„Systur mínar létust úr krabbameini“

Sigríður Thorlacius, söngkona, hefur verið Velunnari Krabbameinsfélagsins í fjölda ára. 

Sigríði þarf vart að kynna. Hún er ein ástsælasta söngkona landsins, þekkt fyrir íðilfagra rödd sína og mikla útgeislun. Sigríður hóf söngferil sinn með Hamrahlíðarkórnum og stundaði söngnám við Söngskólann í Reykjavík. Þekktust er hún líklega fyrir tónlist sína með hljómsveitinni Hjaltalín en hún kemur einnig reglulega fram með fjölda annarra tónlistarmanna. Sigríður hefur hlotið íslensku tónlistarverðlaunin en færri vita að hún leggur góðgerðamálum reglulega lið.

Ég hitti Sigríði á kaffihúsi í miðborginni skammt frá heimili hennar á gráum rigningardegi í ágúst. Það birtir yfir þegar hún gengur inn á staðinn með regnhlífina í hendi og klæðir sig úr blautri kápunni. Það er einhver léttleiki og æðruleysi sem fylgir henni.

Sigríður er nýkomin úr tónleikaferðalagi um landið með hljómsveitinni GÓSS sem hún skipar ásamt Sigurði Guðmundssyni og Guðmundi Óskari. Tónleikaferðalagið hófst rétt eftir að fyrra samkomubanni sumarsins lauk og endaði áður en hið síðara byrjaði. Það er óvissa hjá tónlistarfólki þessa dagana: 

„Við vorum fáránlega heppin að ná að fara hringinn á milli samkomubanna. Síðustu tónleikarnir voru á mánudegi og hertar reglur tóku gildi á miðvikudegi. Staðan er þannig að við vitum ekkert hvað verður næstu mánuði. Á þessum árstíma er fólk byrjað að skipuleggja jólatónleika en við vitum ekkert hvort af þeim verður. Ég var líka búin að melda mig í leikhúsverkefni eftir áramótin en maður veit ekki hvort leikhúsin verða opin. Það er svo mikil óvissa. Kannski er þetta samt ágætt fyrir okkur sem erum alltaf með eitthvað skipulagt. Það gæti verið hollt að losa aðeins um og lifa meira í núinu, þótt það sé auðvitað erfitt ef fólk er að burðast með fjárhagsáhyggjur.“

Talið berst að hlutverki hennar sem velunnara Krabbameinsfélagsins og hvernig það kom til að hún gekk til liðs við þann dygga stuðningshóp félagsins. „Líklegast hef ég bara fengið símtal frá góðri manneskju sem hitti á mig á góðum degi en auðvitað á ég sterka tengingu við systur mínar sem létust báðar úr krabbameini. Þannig að málefnið stendur mér nærri.“

Sigríður er yngst fimm systra. Hún bjó fyrstu æviárin í Hlíðunum en flutti svo í Laugarneshverfið þar sem foreldrar hennar búa enn. Veikindi elstu systur hennar, Ingileifar, hófust þegar Sigríður var á unglingsárum.

„Hún fékk heilablóðfall og barðist við veikindin í 13 ár sem ekki var vitað með vissu hver voru. Síðan kom í ljós staðbundið æxli í höfði sem var fjarlægt en svo uppgötvast illkynja æxli sem ekkert var hægt að gera við. Ég var 28 ára þegar hún lést árið 2010.“ Ingileif var myndlistarkona, fædd 1961, 49 ára gömul. Hún lét eftir sig unglingsdóttur sem fjölskylda Sigríðar reyndi eftir megni að styðja eftir fráfall móðurinnar.

„Þremur árum síðar verðum við vör við persónuleikabreytingar hjá Sollu systur minni, sem er næst á undan mér í aldri, fædd 1971. Við þekktum strax einkennin og í ljós kom að hún var með æxli í heila. Hennar veikindasaga var allt önnur en Ingu því Solla fór mjög hratt. Þetta var innan við ár sem hún var að berjast við veikindin og hún var aðeins 43 ára gömul þegar hún dó.“ 

Það var erfið upplifun fyrir fjölskylduna að horfa upp á systurnar missa skilning og hæfni til að sjá um sig sjálfar. Foreldrar þeirra reyndu eftir megni að annast þær í veikindunum og fluttu þær heim til sín en að lokum var Inga flutt á elliheimilið Grund.

„Þær urðu einfaldar eins og börn og fyrir okkur var upplifunin máttleysi. Foreldrar okkar voru orðnir fullorðnir en báru hitann og þungann af þessu og það er í raun undarlegt að hugsa til þess að eina úrræðið fyrir ungt fólk með einhvers konar heilaskaða skuli hafa verið stofnun fyrir eldra fólk. Solla systir fór reyndar aldrei inn á slíka stofnun en við vorum farin að leita að varanlegu úrræði fyrir hana áður hún lést á líknardeild.“

Styður þrjú málefni í hverjum mánuði

Auk þess að styðja Krabbameinsfélagið mánaðarlega er Sigríður heimsforeldri og situr í stjórn Unicef: „Þessi tvö málefni eru föst hjá mér en svo skipti ég þriðja málefninu reglulega út og læt það rúlla í smá tíma. Auðvitað vildi ég geta sagt já við alla sem hringja en maður getur ekki styrkt allt. Maður þarf hins vegar að vera ansi kaldur til að segja alltaf nei,“ segir hún brosandi. 

„Ég er meðvituð um hvað það skiptir miklu máli fyrir félögin að hafa fastar tekjur og að þurfa ekki að reiða sig á fjáröflunarátök öðru hvoru. Ég geri mér líka grein fyrir vinnunni á bak við hvern styrktaraðila. Þetta eru mörg símtöl. Einhverjir hætta og nýir koma inn. Svo þarf að hringja aftur til að minna á sig og hækka framlagið örlítið. Þetta er mikil vinna en rosalega mikilvæg fyrir félögin.“

Geggjað að labba

Þeir sem fara reglulega í miðbæinn gætu hafa séð Sigríði gangandi eða á hjóli um borgina en hún fer flestra sinna ferða gangandi. „Enda kann ég ekki á bíl. Ég vildi óska að ég gæti sagt að það væri af hugsjón, umhverfissjónarmiðum eða eitthvað annað en ég bara nennti ekki bílatímunum og hætti. Svo liðu árin. Mér finnst hins vegar geggjað að geta labbað á milli staða, hvort sem er í rigningu eða ekki. Maður klæðir sig bara eftir veðri og svo tek ég leigubíl einstaka sinnum ef á þarf að halda. Fólk sem er vant að fara alltaf á bíl hugsar tímann öðruvísi. Það stekkur af stað með korters fyrirvara en ég legg kannski af stað klukkutíma fyrr. Svo finnst mér gott að labba ef ég er kvíðin. Það hreinsar hugann og gefur mér ró.“

Það er að líða að lokum spjallsins og Ásta Kristjánsdóttir ljósmyndari er komin. Hún ætlar að smella nokkrum myndum af Sigríði og stefnan er sett á Skólavörðustíginn. Áður en við löbbum af stað segist Sigríður vona að framlag hennar skipti máli: „Ég veit að félagið tekur ákvörðun um hvar peningarnir mínir koma sér best. Ég þarf ekki að hafa skoðun á því hvenær er betra að kaupa einhver tæki eða fara í ákveðin verkefni. Ég hef ekki þekkingu á hvað skiptir mestu máli hverju sinni, það gera þeir sem stjórna félaginu og ég treysti þeim. Auðvitað þætti mér svo frábært ef einhvern tímann yrði til hentugur staður fyrir fólk í sömu stöðu og systur mínar, þó svo að það sé ekki ástæðan fyrir stuðningi mínum.“

Viðtal: Sigríður Sólan Guðlaugsdóttir
Ljósmyndir: Ásta Kristjánsdóttir

Sigríður er í hópi 16.543 velunnara Krabbameinsfélagsins sem bera uppi starf félagsins um allt land árið um kring. Framlag þeirra er ómetanlegt fyrir starf félagsins. Þú getur gerst velunnari á Krabb.is eða hringt í síma 540 1926.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins veturinn 2020-2021.