Heilsamín
  • Notist daglega
  • Endurnýjast sjálfkrafa
  • Geymist þar sem börn ná til

Hugum að mataræðinu

 

Virtar stofnanir á sviði krabbameinsrannsókna gefa ráðleggingar um mataræði til að minnka líkur á krabbameinum. Þessar ráðleggingar eru í samræmi við íslenskar ráðleggingar um mataræði sem gefnar eru út af Embætti landlæknis og byggja á norrænum næringarráðleggingum.

Til að minnka líkur á krabbameinum er ráðlagt að borða mikið af heilkornavörum, grænmeti, ávöxtum og baunum. Einnig er ráðlagt að takmarka neyslu á rauðu kjöti (eða sleppa) og forðast unnar kjötvörur og sykraðar vörur eins og gosdrykki. Ekki er ráðlagt að nota fæðubótarefni sem forvörn gegn krabbameinum. Ofangreindar ráðleggingar um mataræði til að minnka líkur á krabbameinum eiga líka við fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein.

Athugið að einstaklingar sem grænmetisætur, vistkerar, pescatarian, grænkerar eða eru með fæðuofnæmi eða óþol geta oft fylgt þessum ráðleggingum í samræmi við þá mataræðisstefnu sem þeir fylgja og sleppa þá þeim fæðutegundum sem þeir ekki borða. Ef fæðutegundum er sleppt þarf að gæta þess að fá mikilvæg næringarefni úr annarri fæðu eða mögulega með bætiefnum.

Hér eru helstu ráðin frá Embætti landlæknis:

Borðum fimm skammta (500 grömm) á dag af ávöxtum og grænmeti


Borðum heilkornavörur (hafrar, heilhveiti, rúgur, bygg, hýðishrísgrjón, kínóa o.s.frv.) minnst tvisvar á dag. Veljum kornvörur sem eru merktar með skráargatinu


Takmörkum neyslu á rauðu kjöti (nauta-, svína-, lamba- og hrossakjöt) við hámark 500 grömm á viku. Veljum skráargatsmerktar kjötvörur


Veljum fjölbreytta próteingjafa svo sem fuglakjöt (hvítt kjöt), fisk, eggja-, bauna- og grænmetisrétti


Takmörkum neyslu á unnum kjötvörum sem hafa verið reyktar, saltaðar eða rotvarðar með nítrati eða nítríti (saltkjöt, spægipylsa, beikon, pylsur, bjúgu, kjötfars, hangikjöt, skinka o.s.frv.)


Borðum fisk tvisvar til þrisvar í viku. Æskilegt er að ein af fiskmáltíðunum sé feitur fiskur, t.d. lax, bleikja, lúða eða makríll


Veljum fituminni og hreinar mjólkurvörur. Hæfilegt magn eru tvö glös, diskar eða dósir af mjólk eða mjólkurvörum (500 grömm) á dag. Ostur getur komið í stað mjólkurvara til að uppfylla kalkþörfinni þannig að 25 grömm af osti svara til 250 ml af mjólk eða 250 grömmum af jógúrti, súrmjólk eða skyri. Veljum skáargatsmerktar mjólkurvörur


Æskilegt er að auka hlut mjúkrar fitu (jurtaolíur, feitur fiskur, hnetur, fræ og avókadó) á kostnað harðar fitu (smjör, smjörlíki eða kókosfeiti). Veljum skráargatsmerktar vörur


Notum minna salt – bæði með því að velja matvörur með litlu eða engu salti og með því að takmarka notkun á salti við matargerð. Veljum skráargatsmerktar vörur


Forðumst sykraða drykki og gætum hófs í neyslu á sælgæti


Nauðsynlegt er að taka inn D-vítamín daglega yfir vetrarmánuðina sem fæðubótarefni (lýsi, lýsistöflur eða D-vítamíntöflur)

 

Nánari upplýsingar má finna hér:

Ráðleggingar um mataræði - Embætti landlæknis

Eat wholegrains, vegetables, fruit & beans - World Cancer Research Fund

Limit sugar sweetened drinks – World Cancer Research Fund

Limit red and processed meat – World Cancer Research Fund

Do not use supplements for cancer prevention – World Cancer Research Fund

Diet and cancer - European Code against Cancer

Spis sundt - Kræftens bekæmpelse

Jóladagatal: Mjólk og krabbamein

Jóladagatal: Gómsætar fiskuppskriftir í aðdraganda jóla


Var efnið hjálplegt?