Lóa Björk Ólafsdóttir 24. mar. 2020

Til aðstand­enda sem ekki geta heim­sótt ást­vini á sjúkra­stofnanir

Heimsóknarbann ríkir nú á flestum sjúkrastofnunum nema í algjörum undantekningnum og reynist það mörgum þungbær staða.

Við sem samfélag göngum í gegnum undarlega tíma þessar vikurnar í tengslum við Covid-19 veiruna. Það er eðlilegt að ástandið taki sérstaklega á þá sem hafa greinst með krabbamein eða teljast vera í áhættuhóp, og aðstandendur þeirra. Heimsóknarbann ríkir nú á flestum sjúkrastofnunum nema í algjörum undantekningnum og reynist það mörgum þungbær staða.

Mikilvægt er að hafa í huga að í þessum aðstæðum er fullkomlega eðlilegt að upplifa óöryggi, eirðarleysi, kvíða og vanmáttarkennd. Það er eðlilegt að upplifa söknuð og depurð yfir því að geta ekki verið í návistum við og stutt við þann sem liggur veikur inn á sjúkrahúsi. Einnig er eðlilegt að áhyggjur af andlegu og líkamlegu ástandi viðkomandi geri vart við sig.

Þessi staða er eitthvað sem við höfum ekki þurft að takast á við áður og eru aðgerðir víðtækar og afgerandi í þeim tilgangi að verja fólk í áhættuhópum og heilbrigðisstarfsfólk. Svo vitnað sé í orð Sigríðar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala í viðtali í morgunþætti RÚV þann 24. mars, þá er ljóst að “það eru einstaklingar sem eru að færa stærri fórnir en aðrir fyrir okkur öll til þess að halda veirunni í skefjum” og beinir hún þá orðum sínum að þeim þurfa að líða fyrir heimsóknarbannið sem nú hefur þurft að grípa til.

Hér koma nokkur ráð til þín sem stendur í þessum sporum í von um að eitthvað af þeim geti komið að gagni.

 • Notaðu tæknina. Mörgum reynist vel að eiga samskipti í gegnum forrit þar sem hægt er að tala saman í mynd (skype, facetime eða messenger svo eitthvað sé nefnt). Ástvinur þinn gæti þurft aðstoð frá starfsfólki við þetta. Einnig gæti reynst vel að senda kveðjur eða stutt myndbönd í gegnum tölvupóst, messenger, smáskilaboð eða aðra miðla.
 • Mikilvægt er að hafa í huga að úthald hjá ástvini þínum gæti verið af skornum skammti og því gott að taka fram að hann þurfi ekki að svara til baka kveðjum. Einnig gæti þurft að passa að ekki séu of margir að hringja á hverjum degi. Betra gæti verið að skipuleggja fyrir fram hverjir eru í sambandi við hann dag hvern og biðja þann aðila að skila kveðju.
 • Hefðbundið eða rafrænt myndaalbúm með andlitum fjölskyldumeðlima og vina eða myndum frá skemmtilegum og eftirminnilegum augnablikum gæti hjálpað ástvini þínum.
 • Mikilvægt er að ekki séu margir úr fjölskyldunni að hringja á deildina til að fá upplýsingar um ástand ástvinar heldur er betra að hafa einn til tvo tengiliði sem sjá um þau samskipti. Gott er að spyrja heilbrigðisstarfsfólk hvenær best henti að hafa samband.
 • Ef þú hefur áhyggjur af því að ástvinur þinn sé dapur eða kvíðinn er hægt að kanna möguleika á að hann fái samtal við fagaðila, ef hann sjálfur samþykkir það. Best er að ræða þau mál við starfsfólk á deildinni.
 • Reyndu að huga eins vel að þér og þú getur því þannig heldur þú best styrk og jafnvægi fyrir þig og fjölskyldu þína í gegnum þennan tíma. Þetta getur þú til dæmis gert með því að;
  • Leitast við að halda svefninum í reglu og að fá nægan svefn.
  • Hreyfa þig á hverjum degi.
  • Muna að nærast reglulega og neyta koffíndrykkja í hófi.
  • Leitast við að hvíla hugann og dreifa huganum. Til dæmis getur handavinna, að púsla, slökun og hugleiðsla, góð bók eða bíómynd verið eitthvað sem hjálpar.
  • Smelltu hér til að hlusta á leidda slökun
 • Það er dýrmætt á þessum tímum að fjölskylda og vinir reyni að þjappa sér saman og styðja við hvert annað. Það er gott að hafa í huga að öll erum við ólík og getum brugðist við á misjafnan hátt í aðstæðum sem þessum.

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins býður upp á viðtöl símleiðis þar sem hægt er að fá ráðgjöf og stuðning í síma 800 4040. Við erum tilbúin að hlusta og liðsinna þér eins og við best getum.


Fleiri nýjir pistlar

7. apr. 2020 : Upplifun og líðan á tímum Covid-19

Streita og áhyggjur eru eðlilegur hluti af því að takast á við krefjandi aðstæður, eins og núna eru uppi. 

Lesa meira

2. apr. 2020 : Núvitundarganga

Það er hægt að nota ýmsar aðferðir og æfingar til að tileinka sér líf í núvitund. Ein æfingin snýst til að mynda um að æfa núvitund á göngu en þessar vikurnar eru einmitt margir sem stunda gönguferðir til að styrkja líkama og sál. 

Lesa meira

26. mar. 2020 : Covid-19: Næring og matvæli

Birna Þórisdóttir sérfræðingur í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu fjallar um næringu og matvæli í ljósi aðstæðna af völdum Covid-19.

Lesa meira

13. mar. 2020 : Gefðu þér gæðastund

Einstaklingar tjá okkur oft að þrátt fyrir allt hafi veikindin fært þeim ákveðna gjöf. Sú gjöf felur oftar en ekki í sér nýjan skilning á því sem lífið raunverulega snýst um.

Lesa meira