Kosningar 2018

Stefna framboða í forvörnum gegn krabbameinum

Aðildarfélög Krabbameinsfélagsins um land allt hafa sent framboðum í sínum umdæmum fyrirspurn um stefnu í málefnum sem snúa að forvörnum gegn krabbameinum. Óskað er eftir svörum við því hvernig framboðin hyggist vinna að því að efla lýðheilsu og skorað á sveitarstjórnir að stuðla að því að:

  • banna reykingar á opinberum svæðum sveitarfélaga
  • hvetja til betri nýtingar svæða sem ætluð eru til hreyfingar og útivistar
  • hvetja til frekari hreyfingar hjá börnum með því að gefa hreyfingu meira vægi í skólastarfi
  • bjóða upp á hollan mat í leik- og grunnskólum og mötuneytum á vegum sveitarfélaganna
  • auðvelda einstaklingum sem búa við þröngan efnahag að stunda fjölbreytta hreyfingu 

Svör þeirra framboða sem sent hafa svör við fyrirspurn aðildarfélaganna má sjá hér að neðan og eru þau birt eftir landshlutum.

Hér er hægt að taka þátt í undirskriftasöfnun og skora á yfirvöld að vinna að forvörnum gegn krabbameinum.

Suðurnes

Reykjanesbær: Bein leið

Bein leið er mjög stolt af því að á síðastliðnu kjörtímabili varð Reykjanesbær heilsueflandi samfélag sem felur í sér að markvisst verði unnið að fjölþættri heilsueflingu íbúa bæjarins. Ljóst er að margsháttar forvarnir ungmenna eru unnar í Reykjanesbæ í gegnum leik- og grunnskóla og íþróttir og tómstundir og rannsóknir sýna að hverskonar neysla ungmenna hefur farið lækkandi síðustu misserin. Bein leið hefur hins vegar sett forvarnir á oddinn og telur að enn megi bæta í hvað forvarnir varðar og mikilvægt er að styrkja verkefnið um heilsueflandi samfélag enn betur í sessi. 

Bein leið hefur sett það á sína stefnuskrá að ráða forvarnarfulltrúa til Reykjanesbæjar sem myndi hafa það hlutverk að efla enn frekar forvarnir hvað varðar líkamlega, andlega og andlega heilsu íbúa. Bein leið gerir sér grein fyrir mikilvægi hreyfingar og útiveru í heilsueflingu einstaklinga og hefur þannig sett á sína stefnuskrá að fjölga grænum svæðum til útiveru. Þá er einnig mikilvægt að öll börn stundi hreyfingu af einhverju tagi en við viljum skoða lausnir sem miða að því að auðvelda börnum að stunda íþróttir á skólatíma, eða m.ö.o. að gefa hreyfingu meira vægi innan skólastarfsins. 

Hvað næringu varðar eru þó nokkrir leikskólar í Reykjanesbæ sem eru heilsueflandi ásamt því að framhaldsskólinn er það líka. Allir grunnskólar okkar fullelda matinn í skólunum og við samninga á skólamáltíðum var gerð krafa um næringarviðmið og manneldismarkmið. Frambjóðendur Beinnar leiðar gera sér þó ljóst að mikilvægt er að skoða forvarnir heildstætt, þ.e. með sjónarmiðum fjölþættrar heilsueflingar fyrir alla íbúa bæjarins.

Fh Beinnar leiðar,
Helga María Finnbjörnsdóttir

Reykjanesbær: Framsóknarflokkurinn

Sæl veriði hjá Krabbameinsfélaginu á Suðurnesjum. Við Framsóknarmenn eru með mjög skýra stefnu hvað varðar forvarnir og heilsueflingu enda er ég menntaður lýðheilsufræðingur og sit í stjórn félags lýðheilsufræðinga á Íslandi. Þið hafið því sterkan bandamann hjá bænum nái ég kjöri. 

Ykkar spurningar: 

  • banna reykingar á opinberum svæðum sveitarfélaga
  • hvetja til betri nýtingar svæða sem ætluð eru til hreyfingar og útivistar
  • hvetja til frekari hreyfingar hjá börnum með því að gefa hreyfingu meira vægi í skólastarfi
  • bjóða upp á hollan mat í leik- og grunnskólum og mötuneytum á vegum sveitarfélaganna
  • auðvelda einstaklingum sem búa við þröngan efnahag að stunda fjölbreytta hreyfingu 

Hér koma okkar svör: 


Skipa lýðheilsunefnd Reykjanesbæjar og festa heilsueflingu eldri borgara í sessi

Fyrst skal nefna að Reykjanesbær er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi samfélag. Markmið verkefnisins er að heilsa og líðan einstaklinga sé í fyrirrúmi í stefnumótun á öllum sviðum bæjarins. Stöðug áhersla er lögð á að bæta bæði hið manngerða og félagslega umhverfi sem og draga úr tíðni og afleiðingum lífstílstengdra sjúkdóma með margvíslegu forvarnar- og heilsueflingarstarfi.

Áætlað er að 70-80% af kostnaði til heilbrigðismála í Evrópu megi rekja til langvinnra lífstílstengdra sjúkdóma. Þróa og staðfæra þarf svokallað lýðheilsumat til þess að meta hugsanleg bein og óbein áhrif tiltekinna stjórnvaldsaðgerða á lýðheilsu.

Hugsa þarf almenningssamgöngur, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, félagslega þjónustu, forvarnir, öryggi, aðbúnað eldri borgara, skólasamfélagið, æskulýðs- og íþróttastarf auk hönnunar og skipulags útfrá þessum forsendum.

Hamingjustuðull íbúa á Suðurnesjum hefur mælst hár í lýðheilsuvísum Embættis landlæknis á meðan virkur ferðamáti til og frá vinnu eða skóla fullorðinna er helmingi lægri en á landsvísu. Streita fullorðinna á svæðinu mælist yfir meðaltali og fleiri íbúar meta líkamlega og andlega heilsu sína verri hér en annar staðar á landinu. Við þessu þarf að bregðast með því að móta og innleiða lýðheilsustefnu fyrir Reykjanesbæ og aðgerðaráætlun í kjölfar hennar.

Tryggja þarf stuðning og fjármagn og efla samvinnu sveitarfélaga á Suðurnesjum á þessu sviði. Fjölga þarf heilsueflandi skólum og festa í sessi heilsueflingu eldri borgara en þátttaka þeirra í rannsóknarverkefni Dr. Janusar Guðlaugssonar hefur gefið góða raun. Reykjanesbær á að hafa frumkvæði að því að ráðinn verði lýðheilsufræðingur á vegum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, sem styður við heilsueflandi samfélög á Suðurnesjum. Með ráðningunni má samþætta verkefni, nýta sérþekkingu og efla áherslu á lýðheilsu á svæðinu í heild.

Það er áhygguefni að lífaldur kvenna á Reykjanesi skuli vera marktækt styttri en annarstaðar á landinu. B-listinn vill að ástæður þessarar útkomu séu kannaðar af fagaðilum á vegum heilbrigðsyfirvalda. Brýnt er að rannsaka hvaða ástæður búa að baki svo hægt sé að bregðast við með aðgerðum.


Íþrótta- og frístundaskóli Reykjanesbæjar – jöfn tækifæri til íþróttaiðkunar

Rannsóknir sýna að börn sem taka þátt í íþróttastarfi líður betur, eru heilsuhraustari og sýna betri námsárangur. Óformleg könnun, sem samráðshópur um heilsueflandi samfélag lagði fyrir, sýndi að þátttaka barna í íþróttastarfi Reykjanesbæjar er misjöfn eftir skólum eða um 66% að meðaltali. Börn sem búa á Ásbrú voru langt um ólíklegri til þess að stunda skipulagt íþróttastarf en um 45% þeirra tóku þátt í íþróttaiðkun.

Leiða má líkum að því að fjárhagur íbúa skipi stórann sess í því hvort börn stundi íþróttir. Lengi býr að fyrstu gerð og því mikilvægt að komið sé til móts við sem flesta svo hægt sé að tryggja það að öll börn fái sama tækifæri til þess að þroskast og dafna.

B-listinn leggur til að bæjarfélagið skoði möguleikana á stofnun Íþróttaskóla í samstarfi við íþróttafélögin þar sem öllum börnum á aldrinum 6 – 10 ára sé gefinn kostur á þátttöku undir handleiðslu íþróttakennara og þjálfara. Hægt væri að skoða rekstur hans í tengslum við Frístundaskóla.

Til fjármögnunar færu hvatagreiðslur auk þess sem sanngjarnt gjald væri fyrir hvert barn. Markmiðið væri að veita börnum sömu tækifæri til íþróttaiðkunar, lækka kostnað heimila og auka hreyfiþroska og hreyfigetu barna. Sé samstarfsgrundvöllur fyrir hendi um það að koma Íþróttaskóla Reykjanesbæjar á laggirnar tæki bæjarfélagið stórt skref í átt að bættri lýðheilsu barna. Samstarf við íþróttafélögin gæti dregið úr þjálfarakostnaði og minnkað álag á íþróttamannvirki á annatíma. Börn vilja skemmtilega hreyfingu eftir skólatíma og íþróttskólinn gæti verið heildstætt úrræði sem allir njóta góðs af, náist samstaða um slíka leið.

Bætt aðstaða til útivistar í nærumhverfinu

B-listinn vill efla nýtingu gamalla leikvalla sem margir hverjir bjóða uppá mikil tækifæri til útivistar og samveru. Leikvellir eru oft staðsettir inni í miðjum íbúahverfum en sumum þeirra hefur nánast ekkert verið haldið við og þarf að bæta þar úr á næstu árum.

B-listinn vill endurnýta þessi svæði, koma upp útigrillum og leiktækjum eins og aparólum, svo eitthvað sé nefnt. Einnig vill B-listinn nýta tæknina og setja upp eftirlitsmyndavélar við útivistarsvæði þar sem börn eru að leik. Eftirlit dregur úr líkum á skemmdarverkum og eykur öryggi barna.

Allt sem við gerum í öðrum málaflokkum styður við velferð okkar og hamingju. Þó eru ýmis mál sem snúa beinlínis að velferð og heilbrigði íbúanna og þau eru okkur gríðarlega mikilvæg. Líkamlegt og andlegt heilbrigði er undirstaða hamingjuríks lífs og við megum ekki gleyma til hvers allt þetta er: svo við getum notið lífsins með þeim sem okkur þykir vænt um. 

Tíðni reykinga á Suðurnesjum er sú hæsta á landinu. Þessi staðreynd er mikið áhyggjuefni. Reykjanesbær á að ganga fram með góðu fordæmi og banna allar reykingar á opinberum svæðum bæjarins sé þess kostur. 

Samstarf Reykjanesbæjar og Krabbameinsfélagsins 

Finna má marga jákvæða fleti á frekara samstarfi Reykjanesbæjar og Krabbameinsfélags Suðurnesja. Í þeim efnum gæti bærinn og félagið tekið höndum saman varðandi krabbameinsleit en færri konur skila sér í krabbameinsskoðun hér en gerist og gengur í öðrum landshlutum. 

Það er hagur bæjarins, eins og áður sagði, að íbúar hans séu heilsuhraustir en til þess þurfa bæjaryfirvöld að setja sér skýra stefnu. Raunhæf nálgum okkar á forvarnir og heilsueflingu mun koma í veg fyrir lífstílstengda sjúkdóma í framtíðinni og tryggja börnunum okkar betra líf er fram líða stundir. 

Saman þurfum við að tryggja velferð og heilbrigði íbúa Reykjanesbæjar.  Við getum gert það!

Meðfylgjandi er slóð á öll okkar stefnumál. 

Bestu kveðjur, Jóhann Friðrik Friðriksson, oddviti B-listans í Reykjanesbæ 

https://www.vidgetum.is/framtidarsyn/

Reykjanesbær: Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn leggur mikla áherslu á forvarnir og lýðheilsumál í sinni stefnuskrá. Við viljum sérstaklega hvetja til heilbrigðra lífshátta með betri nýtingu grænna svæða til hreyfingar og útivistar. Við viljum hvetja til frekari hreyfingar hjá börnum og gefa hreyfingu miklu meira vægi í skólastarfi. Þetta má allt og miklu meira lesa í stefnuskrá okkar:

Græn útivistarsvæði.

Við viljum kanna kosti þess að ráðast í ódýr en vel útfærð umhverfisverkefni í samstarfi við tengda aðila á eftirfarandi stöðum:

  • Rósaselsvötn
  • Vatnsholt
  • Njarðvíkurskógar
  • Paradís við Grænásbrekku
  • Seltjörn
  • Keflavíkurhöfn
  • Svæði fyrir hundaeigendur
  • Skíðabrekka fyrir krakkana  með færibandalyftu á Ásbrú
  • Klára skal göngustíga og setja  upp leiksvæði í Innri Njarðvík

Aftur frítt í strætó frá hausti 2018

Fyrir þremur árum var frítt í strætó í Reykjanesbæ, þá var talið bæði skynsamlegt og öruggt að börnin nýttu sér þessa samgönguleið, í stað skutls foreldranna sem gerir þetta einnig að umhverfismáli. Við þekkjum að bærinn er langur og íþróttir og afþreyingu þarf stundum að sækja lengra.

Íþróttir fyrir öll börn í Reykjanesbæ

Reykjanesbær er stoltur af því að vera íþróttabær. En samt er staðreyndin sú að of mörg börn fara á mis við íþróttir í bænum okkar og þar með þær mikilvægu forvarnir sem íþróttastarf er. Við viljum leggja fram lausn á þessu og huga þannig að forvörnum til framtíðar. Flestir foreldrar hér þekkja að Reykjanesbær var frumkvöðull á meðal sveitarfélaga að bjóða „gjaldfrjálsa tónlistarkennslu“ fyrir öll börn í 1. og 2. bekk. 

Samvinna Frístundaheimila og íþróttafélaga

Íþróttafélögin hafa innan sinna raða frábæra þjálfara. Við teljum að hægt sé að bjóða uppá íþróttastarf á frístundaheimilum í samvinnu við íþróttafélögin og gæti bærinn þannig aðstoðað íþróttafélögin enn frekar við launagreiðslu þjálfara. Möguleiki væri á að nýta aðstöðu sem er við skólana í þetta starf.  Almennt frístundastarf yrði að einhverju leyti áfram en hluti væri boð til barnanna að stunda íþróttir eftir langan skóladag. Þannig náum við einnig til heildarinnar sem skiptir ekki síður máli í okkar fjölmenningarsamfélagi.

Við höfum þegar reifað  þessar hugmyndir við nokkra skólastjórnendur og íþróttafélög og yrði útfærslan alltaf unnin í samstarfi við þessa aðila. Við munum hefjast handa við undirbúning strax í sumar ef við fáum stuðning til. Með þessu átaki fjölgum við iðkendum og eflum skólana.

Framtíðarsýn í aðstöðu íþrótta

Við viljum fara í stefnumótun með íþróttafélögunum til framtíðar þegar kemur að aðstöðumálum íþrótta í Reykjanesbæ. Það þarf að bæta aðstöðuna hjá Keflavík og aðstöðuleysi UMFN er ekki viðunandi. Fáum við til þess stuðning munum við finna lausnir í þeim efnum og það verður best gert í samstarfi við íþróttafélögin sjálf. Við stefnum að því að fjölga sparkvöllum/íþróttavöllum í hverfum bæjarins og gera endurbætur á völlum sem fyrir eru. Einnig leggjum við aukna áherslu á að fjölga iðkendum, sér í lagi að hjálpa nýjum bæjarbúum að finna sér íþrótt við hæfi.

Tæki og tól í lagi

Stefnt verður að því að koma tækjum og tólum íþróttadeilda í lag. Við stefnum að því að greina þörfina og forgangsraða eftir því hvar þörfin er mest.

88 húsið

Standa þarf vörð um 88 húsið. Starfsfólk 88 hússins er að vinna frábært starf og auka þarf stuðning til þess að fjölga börnum og auka viðveru þeirra í húsinu.

Tómstundakringla

Kannaðir verða möguleikar á tómstundakringlu fyrir ýmsar jaðaríþróttir s.s. pílukast, pútt, keilu, ballskák o.fl.

Tómstundir bæta heilsu

Rannsóknir sýna að skipulagðar tómstundir koma í veg fyrir ótal sjúkdóma og kvilla, bæði andlega og líkamlega. Með þátttöku í tómstundastarfi fullnægjum við bæði félagslegum og andlegum þörfum svo og hreyfiþörf okkar. Það á við um allan aldur. Það er því ekki bara hollt og skynsamlegt að leggja áherslu á íþrótta- og tómstundastarf, það er líka þjóðhagslega hagkvæmt.

Tómstundir eldri borgara

Í samstarfi við Félag eldri borgara viljum við bæta tómstundastarf eldri borgara og virkja þá betur til þátttöku. Við viljum líka tengja betur saman unga sem aldna í tómstundastarfi, t.d. í tónlist, spilamennsku, skák og skógrækt. Slíkt starf kennir okkur á leyndardóma lífsins og stuðlar að forvörnum. Í því felast möguleikar að eldri borgarar geti miðlað af reynslu sinni með unga fólkinu. Svo er líka endalaust hægt að kenna fólki að leika sér – „fögur sál er ávallt ung undir silfurhærum.“

Líðan barna og unglinga

Vellíðan og trú á eigin getu hefur bein áhrif á árangur. Sá sem finnur fyrir vanlíðan er ekki að lifa styrkleika sína og nær því ekki þeim árangri sem hann annars gæti. Það er því samfélagsleg ábyrgð sveitarfélaga að huga vel að líðan nemenda í skólastarfinu. Okkar stefna er að leggja áherslu á starfsgleði, vellíðan, forvarnir og heilsueflandi starfsumhverfi í öllum skólum. Við viljum auka aðgengi að fagaðilum í geðheilbrigðismálum í skólum bæjarins og stuðning og fræðslu til foreldra.

Alltaf heitt og hollt

Við munum áfram tryggja að í grunnskólum Reykjanesbæjar verði boðinn hollur og fjölbreyttur matur á hagkvæmu verði fyrir alla nemendur.

Frístundaheimili

Við ætlum að leggja áherslu á markvissa starfsáætlun og faglegt starf á frístundaheimilum með fagmenntuðu starfsfólki. Við viljum stuðla að markvissri hreyfingu fyrir öll börn á frístundaheimilum.

Byggjum upp jákvæða ímynd

Við viljum byggja upp jákvæða ímynd HSS. Við viljum sjá miklu meiri metnað í rekstri stofnunarinnar og við viljum draga fram það sem vel er gert og koma því á framfæri. Við viljum endurmeta framtíðarsýn HSS í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld. Við viljum í samvinnu við Landspítala Háskólasjúkrahús leita leiða til að nýta skurðstofu HSS og aðstöðu sem þegar er til staðar á legudeildum. Það bætir ímynd HSS og eykur tengsl hennar við Háskólasjúkrahúsið.

Heildstæð þjónusta

Við viljum leggja ríka áherslu á öfluga velferða- og heilbrigðisþjónustu með því að veita heildstæða þjónustu þar sem ríki og sveitarfélög vinna saman að sameiginlegu markmiði. Við viljum samþætta nærþjónustuna, eins og félags- og heilbrigðisþjónustuna. Fella undir eina stjórn heimahjúkrun og heimaþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu á vegum sveitarfélaga og sálfræðiþjónustu heilbrigðisstofnunnar. Við ætlum að vera leiðandi í að styðja og efla heilbrigðisstofnunina. 

Reykjanesbær: Frjálst afl

Við hjá Frjálsu afli leggjum áherslu á lýðheilsu íbúa bæjarins Forvarnir eru mikilvægur hlekkur. Gera þarf kröfur til betra eftirlits og í því tilliti þarf að gera kröfu á ríkið að bæta heilsugæsluna svo hún geti sinnt því hlutverki.  Þá þurfum við að leita leiða til að hvetja ungar konur að mæta í leit.

Einn er sá hópur sem við höfum sérstakar áhyggjur af en það er eldri borgarar bæjarins. Æ fleiri ná hærri aldri og eru heilbrigðari. Við teljum það mjög sérstakt að hjá konum sé allri leit hætt við 69 ára aldur og 75 ára aldur hjá körlum. Þetta er gert meðan rannsóknir sýna að algengi krabbameins minnkar ekki með auknum aldri og að helmingur alls krabbameins sem greinist á ári hverju á Íslandi, greinist eftir að 65 ára aldri er náð. Þessu verðum við að breyta.  

Þá viljum við huga sérstaklega að þeim hóp sem er að ljúka krabbameinslyfjameðferð. Styðja þann hóp og styrkja til að eiga afturkvæmt út í lífið.

Reykjanesbær: Píratar

Píratar eru með mjög skýra stefnu um heilbrigðismál þar sem kallað er eftir langtíma heilbrigðisáætlun ríkisins þar sem hlutdeild forvarna, velferð sjúklinga og annarra þjónustuþega eru meginmarkmið. Þar skulu meðferðarúrræði og sjúkraendurhæfing vera skipulögð fram í tímann. Í þessari stefnu eru forvarnir gegn krabbameinum kyrfilega staðsettar ásamt öllu öðru sem hrjáir íslendinga. 

Í stefnu Pírata á Suðurnesjum höfum við ákveðið að stefna að því að sveitarfélögin á Suðurnesjum yfirtaki rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og reksturinn endurskipulagður með þarfir heimamanna í huga, þar með talið forvarnir, heilsugæslu, meðferðir og sjúkraþjónustu. 

kv.
Albert Svan
Ritari Pírata á Suðurnesjum

Reykjanesbær: Vinstri grænir

Ætli stytting vinnuvikku sé ekki einhver besta forvörnin gegn krabbameini - og mörgum öðrum sjúkdómum - fyrir utan það hvað foreldrar og börn yrðu glöð?

Garður/Sandgerði: J-listinn

J-listinn vill stuðla að því að nýtt sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis verði heilsueflandi samfélag og hlúi vel að líkamlegri og andlegri heilsu íbúa. Heilsueflandi samfélag miðar að því að hafa áhrif á lífsstíl fólks og skapa umhverfi sem styður fólk til þess að lifa heilsusamlegu lífi. Það felur einnig í sér að efla heilbrigði með því að skapa fólki aðstæður sem gera einstaklingum og samfélaginu kleift að auka hreysti og efla vitund og vilja til að viðhalda heilbrigði. Það skiptir til dæmis máli að stuðlað sé að heilbrigðum lífsstíl í skólum og tómstundastarfi. Einnig þarf aðstaða til íþróttaiðkunar að vera góð fyrir ólíka hópa og hægt að stuðla að fræðslu, forvörnum og hvatningu fyrir íbúa á öllum aldri.

Þessu ætlar J-listinn að ná fram, meðal annars með eftirfarandi:

  • Vinna lýðheilsu- og forvarnastefnu fyrir sveitarfélagið
  • Hlúa vel að íþrótta- og tómstundaiðkun fyrir alla aldurshópa og bjóða upp á fjölbreytta starfsemi með aðgengi fyrir alla
  • Bjóða upp á hvatastyrki til íþrótta- og tómstundaiðkunar fyrir börn til 18 ára aldurs
  • Gefa út samfélagskort fyrir íbúa sveitarfélagsins sem veitir frían aðgang að sundlaugum
  • Byggja upp heilsueflandi göngustíga með æfingastöðvum og leiðbeiningum
  • Endurskoða opnunartíma íþróttamiðstöðva með það að sjónarmiði að auka þjónustu
  • Styðja áfram vel við íþróttafélög í sveitarfélaginu
  • Vinna að frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja
  • Bjóða íbúum upp að aðstöðu til matjurtaræktunar
  • Fjölga göngustígum

Grindavík: Samfylkingin

Okkar markmið er að Grindavík taki af fullum krafti þátt í að vera heilsueflandi samfélag, sem felur í sér að skapa aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum og vellíðan allra íbúa, líkamlega og andlega. 

  • Vinnum að heilsueflingu allra aldurshópa og nýtum til þess stórkostleg útivistarsvæði Grindavíkur. 
  • Setjum meira fjármagn til forvarnarmála og mætum betur þörfum fólks með fjölþættan vanda. 
  • Svörum kalli tímans með aukinni áherslu á bætta geðheilsu, vellíðan og geðrækt í Grindavík, sérstaklega á meðal ungs fólks. 
  • Aukum sálfræðiþjónustu og eflum markvissa vinnu gegn kvíða barna og ungmenna í skólum bæjarins þar sem snemmtæk íhlutun er lykilþáttur. 
  • Við viljum leggja áherslu á og förum fram á það við heilbrigðisyfirvöld að hér í bæ verði ætíð og alla daga tveir læknar á vakt á heilsugæslunni ásamt því að sálfræðingur hafi fasta viðveru.

Grindavík: Rödd unga fólksins

Í stefnuskrá Raddar unga fólksins viljum við framfylgja þeirri stefnu sem er fyrir um heilsueflandi samfélag á grindavik.is

Reykjavík

Miðflokkurinn

Stefnumál Miðflokksins

Heilbrigðismál

Við ætlum að byggja nýjan spítala á betri stað og búa þannig til aðalaðandi vinnustað sem stuðlar að betri líðan sjúklinga

Við ætlum að auka forvarnir sérstaklega því þær eru besta sparnaðarráðið í heilbrigðiskerfinu

Lýðheilsa og forvarnir

Við ætlum að halda áfram með það lýðheilsustarf sem hófst með stofnun ráðherranefndar um lýðheilsu 2014

Við ætlum að að auka jöfnuð til heilbrigðis, vellíðunar, öryggis og aðbúnaðar alla Íslendinga frá vöggu til grafar. Almenningur verði meðvitaður um ábyrgð á eigin heilsu

Við ætlum að að efla fræðslu til foreldra um heppilegar uppeldisaðferðir sem byggja á gagnreyndri þekkingu um viðbrögð við hegðun barna og unglinga. Þannig verður hægt að hafa áhrif á heppilegan lífsstíl, hreyfingu, mataræði, slökun og sporna við lífstílstengdum sjúkdómum

Við ætlum að efla lýðheilsustarf á vinnustöðum, sem setji sér lýðheilsustefnu og framkvæmdaáætlun þannig að allir starfsmenn búi við lýðheilsusamlegt vinnuumhverfi

Við ætlum að auka framlög til forvarna í samstarfi við íþróttahreyfinguna og frjáls félagasamtök

Við ætlum að bjóða upp á gjaldfrjálsar hollar máltíðir í grunnskólum borgarinnar.

Miðflokkurinn tekur því í öllu undir áskorun sem framboðinu barst frá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur. 

Höfuðborgarlistinn

SifStefna Höfuðborgarlistans varðandi málefni sem tengjast félaginu.

Banna reykingar á opinberum svæðum sveitarfélaga. Við erum hlynnt banni á reykingum á opinberumstöðum borgarinnar. 

Hvetja til betri nýtingu svæða til útivistar og hreyfingar. Við viljum að Reykjavík sem Höfuðborg landsins sé í fararbroddi of fari ákaft fram í að gera grænsvæði meira aðlaðandi og hvetjandi sem myndi stuðla að meiri hreyfingu, útivist og betri lífsgæðum fyrir íbúa Reykjavíkur. Við eigum að nýta það sem við höfum þ.e. núverandi sundlaugar, Elliðaárdalinn, ylstöndina og Öskjuhlíð. Við eigum fallega staði sem umlykja okkur hér í Reykjavík, ég vil fegra þessa staði enn frekar gera þá meira aðlaðandi fyrir börn og fullorðna. 

Styrkjum þá innviði sem við erum með nú þegar. Bjóða börnum í skólum borgarinnar hollari mat og aukna hreyfingu. Höfuðborgarlistinn er eina framboðið sem er með það á sinni stefnuskrá að fara tafarlaust í það eftir kosningar, fái ég til þess umboð að auka gæði matar í skólum leikskólum og fyrir eldri borgara með næringargildi og hollustu að leiðarljósi. Auk þess viljum við að nemendur stundi hreyfingu/íþróttir í skólum alla daga og fari í sturtu á eftir. Það þýðir það að nemendur eru tilbúnir að takast á við daginn sem eykur lísgæði þeirra og styrk. 

Auðvelda einstaklingum sem búa við þrönganefnahag að stunda fjölbreytta hreyfingu. Íbúar í Reykjavík eiga að hafa óhindraðan aðgang óháð  efnahag,  hreyfing í hvaða formi sem hún er stuðlar að bættri heilsu og andlegu jafnvægi. Það er ljóst að ef við hlúum að okkar íbúum og vinnum að sameiginlegum markmiðum um heilsu og lífstíl borgarbúa að það leiðir til meiri hamingju og árangurs. 

Áfram Reykvíkingar. 

Höfundur er borgarstjóraefni Höfuðborgarlistans. Björg Kristín Sigþórsdóttir

Flokkur fólksins

Flokkur fólksins er sammála tillögum ykkar. Þetta eru allt sjálfsögð markmið.

Við viljum senda ykkur stefnumál okkar, sjá í viðhengi þar sem nánar sést fyrir hvað við stöndum, hvað það er sem við setjum í algeran forgang en það er að koma öllum sem ekki eiga húsaskjól í öruggt skjól. Um 1000 fjölskyldur eru á biðlista eftir félagslegri íbúð, 500 öryrkjar og um 200 eldri borgarar.

Í öllu tilliti munum við, Flokkur fólksins, styðja málaflokk Krabbameinsfélagsins, mál sem varðar okkur öll.

Hvað hollan mat varðar má sjá ákvæði í okkar stefnu um fríar skólamáltíðir og að sjálfsögðu þurfa þær að vera samkvæmt viðurkenndum manneldismarkmiðum.  Sama gildir um fæðuval á hjúkrunar og þjónustumiðstöðvum.

Kær kveðja,

Kolbrún Baldursdóttir oddviti Flokks fólksins í Reykjavík

Borgin okkar - Reykjavík

Ég vek athygli þína á þeirri stefnu framboðsins að banna notkun nemenda á snjallsíma í skólum borgarinnar. Við teljum það vera gríðarlega þýðingarmikið lýðheilsumál. 

bkv., Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Samfylkingin í Reykjavík

Borgin undir forystu Samfylkingarinnar og Dags B. Eggertssonar borgarstjóra hefur tekið ákvörðun um að vera heilsueflandi borg sem felur í sér að tryggja að bæði hið manngerða umhverfi og hið félagslega styðji við heilsueflandi lífsstíl. Markviss vinna hefur verið sett af stað í öllum hverfum borgarinnar þar sem lögð er áhersla á fjóra heilsueflandi þætti sem eru næring, líðan, hreyfing og lífsstíll.

Sérstök áhersla er á heilsueflandi skóla og frístundastarf þar sem unnið er með embætti landlæknis í því að búa börnum í borgninni sem bestar forsendur til að tileinka sér heilsueflandi lífsstíl. Reykjavík hefur í góðu samstarfi við frjáls félagasamtök, skóla, foreldra, og fjölmarga fleiri náð miklum árangri með markvissu forvarnastarfi gegn því að ungmenni byrji að reykja, drekka eða neyta annarra fíkniefna, m.a. með því að styrkja verndandi þætti og vinna gegn áhættuþáttum sem komið hafa fram í rannsóknum.    

Þetta hefur gefist það vel að forvarnarverkefnið svokallaða hefur vakið heimsathygli og eru borgir og ríki, víðsvegar í heiminum að taka upp sama módel sem byggist á aukinni samveru með foreldrum, þátttöku í skipulögðu íþrótta- eða tómstundastarfi og því lengur sem ungmenni bíða með að byrja að drekka, þeim mun ólíklegra er að þau misnoti fíkniefni. Allt er þetta unnið í samstarfi við Landlæknisembætti, ÍSÍ og Rannsóknir og greiningu.

Börnin í borginni stunda leikfimi og holla hreyfingu alla daga í skólanum, auk þess eru afar mörg börn sem stunda íþróttir af einhverju tagi sem felur í sér mikla hreyfingu. Verkefni okkar er frekar að passa upp á að öll börn eigi kost á að tómstundastarfi óháð efnahag eða félagsegri stöðu og að  börn haldi áfram í tómstundum og hætti ekki þegar þau komast á unglingsár. Á yfirstandandi kjörtímabili hækkuðum við frístundastyrkinn og unnum markvisst að því að styrkja og auka framboð á fjölbreyttu og góðu tómstundastarfi fyrir börn og ungmenni. Við sjáum að notkun á frístundakortinu er minnst í Breiðholti, þess vegna lítum við á það sem okkar verkefni að vera með fjölbreyttari frístundir fyrir þann hóp og hvetja enn frekar til notkunar þar. Börn af erlendum uppruna stunda íþróttir og tómstundi í minna mæli en meðaltalið í borginni þannig við þurfum að gera betur þar.  

Bann við reykingum á opinberum svæðum hefur ekki komið til umræðu innan borgarstjórnar en sífellt færri reykja og sífellt færri ungmenni ánetjast tóbaki. Það sem átt er við um „opinbert svæði“ sveitarfélaga er aðeins óljóst. Ef átt er við allt borgarlandið gæti reynst afar erfitt að hafa eftirlit með því. Hinsvegar hafa borgir í heiminum gert svæði og almenningsgarða reyklausa með góðum árangri. Þetta væri spennandi að skoða og við erum mjög opin fyrir því.

Grænu svæðin okkar í borginni verða sífellt mikilvægari vegna þess að við erum að byggja húsnæði á mörgum gömlum bílaplönum. Við höfum hvatt eldri borgar til að nýta gönguleiðir og almenningsgarða enn meira og munum senda þeim hreyfi og heilsukort þar sem helstu gönguleiðir eru merktar inn. Þetta væri sniðugt að gera fyrir alla Reykvíkinga og auglýsa betur okkar frábæru opnu svæði og göngu- og hjólastíga.  Við höfum lengt opnunartíma sundlauga og bjóðum atvinnulausum, fólki á fjárhagsaðstoð og öryrkjum frítt í sund.

Nýlega samþykktum við matarstefnu í borgarstjórn Reykjavíkur sem tekur á öllum þáttum matar í Reykjavík, þ.m.t. matnum í mötuneytum eldri borgara og mat handa leik- og grunnskólabörnum. Á kjörtímabilinu höfum við bætt grunnskólamatinn og hefur ánægja með matinn ekki mælst hærri. Matarstefnan kemur einnig inn á leiðir sem Reykjavíkurborg getur farið til að stuðla að betri matarmenningu meðal íbúa Reykjavíkur m.a með því að auka aðgengi að heilsusamlegum mat og stuðla að grænmetisræktun.

Samfylkingin hefur einnig beitt sér fyrir bættum loftgæðum og minni mengun í Reykjavík með því að leggja áherlsu á almenningssamgöngur, hvetja til hjólreiða og þess að hverfin séu þannig uppbyggð að hægt sé að nálgast helstu nauðsynjar inna 20 mínútna göngufjarlægðar. Það er sannarlega mikilvægur þáttur í forvörnum gegn krabbameini eins og allt annað heilsueflingar og lýðheilsustarf sem við höfum unnið að og ætlum okkur að standa að áfram á komandi kjörtímabili.

Píratar í Reykjavík


Píratar í Reykjavík samþykkja þessa áskorun fyrir sitt leiti og meðfylgjandi eru svör okkar við spurningum félagsins:

  • Banna reykingar á opinberum svæðum sveitarfélaga.

Almennt séð þykja okkur bönn ekki besta leiðin til að ná árangri og erum ekki með sérstaka stefnu um bann á reykingum. Oftast viljum við frekar búa til hvata til að færa sig í rétta átt. T.d. viljum við gera notkun annarra kosta, svo sem rafretta, auðveldari í samanburði við sígarettur (þó auðvitað sé best ef fólk reyki ekki yfir höfuð). Óbeinar reykingar eru þó þess háttar inngrip í umhverfi og heilsu annarra að framboðshópur Pírata í Reykjavík hið minnsta er sammála banni á reykingum í opinberum byggingum og nærri þeim. Okkar afstaða er dregin af því að frelsi frá reykingum þurfi að vega hærra en frelsi til reykinga.

  • Hvetja til betri nýtingar svæða sem ætluð eru til hreyfingar og útivistar.

Píratar vilja fjölga og viðhalda grænum svæðum innan bæjarmarkanna, leggja áherslu á að bæta umhverfi og öryggi gangandi vegfarenda. Hönnun og skipulag eiga ávallt að hafa gangandi vegfarendur í forgangi, ásamt því að fjölga hjólastígum og bæta aðstöðu fyrir hjólandi fólk með verulegri fjárfestingu og uppbyggingu fyrir þau í samgöngukerfinu.

  • Hvetja til frekari hreyfingar hjá börnum með því að gefa hreyfingu meira vægi skólastarfi.

Í Fjölskyldu- og skólastefnu Pírata er fjallað meðal annars um að útikennslutímum skuli fjölga, í þeim tilgangi að styrkja tengsl nemenda við umhverfi sitt og náttúru og efla hreyfingu. Í þeirri stefnu er einnig tekið sérstaklega fram að auka vægi hreyfingar í kennslu og að nota skuli hana til að brjóta upp kennslustundir. Við viljum efla frístundakortin og gefa möguleika á fjölbreyttari nýtingu á þeim. 

  • Bjóða upp á hollan mat í leik- og grunnskólum og mötuneytum á vegum sveitarfélaganna.

Í umhverfisstefnu Pírata í Reykjavík eru nokkrir liðir sem fjalla um þetta. Þar er tekið fram að aukið skuli framboð grænmetisfæðis í mötuneytum til að minnka kolefnisspor borgarinnar, minnka matarsóun og hvetja líka einkafyrirtæki til að gefa afgangsmat frekar en henda. Sérstaklega er líka nefnt að vera vakandi fyrir matvælum sem innihalda efni sem eru framleidd með óvistvænum aðferðum, svo sem pálmaolíu.

Í fjölskyldu- og skólastefnu Pírata í Reykjavík er tekið fram að auka skuli framboð grænmetisfæðis í skólum og leikskólum með tilliti til lýðheilsu- og umhverfissjónarmiða, einnig er tekið fram að nemendur fái að taka þátt í að elda mat fyrir nemendur í mötuneyti skólans, þá til að auka þekkingu og færni í daglegu lífi og til að efla samfélagslega vitund.

  • Auðvelda einstaklingum sem búa við þröngan efnahag að stunda fjölbreytta hreyfingu.

Í húsnæðisstefnu Pírata í Reykjavík segir að í öllum hverfum borgarinnar skula vera lögð áhersla á þéttingu byggðakjarna og fjölgun íbúða sem haldist í hendur við gönguvænt umhverfi og tengingu við helstu samgönguæðar. Raunar er skipulagsstefna okkar öll á þann veg að ganga og hreyfing séu hlutar daglegs lífs. Við viljum efla frístundakort og koma þeim betur til skila til barna sem eru ekki að nýta þau í dag. Sérstaklega þarf að skoða hvers vegna börn í hverfum með hlutfallslega marga innflytjendur nota frístundakortin minna. Við erum líka með stefnu um það að þátttaka barna í íþróttastarfi eigi að vera út frá lýðheilsu og félagslegrar eflingar, en ekki með áherslu á afreksíþróttir. Við viljum líka efla félagsstarf eldri borgara og draga úr kvöðinni um notendadrifið félagssstarf, sem er of háð tilviljunum og einstaka virkum einstaklingum.

Kveðja,
Alexandra Briem,
Þriðja sæti á lista Pírata í Reykjavík

Garðabær

Garðabæjarlistinn

Við leggjum sérstaka áherslu á lýðhelsu og velferð sem lesa má í málefnakafla okkar https://www.gardabaejarlistinn.is/malefnalisti/2018/4/16/lheilsa-og-velfer-fyrir-alla

Sérstakar forvarnir gegn krabbameini eru ekki tiltekin enda ómögulegt að vera með tæmandi lista yfir forvarnaraðgerðir og sjúkdóma sem sporna á við.

Lýðheilsa og velferð er mikilvægur þáttur í lífsgæðum hvers einstaklings. Garðabæjarlistinn ætlar að sækja fram í lýðheilsu- og velferðarmálum og leggur áherslu á að Garðabær verði leiðandi í að stuðla að því að allir íbúar búi við góða heilsu.

Forvarnir eru ekki síður undirstaða velferðar og því er afar farsælt að samþætta lýðheilsu og forvarnir. Lýðheilsa byggir á að viðhalda og bæta heilbrigði, líðan og aðstæður einstaklinga með heilsueflingu, forvörnum og heilbrigðisþjónustu. Samþætting þessara þátta gerir það að verkum að hægt er að byggja upp öflugt heilsueflandi samfélag og þar vill Garðabæjarlistinn leggja sitt af mörkum í þágu allra íbúa.

Kv, Halldór

Sjálfstæðisflokkurinn


Í Garðabæ hefur verið öflugt íþrótta- og tómstundastarf og  þátttaka barna í íþrótta og tómstundastarfi nokkuð almenn.

Við alla skólana eru svokallaðir „Battavellir“ sem og körfuboltavellir auk annarra leiktækja sem hvetja eiga börn til útivistar jafnt á skólatíma sem utan. Búið er korleggja leiksvæði bæjarins þannig að íbúar og aðrir geti farið inn á kortavef og fundið leiksvæði í nágrenni sínu.  Ákveðið hefur verið að hefja framkvæmdir við fjölnota íþróttahús í Vetrarmýri sem mun stórbæta alla aðstöðu bæjarbúa til þess að stunda innan húss hreyfingu. Við hönnun hússins er tekið mið af þörfum ólíkra aldurshópa og auk fjölbreyttra möguleika til æfinga af ýmsu tagi er m.a. gert ráð fyrir aðstöða fyrir gönguæfingar eldri borgara.

Til þess að jafna aðstöðumun barna hækkaði Garðabær nýverið Hvatapeninga í 50.000.- Auk þess sem í boði er frístundaakstur fyrir yngstu börnin þannig að öll börn eigi kost á því að stunda það  íþrótta- og tómstundastarf sem hugur þeirra stendur til eftir að skóla lýkur óháð því hvar þau eru staðsett og hvenær vinnutíma foreldra.

Í leikskólum bæjarins eru mötuneyti þar sem er starfandi matráður sem sér um að elda mat frá grunni. Grunnskólarnir fá mat frá Skólamat sem kemur að stórum hluta tilbúin til eldunar. Síðustu fjögur ár hafa tvívegis verið gerðar tilraunir með að bjóða út mötuneyti einstakra skóla en bærinn ekki heft erindi sem erfiði í því efni.

Síðustu tvö ár hefur í byrjun október verið svokölluð forvarnarvika í bænum þar sem sjónum hefur verið beint að forvörnum af ýmsum toga. Ungmenni í sveitarfélaginu hafa stýrt viðfangsefnum vikunnar og hafa þau kosið að setja fókus á snjalltækjanotkun, svefn og líðan barna og ungmenna. Næsta forvarnarvika verður 3. -10. október 2018.

Garðabær skrifaði þann 19. maí sl. undir samstarfssamning við Embætti landlæknis um að Garðabær verði ,,Heilsueflandi samfélag". Verkefninu er ætlað að ná til allra aldurshópa í samfélaginu og stuðla að góðri heilsu, vellíðan og auknum lífsgæðum.  Heilsueflandi samfélag er samfélag þar sem tekið er mið af heilsu og vellíðan allra íbúa í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum.  Í því samhengi verður lögð áhersla  á að bæta umhverfi íbúa, draga úr tíðni langvinnra sjúkdóma með margvíslegu forvarnar- og heilsueflingarstarfi. Í upphafi verkefnisins í Garðabæ var ákveðið að börn yngri en 18 ára fá ókeypis aðgang í sundlaugar bæjarins og að Ásgarðslaug verði opin til kl. 22 á kvöldin í sumar í tilraunaskyni. Garðabær hefur ekki stigið það skref að banna reykingar á opinberum svæðum en það er vissulega eitt af þeim verkefnum sem ástæða gæti verið til að skoða í vinnu í tengslum við heilsueflandi samfélag.

Gunnar Einarsson


Hafnarfjörður

Bæjarlistinn

Bæjarlistinn Hafnarfirði leggur mikla áherslur á að lýðheilsa sé ráðandi þáttur í allri stefnumótun bæjarins. Skoðun á reykingum á opinberum svæðum bæjarins þykir okkur þörf, hvort bann gegn reykingum er nægilegt eins og staðan er í dag. Sé svo ekki þyrfti að gera bragarbót þar á. 

Uppi eru áætlanir um að skoða mötuneyti skóla og jafnframt eldri borgara með það fyrir augum að auka nýtingu og hollustu matarins. Í dag er stuðst við manneldismarkmið Landlæknisembættisins gagnvart eldri borgurum, en bent hefur verið á af hálfu næringarfræðinga að þau markmið séu ekki miðuð sérstaklega fyrir þann aldurshóp. Okkur þykir því mikilvægt að fylgjast með endurskoðun þessara manneldismarkmiða og bregðast við þegar og ef þau breytast. 

Oddviti Bæjarlistans gekkst fyrir því á yfirstandandi kjörtímabili að bærinn gerði samning við Janus endurhæfingu um heilsueflingu eldri borgara, sem er niðurgreidd að mestu leyti. Til staðar eru frístundastyrkir jafnt fyrir börn á aldrinum 6-18 ára og eldri borgara yfir 67 ára aldri. Í efstu 10 sætum Bæjarlistans eru m.a. sjúkraþjálfari, íþróttafræðingur í lýðheilsunámi, lýðheilsufræðingur með sálfræðimenntun og hlaupaþjálfari svo eitthvað sé nefnt. Lýðheilsa er rauður þráður í okkar áherslum.

Mosfellsbær

Vinir Mosfellsbæjar

Vinir Mosfellsbæjar taka heilshugar undir áskorun Krabbameinsfélagsins sem fram kemur í bréfinu og svör Vina Mosfellsbæjar eru þessi.

  1. Verði Vinir Mosfellsbæjar með bæjarfulltrúa í næstu bæjarstjórn Mosfellsbæjar munum við leita til Krabbameinsfélagsins um upplýsingar og samræður um það með hvaða hætti koma mætti upp reyklausum svæðum. 
  2. Mosfellsbær er þekktur útivistarbær og stendur bæjarfélagið dyggilega við bakið á allri þeirri starfssemi sem hefur hreyfingu og útivist að markmiði og nægir að nefna íþróttafélögin, stikaðar gönguleiðir um bæinn, hjólastíga og fleira. Þess má einnig geta í þessu sambandi að Mosfellsbær er þáttakandi í verkefninu Heilsueflandi Mosfellsbær meðal annars í samvinnu við Landlæknisembættið.
  3. Í stefnuskrá Vina Mosfellsbæjar segir þetta. „Við viljum móta nýja og framsækna skóla- og menntastefnu til framtíðar í víðtæku samráði við foreldra, skólastjórnendur og kennara“. Áherslupunkt Krabbameinsfélagsins hvað þennan lið varðar má koma að í þessari stefnumótun.
  4. Í stefnuskrá Vina Mosfellsbæjar um hollan mat segir þetta. „Við viljum tryggja hollar og góðar máltíðir, með áherslu á gæði hráefnis og næringargildi í öllum skólum bæjarins“.
  5. Í stefnuskrá Vina Mosfellsbæjar segir þetta. „Við viljum tryggja að þróttaiðkun sé öllum tryggð óháð efnahag“. Því miður er alltaf eitthvað um að efnahagur foreldra geri það að verkum að börn fá ekki notið tómstunda og hreyfingar. Á vettvangi íþróttaheyfingarinnar og skólana fer þetta starf fyrst og fremst fram og þar viljum við standa vaktina þannig að öll börn geti notið sem mestrar hreyfingar. Þetta er einnig hluti af verkefninu Heilsueflandi Mosfellsbær. Hvað varðar eldri borgara viljum við innleiða frístundastyrk (aðstoð) þannig að eldri borgarar fái notið hreyfingar við hæfi undir leiðsögn.

Vinir Mosfellsbæjar vona að þessi svö megi varpa ljósi á framlagðar spurningar Krabbameinsfélagsins.

Með bestu kveðjum og óskur Krabbameinsfélaginu til handa og með þökkum fyrir framlag ykkar til þessa mikilvæga málaflokks.

Framsóknarflokkurinn

Okkur í Framsóknarflokknum í Mosfellsbæ teljum það skipta gríðarlega miklu máli að banna reykingar á opinberum vettvangi. Við erum algjörlega á móti beinum og óbeinum reykingum, og það á að vera frelsi hvers og eins að þurfa ekki að anda þessari mengun að sér. Við getum líka státað okkur af því að meirihlutinn af okkar frambjóðendum er reyklaus.

Það er hægt að nýta opin svæði undir hreyfingu og við erum hlynnt því að það megi afmarka ákveðin svæði fyrir það. Það er hægt að setja einfaldar æfingar á bekki t.d hér áttu að gera dýfur og framstig og svo framvegis.

Hreyfing barna skiptir mjög miklu máli. Það mætti búa til námskeið fyrir starfsfólk skólanna t.d í útikennslu þar sem kennarinn getur sótt sér efni í gagnagrunn. Það er vel hægt að samþætta fög eins og t.d stærðfræði og önnur bókleg fög og hreyfingu.

Mötuneyti skólanna ættu að vinna saman að því að reyna að forðast E-efni í mat og unnar matvörur. Í Heilsueflandi samfélagi eins og við búum í hérna í Mosfellsbæ þá ætti að vera skylda að bjóða upp á ferskar matvörur.

Þeir sem búa við þröngan efnahag eiga alls ekki að líða fyrir það, það þarf að hækka þeirra frístundastyrk og sjá til þess að þau finni ekki fyrir þessum mismun að neinu leyti út á við.

Blönduós

Óslistinn

Óslistinn tekur undir þau atriði sem koma fram í bréfinu frá ykkur og hyggst mæta þeim á eftirfarandi hátt:

  • banna reykingar á opinberum svæðum sveitarfélaga. -Eftir því sem frambjóðendur Óslistans vita best eru reykingar bannaðar á opinberum svæðum sveitarfélagsins eins og t.d. skóla- og leikskólalóð, einnig hafa verið settar merkingar um að öll notkun tóbaks, þ.m.t. nef- og munntókbaks verið settar upp í íþróttamiðstöð. Óslistanum finnst samt sem áður að skerpa mætti á þessu banni og bæta merkingar enn frekar og koma þessum skilaboðum reglulega til starfsfólks og íbúa sveitarfélagsins.
  • hvetja til betri nýtingar svæða sem ætluð eru til hreyfingar og útivistar. Óslistinn telur að bæta megi nýtingu á svæðum til útivistar með því að kynna þessi svæði betur fyrir íbúum t.d. á íbúafundum og með kortum og umfjöllun á heimasíðu sveitarfélagsins. Einnig gæti sveitarfélagið eða aðilar í samstarfi við sveitarfélagið staðið fyrir reglulegum útivistardögum þar sem fólk fengi leiðsögn um ákveðin útivistarsvæði.
  • hvetja til frekari hreyfingar hjá börnum með því að gefa hreyfingu meira vægi í skólastarfi. Nú þegar stunda nemendur í Blönduskóla meiri hreyfingu á hverju skólaári en viðmið Aðalnámskrár grunnskóla segja til um. En það er alltaf hægt að gera gott betra. Ein af leiðunum gæti verið að efla útikennslusvæði í Fagrahvammi og hvetja kennara til meiri útikennslu og samþættingu námsgreina. Fræðslunefnd gæti einnig komið með tillögu um fleiri útivistardaga í skólanámskrá.

Óslistinn vill einnig fjölga íþróttatímum hjá leikskólabörnum í samstarfi við íþróttakennara Blönduskóla.

  • bjóða upp á hollan mat í leik- og grunnskólum og mötuneytum á vegum sveitarfélaganna. Óslistinn tekur undir þetta og vill að sveitafélagið bjóði uppá hollan, fjölbreyttan og góðan mat. Einnig viljum við bjóða börnum upp á hafragraut gjaldfrjálst ásamt ávöxtum í nestisstund.
  • auðvelda einstaklingum sem búa við þröngan efnahag að stunda fjölbreytta hreyfingu. Þeir sem ekki geta boðið börnunum sínum eða farið sjálfir vegna fjárhagslegra erfiðleika borga engin æfingagjöld. Við viljum einnig koma til móts við fólks í fjárhagslegum vandræðum. Óslistinn vill bjóða öryrkjum og ellilífeyrisþegum að nýta sér sundlaug og þreksal íþróttamiðstöðvarinnar endurgjaldslaust.

Öll ofangreind atriði verða til umfjöllunar í ítarlegri stefnuskrá Óslistans sem mun birtast á heimasíðu hans á Húnahorninu  www.xo.huni.is  og í bæklingi sem verður dreyft í öll hús sem taka við fjölpósti.

Einnig viljum við bjóða fulltrúa frá Krabbameinsfélaginu sérstaklega velkominn á málefnafund Óslistans um Mennta-, æskulýðs-, og lýðheilsumál á kosningaskrifstofu listans að Þverbraut 1, fimmtudaginn 17. febrúar kl. 20.

Virðingafyllst, fyrir hönd Óslistans,

Anna Margret Sigurðardóttir

L-listinn

L-listinn vill þakka ykkur fyrir bréfið og við vonum að málefni okkar standist ykkar kröfur.

Mikil áhersla er lögð á lýðheilsu einstaklinga Blönduóssbæjar eins og sjá má á stefnumálum L-listans. Við teljum að mikilvægt sé að leggja góðan grunn að heilbrigðum lífsháttum með langtímasýn í huga og öllum þeim heilsufarslegu ávinningum sem hljótast af þeim. Eitt af slagorðum listans er Heilbrigt samfélag. Við viljum beita okkur fyrir því að taka upp heilsustefnu og bjóða upp á hollan mat í leik- og grunnskólum og mötuneytum á vegum sveitarfélagsins. Hugmynd okkar er sú að hafa eitt sameiginlegt mötuneyti fyrir öll skólastig bæjarins og að ráðinn verði matráður. Með því hlýst margs konar ávinningur fyrir utan að börnin fái hollan og góðan mat. Eldhúsaðstaða skólans nýtist betur og einn matseðill verður fyrir öll skólastig. Einnig viljum við vinna að því að í boði verði hafragrautur á morgnanna og ávaxtastund í kaffitíma grunnskólans.

L-listinn vill stuðla að því að allir bæjarbúar séu á jöfnum grundvelli og því viljum við einfalda verðskrá íþróttamiðstöðvarinnar til að sem flestir eigi kost á að nýta sé þá frábæru aðstöðu sem í boði er. Í stað þess að hafa mismunandi verð á þriggja mánaða, hálfs árs og árs korti þar sem að hagnýtast er að kaupa sér árskort. Þá myndu þriggja mánaða og hálfs árs kortin kosta hlutfallslega það sama og árskortið. Þannig auðveldum við einstaklingum sem búa við þröngan efnahag að stunda fjölbreytta hreyfingu. Einnig er hefur L-listinn unnið að því að frítt sé í sund fyrir börn bæjarfélagsins og munum við halda okkur fast við þá stefnu ásamt því að vinna að því að einnig sé frítt í sund fyrir eldri borgara og öryrkja. Það teljum við vera stórt og flott skref að Fjölskylduvænu samfélagi eins og listinn vill stuðla að.

L-listinn vill vinna að úrbótum á göngustígum og gangstéttum með það að leiðarljósi að auka aðgengi og öryggi íbúa að útivistarsvæðum. Einnig viljum við tengja göngustíga við aðrar gönguleiðir og fjölga bekkjum í bæjarfélaginu. Þannig hvetjum við bæjarbúa til betri nýtingar svæða sem ætluð eru til hreyfingar og útivistar. Ásamt því eins og fram hefur komið að hafa frítt í sund fyrir börn undir 18 ára, og stefna að því að eldri borgarar og öryrkjar fái einnig frítt í sund. Þá vill listinn halda áfram að efla og bæta aðstöðu til íþróttaiðkunnar í íþróttamiðstöðinni sem er ein helsta lífæð samfélagsins.

Í Blönduskóla er nú þegar lagt mikið vægi á hreyfingu í skólastarfinu. Þar sem ekki hefur verið hægt að kenna smíðar þá voru íþróttir kenndar í staðinn. En nú stendur til að smíðastofan verði tekin í gagnið í haust en L-listinn vill stuðla að því að vægi íþrótta minnki ekki fyrir vikið. Þannig viljum við hvetja til frekari hreyfinga hjá börnum með því að gefa hreyfingu meira vægi í skólastarfi.

Með því að stuðla að heilbrigðum lífsháttum og snyrtilegu umhverfi vonast listinn eftir því að samfélagið taki virkan þátt í þessum verkefnum með okkur með góðri umgengi í bænum og sýni þá virðingu að reykja ekki á opinberum svæðum sveitarfélagsins. Listinn vill leggja sitt af mörkum í baráttunni með aðaláherslu á heilbrigt líferni.

F.h. L-listanns    

Guðmundur Haukur Jakobsson

Húnavatnshreppur

E-listinn

Frambjóðendur E-listans, Nýtt afl í Húnavatnshreppi eru meðvitaðir um mikilvægi forvarna til að koma í veg fyrir krabbamein.  Það að greinast með krabbamein hefur áhrif á marga það er einstaklinginn sem greinist, fjölskyldu og vini og þarf því að hlúa að mörgum við hverja greiningu.   Núna í aðdraganda kosninga er mikilvægt að frambjóðendur horfi til þess hvaða möguleikar eru til að hvetja íbúa sveitarfélagsins til heilbrigðari lífshátta.  Hér verður talið upp hvaða hugmyndir E-listinn er með til bættrar lýðheilsu: 

  • E-listinn vil stuðla að aukinni hreyfingu hjá börnum og þátttöku í hópíþróttum með því að bjóða upp á frístundaakstur fyrir börnin í Húnavatnshreppi og leita eftir samstarfi um samþættingu íþrótta- og tómstundastarfs við nágrannasveitarfélög og íþróttafélögin.  E- listinn telur að með frístundaakstri  sé möguleiki á aukinni þátttöku barna  í íþróttastarfi eftir skóla, óháð efnahag.
  • E- listanum er umhugað um að börnin í Húnavallaskóla fái hollar og góðar skólamáltíðir ásamt fjölbreyttu grænmeti.   E-listinn vill bjóða upp á gjaldfrían mat bæði í leik- og grunnskólanum.  
  • E-listinn hvetur til að bann við reykingum á skólalóð sé virt.  Opinber svæði í Húnavatnshreppi eru í uppbyggingu og telur E-listinn að mikilvægt sé að stuðla að banni við reykingum á þeim svæðum eða a.m.k. að reykingar séu aðeins leyfðar á afmörkuðum svæðum.
  • E-listinn vill að sveitarfélagið vinni að því að bæta aðgengi að þeim náttúruperlum sem Í Húnavatnshreppi eru.  Búið er að merkja þrjár gönguleiðir og gerð hafa verið gönguleiðakort fyrir Austur-Húnavatnssýslu, þar sem gönguleiðum á svæðinu er gerð góð skil.  E- listinn hvetur til áframhaldandi vinnu við merkingu gönguleiða til að sem flestir geti notið þeirra náttúrperla sem hreppurinn hefur upp á að bjóða.
  • E-listinn telur mikilvægt að hugað sé að þeim íþróttasvæðum og íþróttafélögum í hreppnum til að stuðla að þátttöku barna í íþróttum hjá þeim félagsliðum sem í hreppnum eru.

Á þessu sést að E-listinn vill hvetja til heilbrigðari lífshátta og telur forvarnastarf gegna stóru hlutverki í bættri lýðheilsu.  Hlutverk krabbameinsfélaga er mikilvægt jafnt í forvarnastarfi og í stuðningi við eintaklinga sem greinast með krabbamein.  Hér í Húnavatnssýslu er 50 ára gamalt krabbameinsfélag sem stutt hefur vel við bakið á þeim sem þurft hafa á því að halda.  Mikilvægt er að íbúar Austur-Húnavatnssýslu styðji við það félag um ókomna tíð.  Ert þú félagsmaður?   E-listinn er stoltur af því að einn af frambjóðendum þeirra er stjórnarmaður í Krabbameinsfélagi A-Hún. 

Skagaströnd

Skagastrandarlistinn

Við á Skagastrandarlistanum fögnum mjög framtaki Krabbameinsfélagsins með innsendu bréfi ykkar.

Forvarnir eru ákaflega mikilvægar og stuðla að gríðarmiklum þjóðhagslegum sparnaði þegar til lengri tíma er litið.

Íþrótta, æskulýðs og lýðheilsumál fá sérstakan sess í okkar ranni.

Við viljum stuðla að því með verkum okkar að Skagaströnd verði sannkallaður „heilsubær“ og muni standa vel undir því slagorði.

Á Skagaströnd er nýbúið að opna nýja og stórglæsilega líkamsræktaraðstöðu sem er mjög vel sótt af bæjarbúum. Við viljum gera sérstakt átak til þess að auka þáttöku 50+ með því að standa fyrir sérstöku námskeiði fyrir þann aldurshóp. Einnig er stefnt að því  að lengja opnunartíma líkamsræktarinnar.

Sundlaugin á Skagaströnd hefur lengst af bara verið opin á sumrin en sú ánægjulega breyting hefur átt sér stað m.a. fyrir tilstuðlans Skagastrandarlistans að nú hefur sundlaugin einnig verið opin yfir veturinn. Hefur það mælst mjög vel meðal bæjarbúa og nýting hefur verið framar vonum. Gert er ráð fyrir að opnunartími laugarinnar verði lengdur.

Þess má geta að gjaldskrám í íþróttamannvirki hefur mjög verið stillt í hóf og stefnt er að því að halda slíku vel innan velsæmismarka. Einnig má geta þess að sérstakir afslættir eru hugsaðir fyrir börn, öryrkja og eldri borgara.

Skagastrandarlistinn hefur það á stefnuskrá sinni að halda áfram að standa myndarlega að stuðningi við íþrótta og æskulýðsstarf. Þar er fyrirferðarmest UMF Fram sem  hefur getað boðið uppá fjölbreytt úrval íþróttagreina á mjög hóflegu verði.

Skagastrandarlistinn vill líka halda áfram að bjóða frístundastyrki til fjölskyldna sem fólk hefur getað nýtt til að greiða niður íþrótta og tómstundarstarf barna og unglinga.

Skagastrandarlistinn hefur einnig sett á stefnuskrá sína að hollusta skólamáltíða í leik og grunnskólum verði sett í forgang. Með því viljum við segja að hollusta verði látin vega þyngra en hagrænir þættir þegar tekið er tillit til mataræðis barna og unglinga.

Skagastrandarlistinn vill halda áfram að bjóða uppá hafragraut á morgnana í grunnskólanum og hefur á stefnuskrá sinni að bjóða jafnframt uppá ávexti sem millimál í skólanum.

Vonandi svarar þetta fyrirspurn ykkar með fullnægjandi hætti.

Kv Halldór

Norðurland

Samfylkingin Norðurþing

Sæl Eva og takk fyrir póstinn og þessi góðu ráð.

Við munum svo sannarlega skoða þau vel. Erum að lofa lækkun á fæðisgjöldum og auka fjármagn í hreyfingu til allra í samfélaginu. Vonum að það skili sér. 

Kveðja Silja – Samfylkingin Norðurþing

Betri Fjallabyggð 

Betri Fjallabyggð hyggst gera eftirfarandi:

  • Bæta ásynd opinna og grænna svæða til að efla bæta útivistunarmöguleika.
  • Beyta sér fyrir því að Fjallabyggð móti sér stefnu sem heilsueflandi áningarstaður fyrir líkama og sál
  • Bæta heilsuvitund barna í leik- og grunnskóla, ásamt því að þrýsta á að matseðlar taki mið af því.
  • Hækka frístundastyrk barna um 10.000 kr. og bæta miðstigi grunnskólans inn í hið svo kallaða frístundarfyrirkomulag sem er íþróttapartur strax eftir skólaskyldu.
  • Hefja byggingu á upphituðum gervigrasvelli.
  • Aðstoða við frekari uppbyggingu skíðasvæða og golfvalla.
  • Frítt í sund og líkamsrækt fyrir eldri borgara og öryrkja.
  • Vinna gegn einsemd og einangrun eldri borgara í Fjallabyggð með auknu framboði af námskeiðum, æfingum og æfingartækifærum við hæfi.

kær kveðja fyrir hönd Betri Fjallabyggð,

Jón Garðar Steingrímsson

B-listi Framsóknar-og félagshyggjufólks í Dalvíkurbyggð

Félagið skorar á sveitarstjórnarfólk að gefa lýðheilsu meira vægi með því meðal annars að:

  • banna reykingar á opinberum svæðum sveitarfélaga – þetta er nú þegar í gangi hjá okkur í Dalvíkurbyggð kringum opinberar byggingar og íþróttamannvirki og það er almennt ekki vel séð að fólk sé reykjandi á almannafæri. Sem betur fer þá er orðið afar sjaldgæft að sjá fólk reykjandi á víðavangi hérna í kring.
  • hvetja til betri nýtingar svæða sem ætluð eru til hreyfingar og útivistar – hérna viljum við á B-lista bæta í. Við viljum að gerð sé áætlun um átak í göngustígagerð og markvisst unnið eftir henni til uppbyggingar frekari gönguleiða og þá með lýsingu þar sem hægt er að koma því við með góðu móti. Dalvíkurbyggð er með verkefni sem heitir Heilsueflandi Dalvíkurbyggð og byggir á aukinni þátttöku almennings í hreyfingu og að hver og einn hugi betur að góðri næringu, betri líðan og öðlist þannig aukin lífsgæði. Við viljum halda áfram að vinna markvisst að heilsueflingu í samfélaginu okkar og viljum hvetja til betri og almennari nýtingar á íþróttamannvirkjum, sérstaklega sundlaug. Á næstu tveimur árum verður byggður gervigrasvöllur í fullri stærð við Íþróttamiðstöðina á Dalvík og er hann hugsaður til iðkunar knattspyrnu og sem göngusvæði fyrir almenning en völlurinn verður upphitaður. Þetta verður frábær viðbót við hreyfingarmöguleikana í sveitarfélaginu.
  • hvetja til frekari hreyfingar hjá börnum með því að gefa hreyfingu meira vægi í skólastarfi – í skólastarfinu hefur hreyfing vægi hvað varðar íþrótta-og sundkennslu. Einnig er góð lóð með leiktækjum við leikskólana og við Dalvíkurskóla er sparkvöllur og þar er einnig nýbúið að opna leikbraut sem er afar vinsæl og hvetur til aukinnar hreyfingar.
  • bjóða upp á hollan mat í leik- og grunnskólum og mötuneytum á vegum sveitarfélaganna – Í dag er boðið upp á hádegismat í leik-og grunnskólum og er kostnaður við hann niðurgreiddur af sveitarfélaginu. Þetta er hollur heimilismatur og er passað upp á að næringarinnihald samræmist lýðheilsustöðlum.
  • auðvelda einstaklingum sem búa við þröngan efnahag  stunda fjölbreytta hreyfingu – í Dalvíkurbyggð erum við með sjóð sem niðurgreiðir þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi, Æskurækt. Þar fyrir utan geta efnalitlir einstaklingar fengið aðstoð ef þeir falla undir reglur félagsþjónustu um fjárhagsaðstoð.

Takk kærlega fyrir að vekja athygli á ykkur og takk fyrir ykkar frábæra starf í Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis. Það er full þörf á að vera alltaf á vaktinni og vekja fólk til umhugsunar um leiðir til að sporna við veikindum og öðlast heilbrigðara líf. Við í Dalvíkurbyggð erum mjög stolt af Bruggsmiðjunni Kalda og átaki þeirra í mars – Vertu Kaldur -. Þar var stór hópur fólks sem vann að söfnunni og margir í byggðarlaginu sem styrktu verkefnið með kaupum.

Gangi ykkur allt í haginn og hafið samband ef eitthvað er óskýrt.

Bestu kveðjur

F.h. B-lista Framsóknar-og félagshyggjufólks í Dalvíkurbyggð.

Katrín Sigurjónsdóttir, Sími: 824-3989

D-listi Sjálfstæðisfélags Dalvíkurbyggðar og óháðra

Atvinnumál

  • Styrkja þá atvinnustarfsemi sem fyrir er með góðri umgjörð s.s. samkeppnishæf gjöld og framboð þjónustu .
  • Sveitarfélagið hafi frumkvæði að því að fyrirtæki og sveitarfélag hafi samráðsvettvang, miðli sín á milli og vinni saman að hagsmunum allra.
  • Til verði pottur við gerð fjárhagsáætlunar þar sem mögulegt er að styrkja frumkvöðla í atvinnusköpun jafnt stóra sem smáa.
  • Leita leiða til að fá starfsemi ríkisstofnana í sveitarfélagið að hluta eða heild.
  • Hækka launin í Vinnuskólanum til móts við það sem best þekkist.
  • Tryggja landrými og hentugar lóðir fyrir fyrirtæki.
  • Öll aðstaða fyrir ferðafólk sé til fyrirmyndar og aðlaðandi s.s. skýrar merkingar.
  • Við ætlum að gera miklu betur í því að stoppa hér ferðafólk, kynna fyrir því alla þá upplifun sem er í boði og fá fólk til að dvelja, njóta og skilja eftir sig fjármagn.

Fræðslu- og menningarmál

  • Öllum börnum og unglingum verði skapaðar bestu mögulegu aðstæður til náms og þroska á jafnréttisgrundvelli.
  • Tryggja leikskólapláss er fæðingarorlofi lýkur með öllum mögulegum aðgerðum og reyna að koma til móts við foreldra ungra barna, til að þeir komist sem fyrst út á vinnumarkaðinn aftur eftir fæðingarorlof.
  • Bjóða upp á gjaldfríar máltíðir í grunnskólum. Á síðasta ári samþykkti sveitastjórn að nemendur í grunnskólum sveitarfélagsins fengju öll skólagögn ókeypis. Við viljum fara aðeins lengra og bjóða upp á frítt fæði allra grunnskólanema.
  • Fjölga tækifærum til fræðslu fullorðinna t.d. í námsveri í samstarfi við atvinnulífið.
  • Styrkja móðurmálskennslu (eigið mál og íslensku) nemenda af erlendum uppruna sem sterkan grunn til að öðlast færni í íslensku.
  • Skapa skólum góðan nútímalegan búnað og aðstæður til framkvæmdar skólastarfs og unnið verði eftir tímasettri endurnýjunaráætlun.
  • Styrkja endurmenntun og faglegt starf kennara og stuðla þannig að sífellt betri gæðum kennslu og náms með áherslu á að þróa starfshætti sem taka meðal annars mið af aukinni tæknivæðingu.

  • Sálfræði- og talmeinaþjónusta við nemendur innan skóla verði aukin og ávallt sé lögð áhersla á snemmtæka íhlutun í námi og kennslu barna.
  • Við viljum leggja meiri áherslu á hugtakið fjármálalæsi í námi unglinga.
  • Bjóða upp á tómstunda- og íþróttastarf í frístund grunnskólanna (1.-4.b).
  • Skólastarf í Árskógi er grunnstoð þess að áfram verði jákvæð þróun í búsetu á Árskógsströnd. Því er mikilvægt að skólinn verði þar áfram í núverandi mynd.
  • Við viljum gjarnan að listasmiðja verði til t.d. í Gamla skólanum.
  • Við viljum standsetja Gamla skólann og þar verði safnasafn Dalvíkurbyggðar með áherslu á fræðslu og upplifun með nútímatækni s.s. hljóðleiðsögn.

Íþrótta- og æskulýðsmál

  • Efla íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf með áherslu á forvarnir, félagslega-, líkamlega- og andlega vellíðan barna og unglinga.
  • Fjölga tækifærum fatlaðra barna til þátttöku í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
  • Efla Víkurröst sem alhliða tómstundahús fyrir alla í uppbyggjandi félagsskap.
  • Við viljum leggja meiri áherslu á starf félagsmiðstöðvar og efla þá starfsemi sem þar er t.d. með auknu starfshlutfalli og þannig mætti setja aukinn kraft í æskulýðsmálin með áherslu á forvarnir.

  • Leikjanámskeið verði í boði hvert sumar með áherslu á útiveru og hreyfingu.
  • Áfram verði stuðlað að niðurgreiðslum til íþróttaiðkunnar barna í Dalvíkurbyggð með æskuræktinni.
  • Vinsældir frisbí-golfs hafa farið vaxandi og við viljum koma slíkum velli upp á Dalvík (það er einn í Árskógi).
  • Klára gervigrasvöllinn samkvæmt áætlun og bæta við útiæfingartækjum á skipulag nýja íþróttasvæðisins og öðru sem nýtist til heilsueflingar.
  • Við viljum fá fleiri viðburði í tengslum við uppbyggingu íþróttamannvirkja og jafnvel búa til nýja t.d. Dalvíkurþríþrautin (hjóla, synda, hlaupa).
  • Styðja við ungmennaráð enn frekar t.d. með fleiri fundum og nýta hugmyndir ungs fólks enn betur.
  • Fá kennara til þess að vera með sundleikfimi/ungbarnasund í Sundskálanum.

Hafnir, veitur og orka

  • Fráveitumál þurfa að vera í lagi í öllu sveitarfélaginu. Það er okkar markmið að fráveita sé öflug, skilvirk og samkvæmt heilbrigðiskröfum og á næstu árum verði hreinsistig fráveitu aukið jafnt og þétt í takt við tækniþróun. 
  • Halda áfram með smávirkjanaskýrsluna í samvinnu við Atvinnuþróunarfélagið og möguleika á virkjun raforku í héraði, vindorku og sólarorku (græn orka).
  • Tryggja gæði vatnsbóla og þar með neysluvatns.
  • Þegar nýjar götur eru gerðar að gera ráð fyrir lögnum í gangstéttar og nýta affall heita vatnsins til snjóbræðslu.
  • Vinna áfram að því með öðrum sveitarfélögum að tryggja næga raforku.
  • Vinna markvisst að því að gera rannsóknarboranir eftir heitu vatni með það að markmiði að stækka þjónustusvæði veitna.
  • Halda áfram með skipulag og framkvæmdir í höfnum sveitarfélagsins með áherslu á öryggi og gott aðgengi atvinnustarfsemi, íbúa og gesta.

Umhverfi, skipulag, samgöngur

  • Fegra sveitarfélagið og tengja það betur saman með göngu-, reið- og hjólastígum. Hirða reglulegar þau leiksvæði sem fyrir eru.
  • Við viljum endurskipuleggja Baldurshagareitinn og fegra.
  • Reglur um umferð í fólkvangnum verði sýnilegri.
  • Viljum gera hundasvæðið fjölbreyttara og aðgengilegra og erum til í að skoða aðra staðsetningu með það í huga.

  • Vinna með Mótorsportfélaginu að endurhönnun svæðisins vegna breyttra aðstæðna sökum malartöku.
  • Hefja endurskoðun á nýju aðalskipulagi á núverandi ári, þar sem núgildandi aðalskipulag rennur út 2020.
  • Leggja þarf áherslu á fjölbreytt lóðaframboð og hvort ætti að þétta byggð frekar.
  • Dalvíkurbyggð marki sér stefnu í umhverfismálum.
  • Betrumbæta þjónustu við endurvinnslusvæðið, þ.e. að hafa móttöku utan opnunartíma með sjálfsþjónustu og kanna þörf fyrir grenndargáma á Árskógsströnd og í Svarfaðardal.
  • Til verði vetrarbílastæði á Hauganesi/Árskógssandi þar sem fólk getur geymt bíla sína og komist til vinnu þó ekki sé búið að moka allar götur að morgni.
  • Fjölga sorpílátum meðfram gönguleiðum og auka lýsingu.
  • Fá verkfræðistofu til að að taka út ástand gatna-, gangstétta- og göngustígakerfi sveitarfélagsins og leggja fram áætlun til framkvæmda næstu ára. Við viljum samhliða því leggja aukin framlög í fyrrnefnda framkvæmdaliði.
  • Við viljum verða umhverfisvænna sveitarfélag og nýta þá orku sem við þurfum og getum á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt.

Félagsþjónusta, málefni fatlaðra og eldri borgarar

  • Auka þátttöku fatlaðra í samfélaginu í samvinnu við atvinnulífið, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa og fleiri tengda aðila.
  • Tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.
  • Klára byggingu íbúða fyrir fatlaða og fjölga fjölbreyttum búsetuúrræðum.
  • Styrkja félagsþjónustuna með áherslu á ráðgjöf, forvarnir og jafnrétti til að auka þátttöku einstaklinga í samfélaginu t.d. með félags-eða fjölskylduráðgjafa.

  • Leggja áherslu á þjónandi leiðsögn í þjónustu við fatlað fólk til að styrkingar sjálfstæðis hvers og eins.
  • Við viljum að Dalvíkurbyggð sé öflugt velferðarsamfélag þar sem áfram sé boðið upp á góða þjónustu við íbúa, unga jafnt sem aldna.
  • Styrkja starfsemi félags eldri borgara fjárhagslega og ýta undir sjálfstæði þess.
  • Þjónusta við eldri borgara sé fjölbreytt svo þeir geti búið sem lengst heima með viðeigandi stuðningi, auka velferðartækni og heilsueflandi heimsóknir.
  • Við viljum að snjómokstur og garðsláttur sé niðurgreitt af Dalvíkurbyggð ef eldri borgarar geta ekki sinnt slíku sjálfir.
  • Tryggja skýra framtíðarsýn á Dalbæ með áherslu á Dalbæ sem þjónustukjarna fyrir eldri borgara þar sem verða sérfræðingar sem sinna ýmissi þjónustu við þá eldri borgara sem búa heima til jafns við íbúa á Dalbæ.
  • Gera áætlun um viðhald og nýframkvæmdir á heimilinu Dalbæ og tryggja áfram gæða þjónustu í vistlegu heimilisumhverfi.

Lýðheilsa og forvarnir

  • Allir íbúar eiga rétt á góðum lífsgæðum og möguleikum til að njóta sín í samfélaginu. Enginn á að þurfa að láta sér leiðast og vera einmana.
  • Leggja enn meiri áherslu á heilsueflandi Dalvíkurbyggð s.s. með hlaupa-, hjóla- og gönguhópum og ýmsu öðru andlega og líkamlega nærandi.
  • Bæta aðgengi að útivistarsvæðum almennt og t.d. setja göngubrú yfir hitaveiturörið yfir Svarfaðardalsánna. Með því opnast hringleið í Höfðann sem býður upp á lengri göngu- og hlaupaleiðir.
  • Öflug og fjölbreytt forvarnafræðsla fyrir unglinga og foreldra þeirra.

Fjármál, stjórnsýsla, þjónusta, lýðræði

  • Sýna áfram ábyrga fjármálastjórnun og hagsýni í rekstri sveitarfélagsins.
  • Halda áfram að lækka hlutfall heildarskulda og skuldbindinga.
  • Við viljum að íbúar njóti þess að sveitarfélagið hefur verið vel rekið því viljum við lækka skatta og gjöld s.s. útsvar og/eða fasteignaskatt. 
  • Styrkja þann mannauð sem fyrir er með starfsþróunartækifærum.
  • Allar stofnanir hafi greiðan aðgang að viðgerðarmanni til daglegra verkefna og viðhalds, því leggjum við áherslu á að þjónustumiðstöð verði til.

  • Rafræn stjórnsýsla verði aukin svo íbúar geti sinnt erindum sínum rafrænt.
  • Halda áfram með íbúafundi og ræða áherslur og hugmyndir að verkefnum.
  • Auka sveigjanleika í opnunartíma stofnana sveitarfélagsins og færa hann nær þörfum gesta og íbúa s.s. lengri opnun sundlaugar að sumri.
  • Til verði hópur nýbúa sem hitta sveitarstjórn 2-3 ári og ræða um málefni fólks af erlendum uppruna. Markmiðið er að ræða hvað við getum gert betur svo fólk komist betur inn í samfélagið, njóti þjónustunnar og fái tækifæri til að gefa af sér.
  • Til verði virk ráðgjöf til íbúa sem hafa áhuga á að koma í sveitarfélagið um möguleika til búsetu og sú ráðgjöf verði sýnileg á heimasíðu Dalvíkurbyggðar.
  • Sveitarfélagið beiti sér fyrir því að lausar eignir verði nýttar til að anna eftirspurn eftir húsnæði sem ætti að hvetja fólk til að setjast að í Dalvíkurbyggð allri.
  • Ávallt sé nægt framboð fjölbreyttra byggingarlóða og halda áfram með niðurfelld gatnagerðargjöld.

Við skipuleggjum í sátt við náttúruna, tryggjum tekjur með öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi, styrkjum skólana okkar enn frekar og þann mikla mannauð sem þar starfar, hlúum að börnunum okkar og unglingum og eflum íþrótta- og æskulýðsstarf með áherslu á hollustu og forvarnir. Styrkjum eldri borgara á fjölbreyttan hátt  með aukinni þátttöku í samfélaginu og ráðgjöf þeirra (lærum af reynslunni og hlustum). Aukum gæði þjónustu við íbúa og hjálpum sérstaklega þeim sem flytja í sveitarfélagið að komast inn í samfélagið hvort heldur það er fólk af erlendum uppruna eða frá öðrum sveitarfélögum. Bjóðum samkeppnishæfar gjaldskrár, gætum hófs í fjármálum en framkvæmum til framtíðar fyrir fólkið sem hér býr í dag og til framtíðar á umhverfisvænan og uppbyggjandi hátt.

Við erum heppin að hafa hreint vatn og loft, miklar auðlindir og sterkt atvinnulíf, öflugt mennta- og velferðarkerfi og hvað annað sem við njótum. Við á D-listanum ætlum að hlúa að því sem við eigum og rækta það enn betur.


Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri

Sæl Eva!

Meðfylgjandi eru svör okkar frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins á Akureyri við spurningum ykkar í Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis.

Krabbameinsfélagið skorar á öll framboð að beita sér fyrir forvörnum gegn krabbameinum sem felast meðal annars í hvatningu til heilbrigðra lífshátta. Mikilvægt er að yfirvöld sýni frumkvæði og stuðli þannig að því að færri veikist af krabbamein, samfélaginu öllu til hagsbóta.

Félagið skorar á sveitarstjórnarfólk að gefa lýðheilsu meira vægi með því meðal annars að:

  • banna reykingar á opinberum svæðum sveitarfélaga

Það er vandséð hvernig á að framfylgja slíku banni ef verið er að hugsa um svæði utanhúss, en alveg réttlætanlegt að setja slíkt bann að öðru leyti sem gerir reykingafólki erfiðara fyrir. Þetta snýst fyrst og fremst um áróður gegn reykingum. Reynslan hefur sýnt að það er hægt að ná miklum árangri með góðum og stöðugum áróðri, þar duga engin átök sem hafa upphaf og endi. Það þarf að breyta hugsun eins og tekist hefur að mörgu leyti.

  • hvetja til betri nýtingar svæða sem ætluð eru til hreyfingar og útivistar

Þetta verður einnig gert með aukinni hvatningu. Akureyri er aðili að lýðheilsuverkefni með embætti Landlæknis. Á Akureyri hefur verið byggð upp margskonar aðstaða úti sem inni sem nýta má til hreyfingar og útivistar. Það þarf að leggja áherslu á hvatningu til hreyfingar og útivistar allt árið. Þetta á að gera með margvíslegum hætti í góðu samstarfi við stofnanir og fyrirtæki. Er sennilega einnig góð forvörn gegn streitu og þunglyndi.

  • hvetja til frekari hreyfingar hjá börnum með því að gefa hreyfingu meira vægi í skólastarfi

Mjög mörg börn stunda hreyfingu með íþróttaiðkun af ýmsu tagi í dag og hefur úrval íþróttagreina aukist mikið á síðustu árum með bættri aðstöðu til íþróttaiðkunar. Það þarf hins vegar að ná betur til þess hóps sem ekki skilar sér til íþróttafélaganna. Gagnvart þeim hópi barna og unglinga þurfum við að huga að öðrum leiðum. Skoða þarf með samtölum við þennan hóp hvar áhugi þeirra liggur og hvað má bjóða þeim þannig að þau vilji taka þátt. Það má auka vægi hreyfingar í skólum enn frekar. Það verður þá helst gert með auknu vægi frímínútna þar sem er t.d. boðið upp á skipulagða hreyfileiki.

  • bjóða upp á hollan mat í leik- og grunnskólum og mötuneytum á vegum sveitarfélaganna

Ég veit ekki til annars en að það sé lögð mikil áhersla á að bjóða upp á hollan mat í mötuneytum leik- og grunnskóla. Það eiga vera samræmd innkaup þar sem hráefni sem keypt er verður að uppfylla ákveðnar kröfur sem settar hafa verið um hollustu. Þetta er alltént mjög mikilvægt að gera og það þarf að liggja fyrir hvert innihald matvælanna er og vera aðgengilegt á upplýsingasíðu.

  • auðvelda einstaklingum sem búa við þröngan efnahag að stunda fjölbreytta hreyfingu 

Það eiga allir íbúar að eiga gott aðgengi að fjölbreyttri hreyfingu. Það eiga flestir gott aðgengi utanhúss og einnig í sundlaugum. Það hefur ekki verið eins gott aðgengi að innanhúss hreyfingu fyrir almenna íbúa nema í gegnum líkamsræktarstöðvar af ýmsu tagi en þá þarf að greiða fyrir. Það hefur einnig kostnað í för með sér að taka þátt í hópíþróttum s.s. öldungablaki. Það ættu flestir að geta sinnt slíkri hreyfingu og líkamsrækt, ef ekki þarf að bregðast við með sértækum aðgerðum. Minni á að við ætlum að hækka frístundastyrk til barna að 18 ára aldri í 50.000 kr. á ári sem ætti að öllu óbreyttu að auka möguleika efnaminni foreldra á að kosta íþrótta- og tómstundastarf barna sinna. Þá leggjum við áherslu á heilsueflingu eldri borgara sem við teljum vera mjög mikilvægt til að auka lífsgæði þeirra þegar aldurinn færist yfir. Það má t.d. gera með því að bjóða í meira mæli upp á skipulagða hreyfingu undir stjórn fagfólks.

Kveðjur bestar!

Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi Akureyrarkaupstað

Sími:  8921453

Vinstri græn og óháð í Norðurþingi

Almennur texti um markmið framboðsins

V-listi vill búa íbúum sterkt velferðarsamfélag þar sem hagur fjölskyldunnar og heilbrigt umhverfi er forsenda ákvarðanatöku og forgangsröðunar sveitarstjórnar. Sveitarfélagið Norðurþing á að mæta þörfum allra aldurshópa og hvers kyns fjölskylduformum.  Það eiga allir að geta fundið sér stað í Norðurþingi.

ÚR MÁLEFNASKRÁ V -LISTANS, Vinstri græn og óháð í Norðurþingi:

Í grunnskólum Norðurþings verði boðið upp á gjaldfrjálsan hafragraut í upphafi hvers skóladags fyrir alla nemendur.

Grunnskólar Norðurþings felli ávaxtastund inn í skóladaginn án aukins kostnaðar fyrir foreldra og leggi af nesti að heiman.

Lóð leikskólans Grænuvalla verði stækkuð og hún bætt til að mæta breyttri þörf vegna lækkandi inntökualdurs. Einnig bæta aðkomu og bílastæði.

Norðurþing hvetji til heilsueflandi vinnustaðamenningar og gangi á undan með góðu fordæmi.

Stofna þverfaglegt teymi félagsþjónustu Norðurþings og HSN til að efla forvarnir og úrræði fyrir börn og ungmenni með áherslu á geðheilbrigði.

Uppeldis- og agastefnan Jákvæður agi verði hluti af stefnu sveitarfélagsins sem heilsueflandi samfélags. Foreldrum í Norðurþingi verði boðið upp á námskeið sér að kostnaðarlausu.

Lokið verði við hönnun og skipulag fyrir endurbætur á Sundlaug Húsavíkur, miðað við nýja 25 m sundlaug og tilheyrandi breytingar.

Byggður verði nýr golfskáli á Katlavelli með vegtengingu við Holtahverfi, í samstarfi við Golfklúbb Húsavíkur.

Útivistarsvæðið við Reyðarárhnjúk verði útfært til almenningsíþrótta og skíðaiðkunar í samráði við áhugaaðila á svæðinu.

Íþróttafélög verði efld til að takast á við ný verkefni og auknar kröfur, t.a.m. í tengslum við #metoo- og eineltisumræðu síðustu missera.

Innleiða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna - barnvænt samfélag.

Að Norðurþing verði leiðandi í að draga úr sóun og plastnotkun og gangi á undan með góðu fordæmi í rekstri eigin stofnana.

Að ekki verði skipulagt eða veitt byggingarleyfi á Bakka fyrir stóriðnað sem útheimtir nýjar eða umdeildar virkjanir. Sama á við um starfsemi sem veldur óviðunandi umhverfisáhrifum

Endurbæta sundlaugina í Lundi í Öxarfirði og lengja opnunartímabil, meðal annars til eflingar ferðaþjónustu á svæðinu.

Ljúka við hönnun og hefja framkvæmd malbikaðs hjóla-/göngustígakerfis:

  • Eftir Stangabakka, með vistlegum áningarstöðum.
  • Til og frá atvinnusvæðinu að Bakka.
  • Að Húsavíkurhöfða, við Sjóböð og önnur mannvirki þar.
  • Frá Húsavík og suður að tjörnum ofan Kaldbaks, að Saltvík og áfram yfir í Reykjahverfi að Hrísateig.
  • Skrúðgarðurinn á Húsavík.
  • Á völdum leiðum með ströndinni við Kópasker og á Raufarhöfn.

Endurbæta leikvelli og útivistarsvæði í sveitarfélaginu með aukna afþreyingu og heilsueflingu í huga.

Hefja þarfagreiningu fyrir fjölnota frístundahús sem nýtist fyrir frístund barna, félagsstarf ungmenna og tómstundastarf íbúa sveitarfélagsins.

Ljúka vinnu við Reykjaheiðarveg og Öskjureit/Búðarvöll á kjörtímabilinu.

Koma upp aðstöðu, svo sem útibekkjum, borðum, salernum og/eða útigrillaðstöðu, fyrir ferðafólk við öll vinsæl útivistarsvæði, t.d. Gullfiskatjörn og Botnsvatn á Húsavík, við vitann á Kópaskeri og tjörnina við Raufarhöfn.

Leggja áherslu á gott aðgengi fyrir alla. Auðvelda umferð gangandi og hjólandi vegfarenda í þéttbýli allan ársins hring.

Lögð verði sérstök áhersla á fegrandi aðgerðir í miðkjörnum þéttbýlisstaða Norðurþings. Samvinna verði höfð við aðila eins og hverfisráð, ungmennastarf, vinnuskóla, listafólk, félagasamtök, húseigendur og lóðarhafa.

Samfylkingin Akureyri


Hér er erindi frá Samfylkingunni Akureyri varðandi stefnu framboðsins í lýðheilsumálum.

Við þekkjum væntanlega öll þann skaðvald sem krabbamein er og viljum við byrja á því að þakka fyrir það góða starf sem Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis hefur sinnt undanfarin ár.

Styttum vinnuvikuna

Forvarnir og lýðheilsa er að okkar mati mikilvægasta verkefnið næstu misserin. Samfylkingin vill að Akureyrarbær sé ábyrgur þátttakandi í þeirri mikilvægu stefnubreytingu sem nauðsynlegt er að verði í samfélaginu; að stytta vinnuvikuna. Álag, kvíði, streita og tímaskortur hefur áhrif á heilsu okkar og líðan. Við þurfum öll að hafa tíma til að hreyfa okkur, elda hollan og góðan mat, stunda slökun og vera í góðum tengslum við fjölskyldu og vini, svo eitthvað sé nefnt. Þetta er stórt lýðheilsuverkefni og mikilvægt að Akureyrarbær bíði ekki aðeins eftir því að vinnumarkaðurinn leysi málið, heldur taki af skarið með tilraunaverkefni þar sem rannsóknir á árangri skiptir sköpum, ekki síst til þess að leggja fram gögn þegar kemur að kjaraviðræðum á almennum markaði.

Tryggjum jöfnuð

Samfylkingin á Akureyri leggur áherslu á að við allar stofnanir bæjarins, ekki síst leik- og grunnskóla, sé í boði hollur og næringarríkur matur. Við viljum halda áfram uppbyggingu göngu-, hjóla og reiðstíga, auk þess að hlúa að grænum svæðum til þess að allir geti notið útivistar, án þess endilega að þurfa fyrst að setjast upp í bíl. Á liðnu kjörtímabili var frístundastyrkur bæjarfélagsins hækkaður verulega og aldursbil þeirra barna sem hans njóta rýmkaður til muna. Við viljum halda þeirri vegferð áfram og hækka frístundastyrkinn í 50.000 krónur, auk þess sem ónýttir frístundastyrkir verði settir í sjóð sem notaður er til þess að styrkja börn og ungmenni sem ekki njóta skipulegs frístundastarfs. Þar að auki viljum við leggja áherslu á að efla samstarf skóla-, tómstunda og íþróttafélaga, bæði til þess að stytta starfsdag barna og koma inn aukinni hreyfingu í dag þeirra. Við erum að sjálfsögðu fylgjandi banni á reykingum á opinberum svæðum sveitarfélagsins.

Heilbrigðisþjónusta óháð búsetu

Fyrir utan áherslur Samfylkingarinnar á Akureyri í málefnum er varða sveitarfélagið sjálft, þá teljum við mikilvægt að bæjarfulltrúar beiti sér í landsmálunum. Nauðsynlegt er t.d. að berjast fyrir auknu fjármagni til heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri, en langir biðlistar eftir tímum hjá heilsugæslulæknum er ólíðandi. Tryggja þarf jöfnuð fólks til að sækja heilbrigðisþjónustu, sama hvar það býr á landinu. Aðgengi að heimilislæknum er lykilþáttur í því að greina sjúkdóma sem fyrst.

Samfylkingin er stjórnmálahreyfing þar sem grundvallarhugmyndafræðin er jöfnuður; eitt samfélag fyrir alla. Samfylkingin á Akureyri leggur áherslu á að allir hafi jöfn tækifæri til mannsæmandi lífs.

B-listi Norðurþingi

Svar til Krabbameinsfélags Akureyrar & nágrennis

  • banna reykingar á opinberum svæðum sveitarfélaga

Framboðið hefur ekki mótað stefnu um málið með beinum hætti. Hinsvegar eru forvarnir og lýðsheilsa í víðum skilningi eitt af leiðarljósum framboðsins.

  • hvetja til betri nýtingar svæða sem ætluð eru til hreyfingar og útivistar

Við viljum fjölga göngu- og hjólreiðarstígum sem lið í að efla hreyfingu og útvist.

  • hvetja til frekari hreyfingar hjá börnum með því að gefa hreyfingu meira vægi í skólastarfi

Við leggjum metnað í málið og tengja íþróttir í skólum við skólastarf og frístundaheimili sömuleiðis.

  • bjóða upp á hollan mat í leik- og grunnskólum og mötuneytum á vegum sveitarfélaganna

Það er gert nú þegar.

  • auðvelda einstaklingum sem búa við þröngan efnahag að stunda fjölbreytta hreyfingu

Við viljum taka upp hvatastyrki með áherslu á nýbúa, ungt fólk og börn í dreifbýli og efnaminni sömuleiðis.

Kveðja, Hjálmar Bogi

Oddviti B-lista Norðurþingi

861-1765

Framsókn á Akureyri

Sæl hér er þetta frá Framsókn

Forvarnir, hvatning til íþróttaiðkunar og almenn lýðheilsa skipa stóran sess í stefnuskrá Framsóknar á Akureyri. Í þessum málaflokki viljum við:

  • Hækka frístundaávísanir í 50 þúsund krónur á kjörtímabilinu
  • Leggja áherslu á aukna hreyfingu og lýðheilsuhugsun í leik- og grunnskólum
  • Auka þátttöku fólks á öllum aldri í íþrótta- og tómstundastarfi
  • Auka ráðgjöf og heilsueflingu eldri borgara
  • Byggja upp hjóla- og göngustíga sem raunhæfan samgönguvalkost
  • Bæta sálfræði- og aðra sérfræðiþjónustu í skólum og stytta ferli frá ósk um aðstoð til aðgerða
  • Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn kvíða og þunglyndi
  • Styðja enn frekar við starfsemi Rósenborgar í málefnum ungmenna
  • Auka forvarnir gegn vímuefnum
  • Setja á fót áfangaheimili fyrir ungt fólk sem er að koma úr áfengis- og fíkniefnameðferð

Með góðri kveðju,

Þorsteinn G. Gunnarsson
S: 898 3779

Vinstrihreyfingin Grænt framboð Akureyri

Sæl Eva. Hér í viðhengi eru svör frá Vinstrihreyfinguni grænu framboði. Takk kærlega fyrir að setja forvarnir og lýðheilsumál á dagskrá!

Grundvallaratriði í stefnu VG fyrir bæjarstjórnarkosningar á Akureyri 2018 er lýðheilsa. Við teljum afar mikilvægt að ákvarðanir séu teknar með það í huga að stuðla að betri heilsu almennings á öllum aldri. Við horfum sérstaklega til þess að auka daglega hreyfingu og útiveru ásamt því að minnka álag og stress í hversdagslífinu.

Við viljum hvetja fólk til að nota bílinn minna og fá þannig meiri daglega hreyfingu og útiveru.  Við viljum vera til fyrirmyndar fyrir aðra vinnustaði og bjóða starfsfólki Akureyrarbæjar upp á samgöngusamninga, þar sem fólk fær aukagreiðslu gegn því að koma ekki á bílnum í vinnuna.

Við viljum minnka álagið í hversdeginum. Sérstaklega hjá börnum og fjölskyldum þeirra. Þetta gerum við með því að efla leikskólakerfið og minnka kostnað foreldra við að hafa börn í leik- og grunnskóla. Við viljum líka tengja frístundir betur við skólastarfið til að minnka skutl og stress og hafa þann hluta tómstundastarfs gjaldfrjálsan. Þarna viljum við líka vera til fyrirmyndar fyrir aðra vinnustaði og stytta vinnuvikuna hjá starfsfólki bæjarins.

Við viljum að máltíðir í skólastarfi séu gjaldfrjálsar og að sjálfsögðu eiga þær að vera hollar.

Við viljum efla forvarnir gegn vímuefnaneyslu og neyslu tóbaks.

Við viljum standa vörð um starfsemi frjálsra félagasamtaka sem sinna þjónustu og stuðningi af fagmennsku. Við viljum styðja við starfsemi þeirra á fjölbreyttan hátt og þökkum það ómælda sjálfboðna starf sem sinnt er af hugsjónafólki.

kv, Sóley Björk

s: 844-1555

Vestmannaeyjar

Heimaey

Takk fyrir spurningarnar. Hér fyrir neðan  eru punktar sem taka á þessu úr stefnuskrá okkar.

  • Banna reykingar á opinberum svæðum sveitafélagsins?
  • Hvetja til betri nýtingar svæða sem ætluð eru til hreyfingar og útivistar
  • Hvetja til frekari hreyfingar hjá börnum með því að gefa hreyfingu meira vægi í skólastarfi
  • Bjóða uppá hollan mat í leik- og grunnskólum og mötuneytum á vegum sveitafélaganna
  • Auðvelda einstaklingum sem búa við þröngan efnahag að stunda fjölbreytta hreyfingu.

Í stefnuskrá okkar kemur fram að við viljum endurskoða forvarnastefnu bæjarins sem er komin til ára sinna. Það er margt verið að gera til að efla lýðheilsu. GRV er heilsueflandi grunnskóli og er þar fræðsla og viðburðir tengdir því. Í leik- og grunnskólunum er unnið eftir lýðheilsumarkmiðum varðandi skólamat.

Orðrétt úr stefuskránni, við viljum;

Styðja við einstaklinga og fjölskyldur óháð aldri og leggja áherslu á að hafa fjölbreytt val í íþrótta-, æskulýðs- og tómstundarstarfi. Forvarnargildi skipulagðrar íþrótta- og tómstundastarfsemi er margsannað með rannsóknum og mikilvægt er að styrkja börn og ungmenni til að velja heilbrigt líf.

Hækka frístundastyrk og lækka upphafsaldur í 2ja ára

Nýta og skilgreina betur opin svæði m.t.t. fjölskyldusvæða, afþreyingar og útivistar.

Langtímastefnumörkun vegna göngu- og hjólastíga

Við vitum að lýðheilsa er mjög mikilvæg og höfum það hugfast í öllu okkar starfi.

Kveðja

Fyrir Heimaey, Íris Róbertsdóttir

Sjálfstæðisflokkurinn 

Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum þakkar Krabbavörn fyrir erindið og þakkar um leið það góða starf sem við vitum að fer fram í félaginu. Þegar alvarleg veikindi steðja að þá er félag líkt og Krabbavörn afar dýrmætt.

Varðandi þær spurningar sem beindar eru til framboðsins þá vill framboðið koma eftirfarandi á framfæri.

  • banna reykingar á opinberum svæðum.

Mikilvægt er að tryggja almenningur verði ekki fyrir áhrifum óbeinna reykinga vegna reykinga á opinberum svæðum.  Þannig þarf að staðsetja „stubbahús“ og fl. þannig að þær séu úr alfaraleið.  Á sama hátt þarf að tryggja rétt fólks á samkomum á opinberum svæðum.

  • Hvetja til betri nýtingar svæða sem ætluð eru til hreyfingar og útivistar

Sjálfstæðisflokkurinn hefur þegar lagt umtalsverða vinnu í að gera útivistarsvæðin okkar vistlegri með það að markmiði að nýting þeirra verði betri.  Áfram verður haldið á næsta kjörtímabili verði flokkurinn í meirihluta og er þar ma. horft til þess að koma upp blakvelli í miðbænum, skólahreystivelli, bæta göngustíga og margt fl.

  • hvetja til frekari hreyfingar hjá börnum með því að gefa hreyfingu meira vægi í skólastarfi

Við munum hér eftir sem hingað til hvetja til hreyfingar hjá börnum í skólastarfi.

  • bjóða upp á hollan mat í leik- og grunnskólum og mötuneytum á vegum sveitarfélagsins

Að sjálfsögðu mun áfram verða boðið upp á heilsusamlegan mat. Við erum afar lánsöm að sá matseðill sem unnið er eftir í skólum okkar er með hollustu að leiðarljósi. Það sama á við um mötuneyti á vegum sveitarfélagsins. Þá fer reglulega fram úttekt t.d. á gæðum og þess háttar en slíkt skiptir máli upp á aðhald og eftirlit.

  • auðvelda einstaklingum sem búa við þröngan efnahag að stunda fjölbreytta hreyfingu

Í Vestmannaeyjum erum við svo heppin að geta stundað alls kyns hreyfingu án þess að hún kosti mikið fjárhagslega. Vestmannaeyjabær hjálpar þeim sem á þurfa að halda í gegnum fjárhagsaðstoð.  Þá hafa einnig vera tekin upp tómstundastyrkir sem létta undir með greiðslu gjalda fyrir barnafjölskyldur.