Af hverju ristil­krabbameinsleit

Hópleit þýðir að leitað er að krabbameini hjá einkennalausum einstaklingum. Öllum sem eru með einkenni er ráðlagt að leita til læknis. 

Markmið skipulegrar hópleitar að ristilkrabbameini (krabbamein í ristli- og endaþarmi) er annars vegar að lækka dánartíðni af völdum sjúkdómsins með því að finna krabbamein á frumstigum þannig að lækning sé frekar möguleg og hins vegar að lækka tíðni ristilkrabbameins með því að greina og fjarlægja forstig (sepa) sjúkdómsins áður en þau þróast í krabbamein.

Erlendar rannsóknir hafa bent til að skimun fyrir ristilkrabbameini lækki dánartíðni um 15% meðal almennings sem boðið er til skimunar og 25% hjá þeim sem taka þátt í skimun.

Ristilkrabbamein er önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameins á Íslandi líkt og á Vesturlöndum en árlega greinast að meðaltali um 140 einstaklingar hérlendis. Samkvæmt tölum frá Krabbameinsskránni fyrir tímabilið 2010-2014 greindust 7% karla og kvenna undir fimmtugu, 16% á aldrinum 50-59 ára, 24% á aldrinum 60-69 ára, 14% á aldrinum 70-74 ára og 39% eldri en 75 ára. Árlega  látast að meðaltali rúmlega 50 úr sjúkdómnum. Meðalaldur við greiningu ristilkrabbameins er um 70 ár og endaþarmskrabbameins rúmlega 65 ár og er sjúkdómurinn heldur algengari meðal karla en kvenna.

Orök ristilkrabbameins er ofast óþekkt en ofþyngd, kyrrseta, reykingar, neysla á rauðu kjöti og áfengi eru helstu áhættuþættir. Annað sem eykur áhættu enn frekar er fjölskyldusaga um ristilkrabbamein, langvarandi bólgusjúkdómar í ristli og erfanleg heilkenni sem bera með sér miklar líkur á ristilkrabbameini, jafnvel á barnsaldri.

Langflest ristilkrabbamein þróast úr óeðlilegum frumuvexti í slímhúð ristils (sepamyndun) þar sem sumir separnir eru eiginleg forstig.  Um þriðjungur einstaklinga eldri en 50 ára eru líklegir til að vera með slíka sepa. Þeir geta verið hvar sem er í ristlinum og hverfa ekki af sjálfu sér en geta hins vegar þróast á mörgum árum í ristilkrabbamein.

Í upphafi gera heilbrigðisyfirvöld ráð fyrir hópleit að ristilkrabbameini hjá aldurshópnum 60-69 ára með hægðaprófi (svonefnt FIT-próf) sem skimar fyrir blóði í hægðum á tveggja ára fresti. Við jákvæða niðurstöðu verður einstaklingi boðin ristilspeglun hjá viðurkenndum sérfræðingi. Fyrir utan krabbamein getur jákvæð niðurstaða verið vegna sepa, bólgusjúkdóma í ristli eða gyllinæðar, svo dæmi séu nefnd. Síðar eru ráðgert að öllum einstaklingum á aldrinum 50-74 ára verði boðin þátttaka en einstaklingar á þessum aldri eru samkvæmt alþjóðlegum klínískum leiðbeiningum skilgreindir í meðaláhættu að fá sjúkdóminn.

Forsendur krabbameinsleitar er að gagnsemin sé meiri en skaðsemin. Engin rannsókn hefur fullkomið næmi (sensitivity), þ.e. greinir réttilega alla einstaklinga með sjúkdóminn. Engin rannsókn hefur heldur fullkomið sértæki (specificity), þ.e. greinir réttilega alla heilbrigða einstaklinga heilbrigða. Þannig getur rannsókn misst af ristilkrabbameini og þannig gefið svonefnda falskt neikvæða niðurstöðu. Einnig getur niðurstaðan verið fölsk jákvæð, þ.e. að heilbrigðir einstaklingar þurfa að gangast undir frekari rannsóknir og meðferð vegna gruns um krabbamein, oft kallað ofgreiningar og oflækningar. Hjá þessum fórnarkostnaði verður ekki komist vegna þessa að engin rannsókn hefur fullkomið næmi né sértæki en mikilvægt er að þessir vankantar krabbameinsleitar séu öllum þekktir.

Okkarlif

Frekari upplýsingar:

Síðast uppfært í mars 2016.


Var efnið hjálplegt?