Að tala við börn um krabbamein
Eitt af því erfiðasta sem blasir við foreldrum þegar fjölskyldumeðlimur greinist með krabbamein er að ákveða hvað eigi að segja börnunum. Óttinn við að valda þeim áhyggjum og uppnámi verður oft til þess að foreldrar veigra sér við að segja þeim fréttirnar.
Mikilvægt er að hafa í huga að jafnvel lítil börn eru fljót að skynja þegar eitthvað er að. Ef þau fá ekki að heyra sannleikann geta þau því ímyndað sér hlutina verri en þeir í raun eru eða álitið að þau hafi gert eitthvað rangt. Að eiga þetta samtal við börnin er ekki auðvelt en þó nauðsynlegt. Mikilvægt er að hafa í huga að þú þekkir þitt barn best. Hér á eftir eru nokkur atriði sem gætu hjálpað í samtalinu.
Nokkur ráð:
- Talaðu skýrt og notaðu orð sem barnið á auðvelt með að skilja. Þörf fyrir nánari útskýringar gæti verið meiri, því eldra sem barnið er. Notaðu orðið krabbamein. Kannski viltu ekki segja barninu allt að svo stöddu – treystu dómgreind þinni.
- Ræddu það sem er framundan og hvernig eigi að meðhöndla krabbameinið.
- Reyndu að svara spurningum eins hreinskilnislega og þú getur. Það er allt í lagi að segja að þú vitir ekki svarið.
- Það er mikilvægt að barnið fái að heyra að krabbameinið er engum að kenna og að læknirinn er að gera sitt besta. Barnið þarf líka að vita að það er ekkert sem það getur gert til að láta krabbameinið hverfa.
- Mikilvægt er að fullvissa sig um að barnið viti að krabbamein er ekki smitandi.
- Láttu barnið vita að það sé eðlilegt að finna fyrir alls konar tilfinningum og að þú finnir fyrir þeim líka. Segðu því að það þurfi ekki að hlífa foreldrum sínum og að þú viljir vita þegar því líður illa.
- Gott er að barnið viti að það er alltaf einhver sem verður til staðar til að hugsa um það í veikindunum.
- Segðu barninu að dagleg rútína þess haldist óbreytt og að áfram megi leika sér, hlæja og hafa gaman.
- Mundu að þú ert að gera þitt besta.
Var efnið hjálplegt?
Gott að vita, takk!