Þú ert einnig velkomin á flestar heilsugæslustöðvar. Kannaðu hvort einhver getur tekið sýni á þinni heilsugæslustöð. Á landsbyggðinni eru það í flestum tilvikum ljósmæður eða hjúkrunarfræðingar sem taka sýnin en þú getur líka leitað til þíns læknis. 

Þú ert velkomin til allra sjálfstætt starfandi kvensjúkdómalækna á stofu. Upplýsingar um þá færðu á t.d. á www.ja.is eða á gulu síðunum í símaskránni. 

Ef þú hefur einkenni frá kvenlíffærum, eins og t.d. óútskýrðar milliblæðingar, auknar blæðingar, útferð frá leggöngum, eymsli við samfarir eða önnur ný óútskýrð einkenni bendum við þér á að leita beint til læknis. 

Hvað kostar leghálssýni?

Í Leitarstöðinni og á heilsugæslustöðvum kostar leghálssýnið 4.500 kr. ef það er hluti afskipulegri leit. 

Hjá sjálfstætt starfandi kvensjúkdómalæknum með samning við Sjúkratryggingar Íslands kostar leghálssýnið um helmingi meira. 

Ef ég er ekki með leg eða legháls?

Ef leghálsinn var ekki tekinn þegar þú fórst í legnámsaðgerð þarftu að koma í leghálskrabbameinsleit eins og aðrar konur sem ekki hafa farið í legnámsaðgerð. 

Ef leghálsinn var tekinn í legnámsaðgerðinni og þú hefur aldrei haft alvarlegar frumubreytingar þarftu ekki að koma í leghálskrabbameinsleit. 

Ef leghálsinn var tekinn í legnámsaðgerðinni og þú hefur haft alvarlegar frumubreytingar eða farið í keiluskurð þarftu að koma í leghálskrabbameinsleit í a.m.k. 20 ár eftir legnámsaðgerð. 

Ef þú ert óviss um hvort þú eigir að koma í leghálskrabbameinsleit getur þú fengið upplýsingar hjá Leitarstöðinni eða lækninum þínum. 

Hvað er leghálskrabbameinsleit? 

Leghálskrabbameinsleit er leit að krabbameini í leghálsi sem framkvæmd er með því að takasýni frá leghálsi og senda til rannsóknar. Við leghálskrabbameinsleit þarftu að fara úr að neðan (buxum og nærbuxum) og setjast í þar til gerðan stól og setja fótleggi í stoðir til að hægt sé að taka sýnið.

Sumum finnst óþægilegt að gera þetta fyrir framan ókunnuga ljósmóður eða lækni en sýnatakan á ekki að valda sársauka og tekur sjaldnast lengur en tvær mínútur. 

Hvað er leghálskrabbamein?

Leghálskrabbamein er krabbamein í leghálsi sem er neðsti hluti legs og gengur niður í leggöng. HPV (Human Papilloma Virus) orsakar leghálskrabbamein. HPV er algengasti kynsjúkdómurinn. Þó flestir smitist einhvern tímann á ævinni af HPV þá fá fæstir einkenni og enn færri leghálskrabbamein. Ef þú mætir reglulega í leghálskrabbameinsleit getur þú nánast komið í veg fyrir að þú fáir leghálskrabbamein. 

Hver er tilgangur leghálskrabbameinsleitar?

Tilgangur leghálskrabbameinsleitar er að finna leghálskrabbamein á forstigi (alvarlegar frumubreytingar) eða frumstigi sjúkdómsins þannig að hægt sé að meðhöndla hann með keiluskurði. Ef sjúkdómurinn er lengra genginn þarf oftast að fjarlægja legið og hann getur hafa dreift sér til nálægra líffæra og eitla. Þá eru líkur á lækningu minni en ef hann greinist á frumstigi eða forstigi. 

Markmið leghálskrabbameinsleitar er að lækka nýgengi (fjöldi nýrra tilfella á ári) og dánartíðni (fjöldi þeirra sem deyja á ári) af völdum leghálskrabbameins. 

Hverjir eru áhættuþættir fyrir leghálskrabbameini?

Viðvarandi eða áframhaldandi sýking með há-áhættu HPV tegund er aðal orsök og áhættuþáttur fyrir leghálskrabbameini. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt að aðrir þættir geta verið samverkandi með HPV og aukið áhættu kvenna á að þróa leghálskrabbamein.

Þessir áhættuþættir eru: 

 • Reykingar 
 • Margir rekkjunautar 
 • Ónæmisbæling, HIV (veiran sem veldur alnæmi), ónæmisbælandi sjúkdómar eða lyf. 
 • Fætt fleiri en þrjú börn. 
 • Notað getnaðarvarnarpilluna í langan tíma (meira en fimm ár).

Hvernig er leghálskrabbameinsleit í nágrannalöndunum?


 • Danmörk: Mælt með frumustroki hjá konum 23-49 ára á þriggja ára fresti og á fimm ára fresti hjá konum 50-64 ára. 
 • Svíþjóð: Mælt með frumustroki hjá konum 23-49 ára á þriggja ára fresti og á fimm ára fresti hjá konum 50-60 ára. 
 • Noregur: Mælt með frumustroki hjá konum á aldrinum 25-69 ára á þriggja ára fresti. 
 • Finnland: Mælt með frumustroki hjá konum á aldrinum 30-60 ára á fimm ára fresti, sum sveitarfélög hefja skimun við 25 ára aldur og til 65 ára aldurs. 
 • Bandaríkin : Mælt með frumustroki hjá konum 21-29 ára á þriggja ára fresti og hjá konum á aldrinum 30-65 ára er mælt með frumustroki og HPV (human papilloma virus) prófi (e. „co-testing“) á fimm ára fresti. 
 • Bretland: Mælt með frumustroki hjá konum á aldrinum 25-49 ára á Englandi, Wales og Norður Írlandi er á þriggja ára fresti og fimm ára fresti hjá konum 50-64 ára. Frá og með 2015 munu sömuleiðbeiningar gilda í Skotlandi.

Var efnið hjálplegt?